14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

238. mál, útvarp

Pétur Ottesen:

Ég tel það ekkert vafamál, að afleiðing þessa frv., ef að lögum verður, mun verða sú, að stjórnarkostnaður verður meiri en samkv. núgildandi lögum. Bæði er það, að fjölgað verður mönnum í útvarpsráðinu, og svo er gert ráð fyrir því í núgildandi lögum, að landssímastjóri hafi hinar teknisku framkvæmdir á hendi án endurgjalds.

En nú á að fela öðrum það starf, og vitanlega þá fyrir fulla borgun. Ýms fleiri atriði koma líka hér til athugunar. En ég vil þó nú láta mér nægja að drepa á tvö þeirra.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að stj. fái heimild til einkasölu á tækjum. Á það að vera gert til þess að tryggja það, að almenningur fái betri tæki en ella myndi. En ég held nú samt, að brugðið geti til beggja vona um, að sá árangur náist. Ef nú svo skyldi fara, að illa tækist til með innkaup þessara tækja, þá fá ekki einungis sumir, heldur flestallir léleg tæki. Ef frjáls sala er á tækjunum, þá fer vitanlega eins og jafnan á frjálsum markaði, að þar sem keppt er um viðskiptin, þá heldur sá velli, sem bezta hefir vöruna á boðstólum. Þegar þekking eykst á þessu sviði, verða eingöngu keypt góð tæki. Hér reynir einmitt á það, sem talið hefir verið stærsti ókostur allrar einkasölu, að vörugæðin verða minni en á frjálsum markaði. Svo virðist mér einnig, að gæti farið hér, svo minni trygging yrði fyrir góðum tækjum en ef salan væri frjáls.

Ég vil skjóta því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að taka hin nýju ákvæði þessa frv. til rækilegrar athugunar. Ég býst við, að það sé margt fleira í frv. en það, sem ég hefi minnzt á, sem þurfi athugunar við, en ég hefi ekki lesið það ofan í kjölinn, heldur aðeins við fljótan yfirlestur rekið augun í þessi atriði, sem ég hefi bent á.