09.04.1930
Efri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1931

Frsm. (Páll Hermannson):

Fyrst umr. verður ekki frestað, sé ég ástæðu til að segja nokkur orð. Hv. form. fjvn. hélt því fram, að fjvn. væri búin að taka afstöðu til allmargra brtt. á þskj. 454. Þó að ég kæmi á fund n. í morgun, þegar flm. voru ekki búnir að tala fyrir þessum brtt. og skýra þær, hefi ég ekki umboð fjvn. til að lýsa vilja hennar nema um örfáar. Ég skal þó nefna tvær.

Við XIII. brtt. á þskj. 454, sem er við 16. gr. 95, nýr liður, um allt að 2 þús. kr. til að rannsaka til fullnustu og gera laxgengan farveg Blöndu undan Enni, 1/3 kostnaðar, sem reyndar er víst prentvilla fyrir 2/3, — við þá brtt. skal ég geta þess, að n. hafði einmitt tekið þá ákvörðun að mæla með henni, áður en prentvillan kom til sögunnar. Nú veit ég ekki fyrir víst, hvort n. sæi sér fært að standa við það, þegar 1/3 breytist í 2/3. Þetta sýnir, hve varasamt það er fyrir fjvn. að taka ákvörðun til fulls, áður en þm. hafa talað fyrir till. sínum.

Ég skal líka geta þess, að n. hefir ákveðið að mæla með XIV. brtt., frá hv. þm. Ak., við 17. gr. 19., um nýja liði, 300 kr. til sjúkrasjóðs verkamannafélags Akureyrar, og 150 kr. til sjúkrasjóðs verkakvennafélagsins Einingar þar.

Um aðrar brtt. hefi ég ekki skrifað hjá mér neinar ákvarðanir af hálfu n.

Ég vildi leiðrétta þan ummæli mín, að styrkurinn til Mjallar næmi fullum 6 aurum á hvern lítra mjólkur. Nú í dag var mér sagt, að það sé rangt. Að vísu sé í hverri dós um einn lítra af niðursoðinni mjólk, en það jafngildi tveimur lítrum af nýmjólk. Þá er styrkurinn í raun og veru helmingi lægri á hvern lítra en ég og fleiri nm. hafa ætlað að hann væri.

Mér þykir nokkur ástæða til að minnast dálítið á þær undirtektir, sem tvær brtt. hafa fengið, þær einu sem ég persónulega hefi við fjárl. Hv. form. fjvn. benti á, að læknisbústaður Hróarstungulæknishéraðs mundi hafa fengið sinn styrk úr ríkissjóði áður. Það er alveg rétt. Hann hefir fengið þann styrk, sem allsstaðar er ætlaður til læknisbústaða með sjúkrastofum. Hitt þykja mér nokkuð kuldaleg og ómakleg ummæli hjá þessum hv. flokksbróður mínum, að Héraðsbúar hafi farið rasandi ráði, þegar þeir reistu þetta hús. Það er þægilegt fyrir þá, sem eru í hæfilegri fjarlægð, að segja mönnum að bíða, þangað til að samkomulag er fengið. En það er ekki jafnþægilegt í framkvæmdinni, þegar það kostar það að vera læknislaus. Þó að þessi ummæli megi kannske teljast réttmæt í orði kveðnu, þá er slíkt ómögulegt í veruleikanum. Þar er hægara um að tala en í að komast. Mönnum er sagt að bíða bara, svo skuli allt lagast af sjálfu sér, þegar tími sé kominn til. En hve lengi átti að bíða? Átti að bíða þar til annar helmingurinn var dauður, en hinn fluttur á mölina? Ég sé ekkert varasamt við það, eins og sakir standa, að verða við þessari umleitun. Ég held, að þingið þurfi ekki að sjá eftir því, þótt það sumstaðar geti bætt úr brýnustu þörfum landsmanna. Til þess situr það hundrað daga á ári.

Þá hafa og tveir hv. flokksbræður mínir minnzt á brtt. um gistihúsbyggingar, þeir hæstv. fjmrh. og hv. 6. landsk. Hæstv. fjmrh. sagði, að margir gestkvæmir staðir væru á landinu og margir gestrisnir bændur, og dettur mér ekki í hug að andmæla þessu. En þar sem gistihús með 20 rúmum er oft of lítið, hrekkur almenn gestrisni ekki til að bæta úr þörfinni. Þetta er að vísu ekki svo á Fossvöllum, en um Egilsstaði á það við. Hæstv. ráðh. vildi ennfremur halda því fram, að ekki væri sambærilegt að veita svona styrk til að reisa hús á jarðeignum einstakra manna og að veita hann til byggingar á jörðum, sem eru ríkiseign, eins og stundum hefir verið gert. Hv. 6. landsk. tók og í hinn sama streng. Þetta verð ég að leyfa mér að kalla firru. Það er ekki til þess að hækka verðið á jarðeignum sínum, að ríkið hefir styrkt nokkrar gistihúsbyggingar, heldur er það fyrst og fremst gert vegna umferðarinnar. Eins verð ég að efast um, að allar gistihúsabyggingarnar upp til fjalla, sem samþ. hafa verið fram að þessu, hafi verið gerðar í því skyni framar öllu öðru að forða slysförum og hrakningum. Ég er a. m. k. hræddur um, að það sé ekki svo um Ásólfsstaðagistihúsið. Ég man ekki betur en að það sé reist fyrst og fremst vegna ferðamannastraumsins á sumrin. Að Fossvöllum og Egilsstöðum koma menn hinsvegar oft hraktir af ferðinni yfir Fjarðarheiði, og eiga þessir staðir að því leyti sammerkt t. d. við. Bakkasel, Fornahvamm og Kolviðarhól. Mér kemur ekki til hugar að telja eftir styrk þann, sem veittur hefir verið til gistihúsa á þessum stöðum, en ég heimta réttlæti og jöfnuð milli landshlutanna í þessum efnum. Það getur ekki staðizt, að aðeins einstakir landshlutar eigi rétt á að njóta þessa styrks — Ég skil í sjálfu sér mjög vel, að hæstv. fjmrh. álíti það skyldu sína að halda sem fastast utan að peningum ríkissjóðs, en þá hefði bæði sjálfur hann og fyrirrennarar hans átt að vera strangari í þessum efnum áður. Hæstv. ráðh. hefði þá t. d. ekki átt að bera sjálfur fram í fjárlfrv. stóra fjárveitingu til gistihússbyggingar í Bakkaseli.