14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

238. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. flm. fyrir það að hafa tekið að sér flutning þessa frv. Frv. var svo síðbúið, að ekki var hægt að leggja það fram með öðrum stjfrv.

Út af aths. hv. þm. Dal. vil ég geta þess, að rekstur útvarpsstöðvarinnar ætti ekki að verða neitt kostnaðarmeiri, þótt frv. verði samþ., heldur þvert á móti. Hvað aðstöðuna til landssímans snertir, þá vil ég geta þess, að ráðinn hefir verið sérstakur maður til þess að hafa á hendi það, sem viðkemur hinni teknisku hlið starfsins. Sá maður verður vitanlega áfram. Hann er ráðinn samkv. þeim lögum, er nú gilda. Vitanlega. verður alltaf samvinna um þessi mál milli landssímans og þeirra, sem hafa á hendi framkvæmdir vegna útvarpsins. Gert er og ráð fyrir því í teikningu þeirri, sem nýja landssímahúsið verður byggt eftir, að útvarpsstöðin eigi þar einnig aðsetur sitt.

Að lagt er til, að útvarpsráðið verði stækkað, stafar af beiðni frá prestunum, sem óskuðu að eiga ítök í ráðinu. Þótti þá einnig rétt, að kennarar fengju sömu íhlutun. En þetta er vitanlega ekkert höfuðatriði og legg ég enga áherzlu á það. Aðalatriði þessa frv. er vitanlega einkasöluheimildin, sem ég er sannfærður um, að verður til mikilla hagsbóta bæði fyrir almenning og rekstur útvarpsins.

Skal ég svo ekki fleira mæla að sinni. Orð hv. þm. Dal. gáfu naumast tilefni til þess. Ég geri einnig ráð fyrir því, að frv. verði vísað til fjhn., og á hv. þm. Dal. sæti þar og getur þar komið fram með sínar aths.