07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

238. mál, útvarp

Sigurður Eggerz:

Út af þessum ummælum hæstv. forsrh. vil ég biðja hæstv. forseta að athuga það, í hvað þessar þrjár vikur hafa farið. Við höfum þann tíma verið uppteknir af eldhússtörfum o. fl. Ég minnist ekki, að þetta mál hafi verið rætt meira en sem svarar 20 mínútum eða hálfum tíma, en ég skal ekki „slást“ um, hvort það er fimm mínútunum lengur eða skemur.

Þetta er afaráríðandi mál og þýðingarmikið fyrir þjóðina, að vel sé frá því gengið. Svo eru ýms atriði, sem menn þurfa að fá skýrð fyrir sér. En ég mótmæli því fastlega, að hér hafi verið sýndur nokkur óhæfilegur dráttur af hendi minni hl. n., en þar sent hæstv. forsrh. heldur því fram, að við hugsum okkur að stöðva málið, þá vil ég aðeins benda á það, að stj. hefir meiri hl. í þinginu og svo ræður hún því, hvenær þingi er slitið, svo að ég veit ekki, hvaða kynngikraftur það er, sem við eigum að ráða yfir, sem geti stöðvað málið. Fyrir mér vakir það eitt að láta þá afstöðu, sem ég hefi, koma sem skýrast fram. Ég veit, að hæstv. forsrh. muni fallast á það með mér, að það sé ekki langur tími, þó að svona umfangsmikið mál hafi verið rætt í 20–30 mínútur í n.