09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

1. mál, fjárlög 1931

Erlingur Friðjónsson:

Ég tók að nokkru leyti undir ummæli hv. 3. landsk., að ekki sé nægilega vel frá frv. gengið og að rétt hefði verið að taka inn á það meira af vöxtum, sem greiða verður á árinu 1931. En ég átti við það fé, sem nú er búið að leggja í dánarbú Íslandsbanka. Ég gat þess, að það væri ekki óvanalegt að líta fram hjá svona póstum, og talaði því ekki meira um þetta atriði.

Ég þarf að minnast á eina ofurlitla brtt. við 35. brtt. á þskj. 436, við 17. gr. 13.–19. (Slysa- og sjúkrasjóðir), þar sem hv. fjvn. vill bæta við dálítilli aths. um, að fjárveitingarnar undir þessum töluliðum séu bundnar því skilyrði, að jafnmikið fé að minnsta kosti komi annarsstaðar að, og stjórnarráðinu sé send skýrslu um starfsemina. Það er varla þörf á að skýra þessa litlu brtt. mikið. Þegar ég fór að athuga orðalag n., sá ég, að skilyrði hennar koma ekki að haldi, þegar fellt er burtu framan af liðnum það, sem ekki heyrir undir till. sjálfa, nefnilega fyrirsögn hennar. Hún fylgir eðlilega ekki með inn í frv. Því er nauðsynlegt að breyta og orða upphaf brtt. eins og ég legg til: Fjárveitingar undir 13.–19. tölulið eru bundnar því skilyrði o. s. frv. Ég vona, að hv. þdm. séu búnir að sjá, að þessa orðabreytingu þarf að gera til þess að aths. verði hreinlega skilin.

Mig langar til að minnast á eina brtt., sem hv. þm. Snæf. talaði um. Hv. fjvn. leggur til að fella niður 1.000 kr. styrk til söngkennslu við háskólann. Sennilega er það rétt hjá hv. þm. Snæf., að rangt sé að fella þennan lið alveg niður, þar sem ekki er víst nein önnur söngkennsla við háskólann en sú, sem greidd er með þessum styrk. Þó að ég væri með því að taka þennan lið út, hefi ég við nánari íhugun fallizt á, að rétt sé að lofa honum að standa. Ég vildi fara fram á það við hv. form. fjvn., að hann tæki þessa brtt., nr. 7 á þskj. 436, aftur til 3. umr. Hinsvegar get ég ekki fallizt á röksemdafærslu hv. þm. Snæf., að þetta ætti að vera hærra.(IHB: Spurning).

Þetta eru ekki nema tvær stundir í viku, sem söngkennslan fer fram, og koma þá, a. m. k. 12–14 kr. á tímann. Má telja það allrausnarlega borgað. En það mætti kannske hafa fleiri tíma.

Hv. form. fjvn. hélt, að fjárl. yrðu heldur ófrýn, ef samþ. yrðu allar hækkunartill., sem nú eru á ferðinni. Mér finnst ekki ákaflega háskalegt, þó að við hér í Ed. kæmumst upp undir 100 þús. kr. með hækkanir. Það verður þó tæplega svo mikið, sem aukin útgjöld. mundu nema, þó allar hækkunartill. fjvn. á þskj. 436 og einstakra þm. á þskj. 454 væru samþ. Ég er ekki með þessu að mæla með öllum þeim brtt., ég mun síðar sýna með atkv. mínu álit mitt á þeim, en ég vildi gera þessa aths. við það, sem hv. form. fjvn. sagði. Og ég vil benda hv. þm. á, að nú er á ferðinni í Nd. tekjuaukafrv., tóbakseinkasalan, sem ég vona að nái fram að ganga. Sá tekjuauki gæti vegið upp á móti. (JónJ: En Útvegsbankavextir?). Þar sem þeir eru ekki teknir með í reikninginn á fjárl. gætu þau litið sæmilega út, þó að útgjöldin hækkuðu dálítið.

Loks þarf ég að minnast á matreiðslustyrkinn til Bjargar Sigurðardóttur, sem ég flutti á síðasta þingi og hv. 2. þm. S.-M. flyttir nú. Það er rétt, að ég flutti þá till. þannig, að styrkurinn væri veittar í eitt skipti fyrir öll. Og mín skoðun er, að rétt sé að láta það duga, a. m. k. þetta ár. En viðvíkjandi því, að síldareinkasalan ætti að styrkja þessa konu, get ég sagt, að það hefir hún gert síðastliðið ár, og mundi kannske gera það áfram, ef þessi kona kennir lengur.

En það er eðlilegt, að Alþingi vilji líta eftir árangrinum, áður en það veitir meira. Ég mun greiða atkv. móti till., enda hélt ég því fram í fyrra, að þetta skyldi veitt í eitt skipti fyrir öll.