12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1931

Sigurður Eggerz:

Ég á hér eina brtt., III. á þskj. 260, sem fer fram á það, að lagðar verði 70.000 kr. til Vesturlandsvegar. Ég býst nú við því, að mörgum kunni, fljótt á litið, að þykja ég vera nokkuð kröfufrekur um þennan veg, en ástæðan til þess, að farið er fram á þessa upphæð, er sú, að vegamálastjóri lítur svo á, að ef þessi upphæð verði veitt, megi fyrir hana lagfæra veginn svo, að Dalasýsla komist í samband við veganetið í Borgarfjarðarsýslu og höfnina í Borgarnesi. Nú er það svo, að ég verð að lýsa ánægju minni yfir þeirri niðurstöðu, sem orðið hefir um það, hvar vegurinn skyldi liggja. Fyrst var hugmyndin, að hann skyldi lagður um Lagárdal að norðan, en svo var það kveðið niður; nú á hann að liggja um Bröttubrekku, og er nú búið að vinna fyrir 23.000 kr. Fjárveitingin var upphaflega 20.000 kr., en svo var bætt við þrem þús. kr. Ef svo þessi upphæð bætist við, álítur vegamálastjóri, að megi koma Dalasýslu í samband við Borgarfjarðarvegina.

Ég skal geta þess, að hæstv. atvmrh. hefir ritað ýmsum mönnum um þessa vegarlagningu, og hafa þeir skilið það svo, að meiningin sé að koma þessum vegi af í ár; eru það mönnum því mikil vonbrigði, ef það verður ekki hægt.

Ég skal geta þess, að þegar þessi vegur er kominn upp brekkuna, þá mundi það leiða af sjálfu sér, að komnir eru akfærir vegir í Saurbæinn og að Staðarhrauni, því að það er gert ráð fyrir því, að með fremur litlum aðgerðum sé hægt að koma hinum veginum áfram. Ég vænti þess vegna, þegar svona stendur á, og þörfin er mikil fyrir Dalasýslu að fá þetta vegasamband opnað og hæstv. stj. virðist óska að koma þessu sambandi á, að hv. d. sýni þá sanngirni að veita nú þegar þessa upphæð, svo að þetta samband megi opnast sem fyrst. Ég hygg, að þótt farið sé í gegnum allar vegalagningar á landinu, þá muni það sýna sig, að þörfin er óvíða eins mikil og hér. Ég skal geta þess, að kjósendur mínir í Dalasýslu voru mjög glaðir yfir þessu bréfi, sem þeim barst allmörgum frá hæstv. atvmrh., að nú væri ætlunin að koma þessari vegagerð af. Vona ég því, að hv. d. vilji styrkja hinn góða vilja hæstv. atvmrh., með því að veita þessa upphæð. Vegamálastjóri vill, ef þessi upphæð verður veitt, reyna að koma veginum af í ár, þó er það ekki alveg víst, að það takist, en næsta ár er það fullvíst að koma megi honum af. Þótt þessi upphæð sé nú hækkuð um 30.000 kr., þá er það, eins og allir vita, að verði þetta ekki veitt í ár, þá verður það veitt að ári, og þess vegna finnst mér réttmætt að taka nú tillit til þessarar sanngirniskröfu Dalasýslu um að veita þetta. Skal ég svo ekki eyða fleiri orðum til að mæla með þessari brtt. minni, en treysti fast á sanngirni hv. d. til að fylgja henni fram.