27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

86. mál, kosningar til Alþingis

Magnús Jónsson:

* Það er eiginlega burtu fallið eftir ræðu hv. 1. þm. Skagf., sem ég vildi segja. Ég ætlaði að beina þeirri eindregnu ósk til hans, að hann tæki sína till. aftur, því að ég get búizt við, að þessi till. hæstv. forsrh. verði samþ. hér, þinginu til skammar, og þótti því réttast að láta stj. hafa eina allan heiður af því að fyrirskipa fyrstu skylduvinnuna á helgidegi.

Annars verð ég að segja það, að mig furðar stórlega á hræsni hv. 2. þm. Reykv. Þetta er svo sem ekkert, sem hann hefir þurft á sig að leggja við kosningar! Ég vildi bara að ég vissi, hvað margar tunnur af svita hann á hér á Reykjavíkurgötunum frá kosningadögunum, því þó að margir vinni vel, þá er meira þeytispjald en hann ekki til. En þetta segi ég ekki honum til vanvirðu, heldur til að sýna, að margir áhugasamir menn vinna ekki meira annan dag ársins en þennan.

Það er misskilningur, að ég telji það nokkuð ljótt, sem fer fram á þessum degi, þótt ég hinsvegar lýsi því hræsnislaust, að kjördagarnir eru yfirleitt sukksamir dagar, bæði í flestum kaupstöðum og líka yfirleitt til sveita. Það leiðir af ákafanum, sem er í mönnum, og því, sem þarf að koma í verk.

Ég sé, að það er þá ekki til neins að beina þessari ósk til hv. 1. þm. Skagf., úr því að hann er búinn að taka af um það. En ef þessar till. verða ekki samþ. hér, vitum við ekkert, hvaða dagur verður tiltekinn, því að við vitum ekki, hvaða stj. situr þá.