27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

86. mál, kosningar til Alþingis

Héðinn Valdimarsson:

* Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., að mér er ekki kunnugt um þau myrkraverk, sem séu unnin á þessu landi á kosningardaginn. En það virðist sem hv. 2. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Reykv. sé kunnugt um það, og um drykkjuskap samfara kosningum.

Það, sem gerir nauðsynlegt að hafa kosningar á hvíldardegi, er það, að ef þær eru á almennum virkum degi, er mikill hluti fólksins upptekinn og á erfitt með að sækja kosningar, sérstaklega verkamenn, sem vinna frá kl. 6 á morgnana til kl. 6 á kvöldin; og um þennan tíma er oft unnið fram yfir. Það kann að vera auðvelt fyrir skrifstofufólk að fá sig laust, en það geta verkamenn ekki. Þeir, sem vinna við kosningar, eru mestmegnis sjálfboðalið. Ég veit ekki, hvernig það er í hinum herbúðunum, en hjá okkur er það allt óborgað, og menn geta farið, þegar þeir vilja. Þeir, sem vilja fara í kirkju, geta það þrátt fyrir kosningarnar, því að það tekur skamman tíma, ekki nema svo sem 5 mín., að komast að til að kjósa. Ég veit, að í kirkju á sunnudögum fer aðeins lítill hluti safnaðarins, enda rúma kirkjurnar ekki nema brot af söfnuðinum, svo að þetta er lítil ástæða.

Hv. þm. Borgf. vildi halda því fram, að þetta væri á móti helgidagalögunum, af því að við kosningar færi fram vinna, sem hefði hávaða í för með sér. Nú vita menn, að helgidagalöggjöfin er alls ekki framkvæmd í þessu landi, og sérstaklega gengu þau lög, sem síðast voru samþ., í þá átt, að auðveldara yrði að brjóta þau. Þeir, sem hafa aðgætt, hvernig sunnudagar ganga hér í Reykjavík, gera sjálfsagt lítinn mun á kosningadögum og öðrum dögum, þegar fólkið þyrpist úr bænum upp að Álafossi, austur yfir fjall, inn á veðreiðar o. s. frv.; þá er stöðugur bílagangur um allan bæ, og það sama er á kjördag. En önnur ærsl veit ég ekki um, nema það væri þá innan herbúða hv. þm. Um það er mér ekki kunnugt.

Annars finnst mér ekki vera hægt að tala um kjörfund eins og aðra fundi. Þar sitja einir 3 menn við borð, og sá fjórði kemur inn og greiðir atkv. Það mætti þá alveg eins kalla „bílæta“-sölu fund.

Ég fyrir mitt leyti er með þessari till. hæstv. forsrh., að hafa helgidag fyrir kjördag. En þó mundi ég jafnvel til samkomulags, ef einhver kæmi með þá till., vilja hafa laugardag, ef hann yrði þá lögskipaður hvíldardagur, svo að yfirleitt væri engin vinna framkvæmd á þeim degi önnur en sú, sem framkvæmd er á helgidögum.