27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

86. mál, kosningar til Alþingis

Pétur Ottesen:

Ég skal nú ekki fara að ræða hina guðfræðilegu hlið þessa máls, enda varlega í það farandi fyrir óbreytta alþýðumenn svona í sömu andránni eða rétt á eftir að um þá hlið málsins hafa fjallað í deildinni tveir hálærðir guðfræðingar, núv. prestauppfræðari og fyrrv. prestur á Hesti, sem einu sinni treysti sér til að gerast boðberi Krists, þótt annað hafi nú orðið hans hlutskipti í lífinu. En hitt finnst mér dálítið kynlegt, að þegar hæstv. forsrh. er búinn að halda 5–6 ræður um þetta efni, þá lýsir hann því yfir, að allar þessar umr. séu óþarfar. Annars var það erindi mitt með því að standa upp að benda hv. þdm. á þrjú atriði úr helgidagalöggjöfinni. Í fyrsta lagi vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp 1. gr. helgidagalaganna frá 1926. Hún byrjar svo:

„Á helgidögum þjóðkirkjunnar er bönnuð öll sú vinna, úti og inni, er hefir hávaða í för með sér eða fer fram á þeim stað eða með þeim hætti, að hún raskar friði helgidagsins“.

Hér er vitanlega átt við allar þær athafnir, er ástæða er til að ætla, að hafi röskun helgidagsfriðarins í för með sér. Nú hefir því verið lítillega lýst, hvernig kosningar fari almennt fram, og mun engum, sem til þekkir, blandast hugur um, að þeim hljóta að fylgja hin mestu helgidagsspjöll. (SÁÓ: Enginn hávaði). Ef hv. 4. þm. Reykv. heyrir engan hávaða, þegar á kosningum stendur, þá er það af því, að sá hávaðinn er fyrir löngu búinn að gera hann heyrnarlausan.

Þá vil ég drepa á annað atriði úr helgidagalögunum. Í 6. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Almenna fundi má eigi halda um veraldleg efni á helgidögum þjóðkirkjunnar fyrr en um nónbil“.

Með þessu er slegið föstu, að kosningar geta ekki hafizt fyrr en um nónbil.

Ætla ég, að það megi vera okkur ljóst, bændum og öðrum, að það eru ekki nein búdrýgindi að nota sunnudaginn í þessu augnamiði, þegar við megum ekki taka til starfa fyrr en kl. 3.

Þriðja atriðið, sem ég vildi benda á, er í 8. gr. helgidagalöggjafarinnar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum, frá 5–1.000 kr.“.

Nú vildi ég benda á það, hvort menn héldu, að það mundi ýta undir kjörfundarsókn, að eiga á hættu að verða sektaður um 5–1.000 kr. fyrir að sækja kjörfund. Ég vil ekki leiða slíkt yfir kjósendur í þessu landi og mun greiða atkv. móti frv.