14.03.1930
Neðri deild: 53. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

238. mál, útvarp

Jón Auðunn Jónsson:

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að útvarpsnotendur hafi ráð á einum manni í hinu svonefnda útvarpsráði. Erlendis er það svo, að útvarpsnotendum er ætlað að tilnefna allt að helmingi útvarpsráðs, og sumstaðar jafnvel meira. Í Danmörku er nú um þessar mundir frv. á döfinni, þar sem gert er ráð fyrir, að útvarpsnotendur þar í landi tilnefni meiri hluta útvarpsráðs, og í Svíþjóð var þeim mönnum, sem útvarpsnotendur tilnefna í útvarpsráðið þar, nýlega fjölgað um tvo.

Það er ef til vill ekki ástæða til þess sem stendur, að útvarpsnotendur hér á landi hafi jafna þátttöku í útvarpsráðinu við útvarpsnotendur í nágrannalöndum okkar, vegna þess, hve útvarpið er hér lítið útbreitt enn sem komið er, en ég hygg þó, að ekki verði hjá því komizt að leyfa útvarpsnotendum að tilnefna tvo menn í útvarpsráðið. Ég hygg, að það mundi vekja óánægju — og það með nokkrum rétti —, ef útvarpsnotendum verður ekki heimiluð meiri þátttaka um útvarpsráðið en frv. mælir fyrir.

Það var alveg rétt hjá hæstv. forsrh., að framfarirnar eru afarmiklar á þessu sviði. Þær eru svo miklar, að þótt eitt firma skari fram úr með góð tæki í ár, getur svo farið, að það sé orðið úrelt á næsta ári, og þá völ á jafnvel 10–20 betri og fullkomnari tækjum. Ég tel það því mjög varhugavert, ef við förum að binda okkur við eitt firma um tilbúnað og sölu útvarpstækja hér á landi, eins og óttast má, að gert verði, ef einkasala er tekin á tækjunum. Auk þess verður í þessu efni að taka tillit til þess, að sumir vilja með tækjum sínum aðeins ná til útvarpsins hér í Reykjavík, en aðrir fá stærri og fullkomnari tæki, svo að þeim sé unnt að ná til útvarpsstöðva víðsvegar um heim.

Ég vildi aðeins benda á þessi atriði til athugunar þeirri n., sem fær málið til meðferðar.