07.04.1930
Neðri deild: 73. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

238. mál, útvarp

Sigurður Eggerz:

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að honum fyndist ekki ástæða til, að málið væri rætt meira. Þetta segir hv. þm. eftir að hann er sjálfur búinn að halda ræðu, sem mér a. m. k. fannst löng. Það er þá svo um þetta mikla mál, að það má ekki gefa minni hl. tækifæri til að skrifa nál., og minni hl. má ekki fá tækifæri til að tala um málið, fyrr en búið er að samþykkja brtt., sem meiri hl. flytur. Þá ætlar hv. meiri hl. að gefa minni hl. tækifæri til að segja nokkur blessunarorð. Þvílíkt frjálslyndi!

Það er satt að segja farin að verða dálítið einkennileg meðferð á málum á hv. Alþingi. En því miður get ég ekki farið að ósk hv. frsm. og látið allar umr. um málið niður falla. Þvert á móti finnst mér full ástæða að skýra málið sem bezt í umr., fyrst nefndarhlutanum var neitað um að koma með álit. Það er þó sú minnsta krafa, sem gera verður, að nákvæmlega sé íhuguð sú löggjöf, sem um útvarpið gildir, áður en byrjað er á nýrri löggjöf. Og sérstaklega er í máli, sem er eins nýtt og þetta hér heima, nauðsynlegt, að allt sé íhugað sem bezt. Ég sé ekki betur en það sé fólgin hin mesta afturför í því, hvernig nál. er hagað yfirleitt hér á Alþingi. Hvert stórmálið á fætur öðru er nú afgr. með nál., sem ekki er lengra en svo sem eins og þetta (þm. mátar ca. 5 sm milli fingra sér), og þar er naumast annað sagt en að meiri hl. leggi með þessu og þessu. Svo kemur nál., sem ekki er nema hálf lína og segir, að minni hl. sé á móti. Svona eru nefndarstörfin á hinu háa Alþingi. Af hverju? Af því að mönnum er ekki gefinn tími til að rökstyðja sitt mál. Þetta tímaleysi verður tilfinnanlegast, þegar við komum að stórmálunum, sem skipta þjóðina miklu, eins og þetta stórmál.

Það eru svo mikil brögð að því, hvað nál. eru óskýr og illa framreidd, að það kom jafnvel fram á síðasta þingi frv. um það, að setja n. til þess að leiðbeina þm., hvernig þeir ættu að búa til lög. En þetta er ekki rétta leiðin, og þetta frv. er raunar eitthvert hlægilegasta frv., sem fram hefir komið í þinginu, og ég skoða það hreinustu móðgun við þingið í sjálfu sér. Og þar sem það er svo sjaldan, sem maður fær tækifæri til að þakka hæstv. stj. fyrir nokkurn skapaðan hlut, þá vil ég feginn grípa tækifærið nú til að þakka henni fyrir það, að hún hefir ekki látið þessi lög koma til framkvæmda, en lögin voru aðeins heimildarlög, og það því lagt á vald stj., hvort þau yrðu framkvæmd eða ekki.

Ég skal þá snúa mér að því frv., sem liggur fyrir. Áður en ég fer að ráðast á þá höfuðgalla, sem mér finnst vera á þessu frv., langar mig þó til að minnast á eitt atriði í 4. gr. frv., sem ég skal lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess skal stranglega gætt, að við útvarpið ríki skoðanafrelsi og að gætt verði fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum“.

Nú er það komið svo langt, að þegar samþ. eru hér á þingi sérstök lög, þá þarf að taka fram í þeim, að það ríki skoðanafrelsi í landinu. Ég vil benda hv. frsm. meiri hl. á, að ég hygg, að þetta standi ekki í lögunum, sem nú gilda, en það er hverju orði sannara, að til þess að þetta mikla menningarfyrirtæki geti orðið þjóðinni til góðs gagns, þá er nauðsynlegt, að hér sé fullt skoðanafrelsi og málum sé lyft upp fyrir allan pólitískan krít. En það er dálítið hart að þurfa að taka það sérstaklega fram í þessari löggjöf, þar sem það er tekið fram í stjórnarskránni, að skoðanafrelsi skuli ríkja í landinu.

Svo þegar maður hefir lesið þessi vísdómsfullu orð, um frelsi o. fl., þá kemur skipun útvarpsstjórans. Ég vil nú bara biðja menn að athuga það, hvort þeim finnst ekki þessi skipun hæstv. stj. undirstrika það ákaflega fast, að það skuli vera fyllsta skoðanafrelsi og að það skuli vera fyllsta óhlutdrægni gagnvart öllum stefnum í almennum málum. Það er valinn fyrrv. ritstj. „Tímans“, og hann á að passa upp á það, að ekki verði sýnd hlutdrægni í þessu máli. Þetta er fulltrúum þjóðarinnar boðið, og vér eigum að trúa því, að með þessari skipun sé öll hlutdrægni útilokuð. Vér höfum fengið Jónas Þorbergsson, hinn „gamla og góða“ ritstjóra „Tímans“, til þess að vera verndari skoðanafrelsis í landinu. Þennan hógværa, rólega mann, sem heldur sér fyrir utan allan pólitískan flokkadrátt. Það er nærri því merkilegt, hve stj. treystir sér til að fara langt í því að gera beinlínis háð að þjóðinni.

Ég ætla þá að víkja að þeim ágöllum, sem mér virðast á þessu frv. Ég vil fyrst biðja menn að hugleiða, að því hefir verið haldið fram til skamms tíma, að vér Íslendingar hefðum sérlega mikla þörf fyrir hagsýni og sparnað á þjóðarbúinu. Það hefir jafnan af Alþingi verið lögð sérstaklega mikil áherzla á það að stofna ekki mikið af lítt þörfum embættum, og gera yfirleitt ekki kostnað við almenn fyrirtæki óþarflega mikinn. Nú vil ég biðja hv. þm. að athuga það, hvort þeim sýnist þær brtt. ýmsar, sem gerðar eru við þetta frv., verði til þess að draga úr kostnaði við þetta fyrirtæki.

Í fyrsta lagi er fjölgað mönnum í útvarpsráði. Um það atriði hefir útvarpsráðið verið spurt, og telur það ekki ástæðu til að fjölga þar að svo stöddu. Enda sýnist það sæmilegt að hafa 3 menn í þessari n., meðan fyrirtækið er að fara af stað. Allir sjá, að það er kostnaður einn að bæta 2 mönnum við. Í fskj. frá landssímastjóra er líka minnzt á þetta og talið óþarft að bæta við í útvarpsráðið. Nei, það er auðséð, að sparnaðurinn á ekki upp á pallborðið hjá hv. meiri hl., sem nú ræður.

Í sambandi við sparnaðinn vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr 5. gr.: „Atvinnumálaráðherra skipar ennfremur aðra starfsmenn við útvarpsstöðina, eftir því sem þörf krefur, og ákveður laun þeirra, að fengnum till. útvarpsstjóra“.

Þarna sýnist mér satt að segja opnuð braut fyrir ýmsa nýja starfsmenn. Í gamla daga var stjórnunum ekki gefin taumlaus heimild til að bæta við starfsmönnum, eftir því sem þeim sýndist, og því síður að ákveða laun starfsmanna eins og þeim sýndist. Það getur vel verið, að mönnum finnist þessi stj. vera búin að skapa svo fáa bitlinga, að það sé óþarfi að leggja takmörkun á vald hennar í þessu efni. En ég er á öðru máli. Og mér finnst hér verið að undirstrika þá óvarfærni, sem kemur fram hjá þinginu á ýmsan hátt í taumlausum heimildum fyrir stjórnina.

Það er ófyrirsjáanlegt, hvað stj. bætir mörgum mönnum við til þess að reka þessa starfsemi. En ef dæma á eftir ýmsu, sem á undan er komið, þá gæti ég ímyndað mér, að fjárhagurinn batnaði ekki með því að veita þessa heimild.

Í till. landssímastjóra, sem að ýmsu leyti eru skýrar mjög, sem búast mátti við, rekur hann sundur gömlu lögin og segir, með leyfi hæstv. forseta, að rekstur útvarps greinist aðallega í:

1. Það, er lýtur að hinu útvarpaða efni, svo sem val þess, ráðning fyrirlesara eða listamanna, umsjón með, að þeir flytji fyrirlestra o. s. frv. á réttum tíma í útvarpssalnum, tilkynning til notendanna, hverju á að útvarpa, o. s. frv.

2. Fjárhagsstjórn.

3. Innheimtur, greiðslur, reikningshald o. s. frv.

4. Stjórn útvarpstækja og tilheyrandi véla.

Landssímastjóri segir í sínum. till., að í lögunum frá 7. maí 1928 heyri 1. og 2. liður undir útvarpsráðið, þ. e. að sjá um efni og sjá um fjárhagsstjórnina. En hefir þetta verið svo að öllu leyti? Ég get ekki skilið nauðsynina á að taka þá „teknisku“ hlið málsins undan símanum. Landssímastjóri sjálfur álítur þetta líka óviturlegt. Ég skal játa, að ég hefi ekki rannsakað þetta nákvæmlega, en ég hygg, að annarsstaðar muni þessu vera hagað líkt og landssímastjóri vill hér.

Landssímastjóri segir ennfremur: „Herra símaverkfræðingur Gunnlaugur Briem, er til þessa hefir haft með undirbúning útvarpsstöðvarinnar að gera, hefir tjáð mér, að hann telji ekki fært, eins og hér standa sakir, að aðskilja verkfræðilega yfirstjórn útvarps- og loftskeytatækja í landinu“.

Ég hygg, að engum detti í hug að kippa æðstu yfirstjórn loftskeytatækja úr hendi landssímastjóra. Og þar sem það er viðurkennt, að útvarp og loftskeytatæki þurfi að vera undir sömu æðstu stjórn, hvaða hugsanleg ástæða getur þá verið fyrir því að taka útvarpið undan landssímanum?

Það er annars dálítið skrítin regla, sem er verið að taka upp. Það er leitað umsagnar landssímastjóra og undirmanna hans, eins og til þess að tryggja það, að ágreiningur komi fram. Ætli það endi ekki með því, að leitað verði álits allra starfsmanna símans? Þá verður ekki erfitt að velja eitthvert álit, sem „passar í kramið“.

Það hefir jafnan þótt óviturlegt — og ekki sízt í okkar litla landi — að greina allt of mikið sundur skyld starfssvið, setja upp nýjar og nýjar skrifstofur með nýjum og nýjum kostnaði. Svo þegar þessar nýju skrifstofur eru komnar með nýjum formönnum, þá þarf að setja menn undir þessa formenn til þess að skrifstofurnar megi verða veglegri.

Ég sé ekki annað en þetta sé dulbúin tilraun til þess að búa til nýja skrifstofu, sem heiti yfirstjórn loftskeyta og útvarps í landinu.

Jafnvel þó að tækifæri gefist til að skýra þetta mál í nál., þá er auðvelt að benda á margt athugavert í frv. Samt er ég viss um, að hv. þm. V.-Húnv., sem vill spara mikið fyrir utan sitt kjördæmi, hann hefir ekki tekið eftir þessu, að hér er verið að búa til nýtt embætti. Því að ef það er ekki meiningin, hvaða ástæða er þá til að taka þetta frá símanum? Síminn hefir Gunnlaug Briem til þess að hugsa um útvarpið og loftskeytin. Hvað þarf að gera meira?

Ég vona, að ekki þurfi að orðlengja meir um þetta, þessi breyt. er ófær, enda hefir hún verulegan kostnað í för með sér.

Svo kemur höfuðboðskapurinn, sá mikli boðskapur, að ríkið skuli taka að sér einkasölu á þessum tækjum. Ataður hefir verið sendur utan til að rannsaka þetta mál. Hvað segir hann, þegar hann er búinn að ferðast um öll Norðurlönd? Er þar einokun? Nei. Þeim dettur ekki í hug að taka einokun á slíkum tækjum. Hérna þarf auðvitað að taka einokun. Hér er mikill áhugi á því að klófesta sem mest undir einokunina. En í þeim menntaða heimi annarsstaðar hefir einokunin ekki enn mikinn byr. Hvað mundi verða sagt með nágrannaþjóðunum, ef einhver þm. stæði upp og færi að slást fyrir einokun á nauðsynjavörum, á síld, á tóbaki, á öllu mögulegu? Jafnvel í Danmörku og Svíþjóð, þar sem jafnaðarmannastjórnir hafa setið um langan tíma, hvaða einokunarfrv. hafa sprottið þar upp? Engin. Ég veit ekki til þess, að Stauning hafi komið einu einasta einokunarfrv. í gegn, — og ekki reynt til þess. Þetta mættu þeir læra af honum einokunarfeðurnir hérna. Þá held ég, að Hjálmar Branting, sem þekktur var um alla Evrópu sem einn merkasti maður Svía, hafi ekki komið með neitt slíkt. Það er svo mikil birta yfir þjóðmálum hjá nágrönnum vorum, að einokunardraugurinn hlýtur að drepast um leið og hann rekur upp hausinn. Draugarnir lifa ekki í ljósinu. Hérna er öðru máli að gegna; hér veður allt í einokun. Ég neyðist til að minna á síldareinokunina. Hvernig hefir hún reynzt? Það fær enginn að vita. Það hvílir miðaldamyrkur yfir henni allri. (HJ: Ætlar hv. þm. að fara að útvarpa síld?) Hvílík spurning! Maður fær ekkert að vita um skaðabæturnar. Þó að spurt sé, fæst ekkert svar. Svo ætla menn að koma á þessari nýju einokun. — Það er auðvitað eitt af því, sem getur gert þessi lög og fyrirtækið óvinsælt, ef endilega þarf að smeygja einokuninni hér inn, einnig á þessu sviði. Það er svo sem alveg gefið, að í skjóli þessarar einokunar vaxa upp nýjar stöður. Stj. fær tækifæri til þess að veita nýja bitlinga, ný verðlaun. Enginn maður er svo hábölvaður, að ekki megi smeygja honum inn í einokunina. Hvers vegna? Vegna þess, að menn fá ekkert að vita, því að þar er starfað fyrir lokuðum tjöldum. Það er hulinshjálmurinn, sem þeir steypa yfir allar vitleysurnar, svo að ekki sé hægt að draga þær fram í dagsljósið. (HV: Hafa fengizt upplýsingar um, hvað bankastjórar Íslandsbanka hafa gert?). Hvernig var, þegar Landsbankinn var skoðaður? Hver varð niðurstaðan af matinu þá? Enginn fékk að vita um það. Þessi hv. þm., sem hamaðist frá morgni til kvölds í bankamálunum hérna um daginn og heimtaði rannsókn á rannsókn ofan, hann var með því að hylma yfir og þegja yfir og fela fyrir þinginu niðurstöðuna af rannsókninni á Landsbankanum. Og þó átti nýi seðlabankinn að grundvallast á þeirri rannsókn og á grundvelli þeirrar rannsóknar átti að taka ríkissjóðsábyrgð á bankanum. En af því niðurstaðan af rannsókninni var vond fyrir bankann, þá þagði ríkisstj. yfir niðurstöðunni og þingið fékk ekki einu sinni að vita neitt um hana.

Þegar búið er að koma einnig einokun á peningamál landsins, þegar búið er að koma þeim öllum undir einn stjórnarhatt, þá verður gaman að lifa á þessu landi, þá verða líklega nokkuð margir, sem ekki þora að segja það, sem þarf að segjast. (HK: O, þeir eru nokkuð margir eins og er, sem ekki þora að segja allt). Jú, þeir eru þó enn nokkuð margir, sem þora það. En þegar einokunin er komin í algleyming, þá verður líklega raunverulega lítið um skoðanafrelsi, þó það verði heimtað í einhverjum lögum. Ég verð enn að spyrja, úr því að ekki má skrifa nál. um málið og rökstyðja þær ástæður, sem móti því liggja: Hvaða ástæður eru til þess að taka einokun á þessum útvarpstekjum? Ég held því fram, að kostnaður verði svo mikill, að tækin verði langtum dýrari en þyrfti. Og þegar nokkur tími er liðinn, má búast við, að tækin verði orðin svo vond, að þau séu alls ekki fullnægjandi. Þetta er stórhættulegt fyrir útvarpið.

Ég hefi lýst yfir því, að ég telji það galla á frv. að fara að fjölga mönnum í útvarpsráði. Ég vil undirstrika það, að ekki hefir verið sýnt fram á nokkra þörf á þeirri aukningu. Ég veit að vísu, að þar á að verða einn maður fyrir hönd prestastéttarinnar. Ég skal ekki draga úr því, að þeir fái að segja það, sem þeir vilja. En svo rísa upp menn með aðrar trúfræðiskoðanir og heimta kannske líka að eiga mann í útvarpsráði. Ég held þess vegna, að menn eigi ekki að gefa neinum undir fótinn með því að búa til meira en þriggja manna útvarpsráð.

Ég þykist hafa sýnt fram á, að ekki sé nokkur ástæða til að taka teknisku hliðina úr höndum landssímastjóra. Loks hefi ég sýnt fram á, að allir þessir annmarkar, sem sýna sig á einokun, í hverri mynd sem er, þeir muni brátt koma í ljós á þessari, og að því síður sé ástæða til að koma henni á hér, að í nágrannalöndunum hefir hvergi verið farið inn á þá braut.

Yfirleitt hefi ég alltaf lagt fram þá spurningu, í hvert skipti þegar átt hefir að hindra hina frjálsu samkeppni og koma á einokun: Hver er ástæðan? Ég held, að feður einokunarinnar hafi ekki getað komið með neinar gildar ástæður. Svona var það, þegar síldareinokunin komst á. Sannleikurinn var, að þeir, sem börðu hana í gegn, gátu ekki fært neinar ástæður. Og nú er komið fram ýmislegt, sem ég ætla ekki að rekja, en það er nóg til að sýna, hve heppilegt það ráð var. Ég hefi reynt að draga upp mynd af göllum þessa frv. Ég hefi sagt. hver aðstaða mín varð eftir þessa 20 mínútna yfirvegun í nefndinni á því stórmáli, sem hér liggur fyrir.

Það geta vel verið nokkur atriði í þessu frv., sem ástæða væri til að samþykkja, annaðhvort í þessu frv. eða gera þær breyt. á núgildandi lögum um þetta efni. Ég játa hreinskilnislega, og þykir engin skömm, að eftir þessa stuttu athugun get ég ekki án frekari rannsóknar sagt nánara um þetta. Þó get ég m. a. bent á ákvæðið í 4. gr. um skoðanafrelsi. Því mundi ég fylgja. Það ætti ekki að þurfa að setja slíkt í lög, en vér, sem skiljum, á hvaða tímum vér lifum, sjáum oss þó ekki annað fært en samþykkja þetta. Útvarpslögin frá 1928 eru í sjálfu sér mjög einföld og óbrotin. Það hefir auðsjáanlega verið markmið löggjafanna að gera fyrirtækið sem allra óbrotnast. Mér sýnist, og ég veit, að ég er ekki einn um þá skoðun, að langbezt væri að byggja á þeim grundvelli, sem lagður er í þeim einföldu lögum, og breyta ekki fyrr en reynsla næstu ára hefir krafizt breytinga. Það er gullvæg regla í löggjöf að gefa ekki lögin fyrr en nauðsyn lífsins kallar. Það hefir alstaðar sýnt sig, að þau lög, sem nauðsynin kallar á, fá alltaf byr hjá þjóðinni. Þeim er vandlega hlýtt. Borgararnir kunna að meta þau. Þessari gullvægu reglu verður löggjafinn að muna eftir.

Sannarlega er ekki hægt að segja, að okkar þjóðlíf krefjist að hafa meira en þrjá menn í útvarpsráði. Það er engin nauðsyn að fjölga þeim í fimm. Því minni nauðsyn er að taka málin frá landssímastjóra og leggja þau í hendur útvarpsráðs. Og loks er sízt af öllu þörf á nýrri einokun! Á nú að klessa þeim stimpli á þetta menningarfyrirtæki? —

Vel hefði það farið, ef fenginn hefði verið sá útvarpsstjóri, sem allir vissu, að hefði ekki neina tilhneigingu til að nota útvarpið fremur fyrir einn stjórnmálaflokk en annan. Og það þurfti að fá mann, sem snortinn væri af andlegum menningarstraumum. Ég get í sjálfu sér ekki verið að hamast móti mönnum, þó að þeir hafi ákveðnar stjórnmálaskoðanir. En það eru viss svið, sem nauðsynlegt er að halda utan við pólitíska æsingu. Og eigi það nokkursstaðar við, þá er það hér. Mér finnst þjóðin eiga heimtingu á því, að þetta andlega svið sé friðhelgað.

Ég skal svo láta mínu máli lokið. En ég vildi mælast til þess við hv. þdm., að þeir athugi vel og gaumgæfilega lögin um útvarp og gæti að því að fara ekki að óþörfu að bendla málið við neina fjárbruðlun. Ég sé, að hv. frsm. meiri hl. er farinn að berja allfast í borðið og langar til að fá orðið. Ég vona, að það sé einskonar teikn um það, að hann hafi hlýtt á fjármálaathuganir mínar. Ég veit, að hann er sparnaðarmaður innst í hjarta sínu, eða talar stundum á þá leið, og þess vegna finnst mér, að hann verði að reyna að standa gegn þeirri fjársóun, sem er í uppsiglingu í sambandi við þetta mál.