14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (2344)

238. mál, útvarp

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Út af því, að hv. þm. Borgf. sagði, að stj. útvarpsins yrði kostnaðarsamari eftir frv., þar sem eftir núgildandi 1. um útvarp væri ætlazt til, að þeir, sem með stj. útvarpsins færu, fengju enga borgun fyrir starfa sinn, vil ég leyfa mér að benda á það, að samkv. áðurnefndum l. er einmitt gert ráð fyrir, að landssímastjóri fái sérstaka þóknun fyrir það, sem hann kann að vinna á þessu sviði.

Það var rétt hjá hv. þm. Borgf., að annar höfuðtilgangur þessa frv. er sá, að tryggja útvarpsnotendum betri tæki. Ef einstakir menn fara með sölu tækjanna, eru meiri líkur til þess, að illa takist til um innkaup en ef sett yrði í stofn einkasala í þessu skyni, vegna þess, að þá yrðu innkaupin í höndum sérfræðinga, sem telja verður víst, að síður flaski í þessu efni en réttir og sléttir kaupmenn.

Hinsvegar eru framfarirnar á þessu sviði svo miklar, að ýmsar verzlanir, bæði hér og erlendis, liggja með feiknin öll af úreltum tækjum, sem þeim er fyrir miklu að selja, og þær því ef til vill kasta fram á markaðinn við litlu verði. Af þessum ástæðum má búast við því, að tilraunir verði gerðar til þess að glepja almenning á þessu sviði, ef varnagli er ekki við því sleginn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, enda geri ég ráð fyrir, að hinar ýmsu hliðar á þessu máli verði teknar til athugunar af þeirri n., sem væntanlega fær málið til meðferðar.