01.03.1930
Efri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

86. mál, kosningar til Alþingis

Jón Baldvinsson:

Hv. 6. landsk. lét í ljós þá skoðun, að það yrði ekki bagalegt fyrir kaupstaðina, þó að kjörfundur byrjaði eftir kl. 12, og jafnvel þó að hann byrjaði ekki fyrr en kl. 3. En ég verð nú að álíta, að ef kjörfundur er settur svo seint, verði engin leið að ljúka kosningum af, a. m. k. ekki hér í Reykjavík. Stundum hefir kjörfundur hér byrjað kl. 3, og þá hefir honum ekki verið lokið fyrr en kl. 12 á miðnætti, en þá hefir reyndar ekki verið um þingkosningu að ræða. En nú er að aðgæta það, að í kosningalögunum frá 1915 er það ákveðið, að kjörfund skuli setja á hádegi. Þetta ákvæði skilst mér, að gildi þrátt fyrir helgidagalöggjöfina, svo að kjörfund verði að setja kl. 12, en það er vitanlega í hendi stj. að færa til messu þennan dag, ef hún vill, og láta guðsþjónustu fara fram kl. 10– 12, svo að menn geti gengið til kosninga með það rétta hugarfar, sem mér virtist, að hv. 6. landsk. þætti nauðsynlegt, að menn hefðu, þegar þeir gengju að kjörborðinu.

Það er mjög sennilegt, sem hv. þm. sagði, að sveitunum væri hentugast að hafa kjörfund á sunnudegi. Það er nú einu sinni svo, að alltaf er nóg að gera í sveitum. Menn kvarta undan fólksleysi, og því er það helzt ekki nema á helgidögum, að þeir geta fráskákað sér nokkuð. En um verkafólk í kaupstöðum er það að segja, að þótt það sé ekki alltaf í vinnu á virkum dögum, þá er það oft allan daginn að bíða eftir hvort það geti ekki fengið eitthvað að gera, og fer því ekki á kjörfund fyrr en eftir vinnutíma. Mér finnst því, að það sé rétt að hafa kjördag á sunnudegi í þetta sinn og sjá, hvernig það gefst. Það má vel vera, að rétt væri að hafa kjörfund alltaf á helgum dögum. Það er siður í Þýzkalandi, og ekki þykja þeir meiri guðníðingar en aðrar þjóðir. Svo er Þýzkaland heimkynni lúterskunnar, svo að okkur er engin minnkun í því að taka þá okkur til fyrirmyndar í þessu.

Ég mun greiða atkv. með frv. eins og það kom frá Nd. Það má ekki fresta afgreiðslu frv., því að annars verður undirbúningi ekki lokið á réttum tíma.