09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

238. mál, útvarp

Magnús Guðmundsson:

Þó 2. umr. þessa máls væri löng, tók ég ekki til máls þá. En nú ætla ég að gera grein fyrir afstöðu minni, og vona ég, að hæstv. stj. telji það ekki málþóf.

Lög þau, sem hér er farið fram á að breyta, voru sett árið 1928 að tilhlutun núv. stj. Voru þau undirbúin af nefnd, sem til þess var skipuð, og flutt annaðhvort af stj. sjálfri eða af n. eftir hennar tilmælum. Nú vill hæstv. stj. gerbreyta þessum lögum, og er það gott sýnishorn af stefnufestu hennar.

Ég verð að segja það, að mér finnst margt einkennilegt í þessu frv., t. d. þetta ákvæði um óhlutdrægni í 4. gr.: „Þess skal stranglega gætt, að við útvarpið ríki skoðanafrelsi og að gætt verði fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í almennum málum“. Þetta ákv. hefir hæstv. stj. láðzt að setja í lögin 1928. Að hún finnur sig knúða til að taka þetta fram nú í frv., er auðvitað bein afleiðing af því, sem hún hefir gert í þessu máli síðan.

Þetta minnir mig á gamla sögu. Einu sinni í fornöld var vitringi einum falið að semja lög fyrir þjóð sína, og gerði hann það. En hann setti engin viðurlög við föður- eða móðurmorði. Þegar hann var spurður, því hann gerði það ekki, svaraði hann því, að honum hefði ekki dottið í hug, að svo hryllilegur glæpur gæti komið fyrir.

Eins hefir farið fyrir stjórninni og n., sem undirbjó lögin um útvarp 1928. Hvorki stj. né nefndin fundu ástæðu til að setja lagaákvæði um það, að útvarpsstjórnin skyldi vera óhlutdræg. En eins og vitringnum skjátlaðist í því, að ekki þyrfti að ákveða hegningu við föður- og móðurmorði, eins hefir nú sýnt sig, að það var skakkt hjá hæstv. stj., er hún áleit, að ekki þyrfti að taka fram, að útvarpið skyldi vera óhlutdrægt, úr því fram átti að koma það, sem nú er fram komið um skipun útvarpsstjórans.

Eina málsbót hæstv. stj. í þessu máli er sú, að hún skuli þó finna, að úr því, sem komið er, er ekki vanþörf á að lögákveða, að útvarpsstjórnin skuli vera óhlutdræg, og er það auðvitað góðra gjalda vert. Hinsvegar sýnir þetta ákvæði, hve slæma samvizku hæstv. stj. hefir yfirskipun útvarpsstjórans, er hún finnur ástæðu til að brýna sérstaklega fyrir honum óhlutdrægni. Annars hafa það jafnan verið talin óskrifuð lög, að opinberir starfsmenn skyldu vera óhlutdrægir. En hér þykja þessi óskrifuðu lög ekki nægileg. Mér verður á að spyrja: Ætli það verði ekki svipað um hin skrifuðu lög? Á það virðist mér benda, að síðan hinn nýskipaði útvarpsstjóri kom úr utanferð á ríkissjóðs kostnað, hefir hann sýnt, að ekki er ástæðulaust að óttast hlutdrægni af honum, því hann hefir um skeið rangfært eins mikið af því blaði, sem hæstv. forsrh. keypti hann frá með embættinu, eins og meðan hann var ritstjóri þess, þó hann sé nú á ríflegum launum frá ríkinu.

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki væri undarlegt þó Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti þessu frv., því það gæti snert hagsmuni kaupmanna. Ég held hann ætti sem minnst að tala um vináttu við kaupmenn, því að enginn hefir rétt kaupmanni eins stóran bita og hann sjálfur. Enginn annar ísl. ráðh. en hann hefir verið svo stórtækur að lána einum kaupmanni 300 þús. kr. af opinberu fé. Hann ætti því ekki að nefna snöru í hengds manns húsi.

Ýmislegt fleira er einkennilegt í þessu frv. Það er tekið fram, að útvarpsstjórinn skuli ráðinn „með fullum árslaunum“. Það á líklega að sýna, að laun hans eigi að vera nægilega há, og hafa hv. þm. þegar séð, að eftir þessu er rækilega farið, því að launin eiga að vera 9.300 kr.

Athugavert er og það, að í frv. eru yfirleitt engar launagreiðslur ákveðnar. Er það að verða síður þessarar hæstv. stj. að ætla sér sjálfri að ákveða laun þeirra manna, sem hún tekur í þjónustu landsins. Er það vitanlega alveg óviðunandi fyrir þingið. Það átti auðvitað að ákveða laun mannanna við þessa stofnun í samræmi við laun þeirra, er við landssímann vinna, sem er hliðstæð stofnun. En stj. vill heldur ákveða launin sjálf handa þeim gæðingum sínum, sem hún veitir atvinnu, og hefir hún þau sennilega ekki órífleg, ef að vanda lætur.

Í frv. er heldur ekki ákveðið, hvað marga starfsmenn á að ráða við útvarpið; því getur stj. einnig alveg ráðið. Það er undarlegt, en fróðlegt til athugunar, að í fyrra var ákveðið að sameina sem mest störfin við póst og síma, en nú aftur á móti leggur stj. til að greina algerlega sundur stjórn jafnskyldra stofnana og útvarpið og landssíminn óneitanlega eru. Eru þó störf þessara stofnana svo samantvinnuð, að sumstaðar er illt að greina þar á milli. Er þetta því undarlegri stefna, þar sem hún er þvert á móti tillögum landssímastjóra.

Það er nú komið í ljós, það sem ég benti á í fyrra, að tilgangur stj. með að sameina póst- og símastörf var sá, að fá tækifæri til að losna við þá menn úr stöðunum, sem henni er ekki vel við. Eins mun tilgangurinn með sundurgreiningu síma og útvarps vera sá, að fá störf handa vinum stj.

Fjölgun manna í útvarpsráðinu tel ég ekki til neins gagns. Ég vildi beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvað útvarpsráðsmennirnir eiga að fá mikið í laun. Það sést hvorki í fjárl. eða í frv.

Það er augljóst, að hæstv. ríkisstj. verður að festa talsvert fé í verzlun með útvarpstækin, ef hún tekur einkasölu á þeim. Með slíka hluti er ekki hægt að verzla, nema hafa til þess talsvert fé. Nú er í grg. frv. vikið að því, að útvarpið geti stundum haft allmiklar tekjur af einkasölu á tækjunum. Ég vil því líka spyrja hæstv. stj.: Er það tilætlunin að græða á sölu útvarpstækjanna, til að fá upp í kostnaðinn við útvarpið? Það hefir verið upplýst af landssímastjóra, að útvarpstækin eru seld hér um 30% ódýrara heldur en í öðrum löndum. Ég er hræddur um, að almenningi mundi þykja hart, ef gera ætti verzlunina með útvarpstækin að gróðalind fyrir ríkissjóð, til að vega e. t. v. meira eða minna á móti óþörfum kostnaði.

Einnig vil ég spyrja hæstv. stj., hvernig fara mundi um útvarpstæki, sem kynnu að verða búin til hér, ef einkasalan kemst á. Það hafa margir í huga að búa sjálfir til móttökutæki á einfaldan hátt, ef þau þurfa ekki að vera nákvæmari en það, að geta tekið á móti frá aflmikilli stöð hér. (HJ: Slík tæki hafa verið reynd og ekki gefizt sem bezt). Ég veit um mann, sem hefir dottið í hug að læra að búa til móttökutæki, og ég er ekki í neinum vafa um, að Íslendingar geta alveg eins lært þá list og aðrir, þó hv. þm. V.-Húnv. telji kannske efa á því. (PO: Ég þekki dæmi um, að íslenzk tæki hafa reynzt vel. — ÓTh: Ég líka). Það væri hart að banna mönnum þessa iðn með lögum, en auðvitað gæti þetta valdið talsverðri samkeppni við einkasöluna.

Ég held ég þurfi svo ekki að minnast á fleiri atriði að sinni. Aðeins vil ég benda á viðvíkjandi hagnaðarvoninni af einkasölu, að það getur stutt þá hugmynd, að fellt var niður úr frv. það ákvæði, að miða skyldi verð móttökutækjanna við lægsta smásöluverð í nágrannalöndunum. Þetta ákvæði í frv. þýddi auðvitað það, að hægt er að selja tækin 30% dýrari en nú er gert, samkv. upplýsingum landssímastjóra. En eftir að þetta var fellt úr frv., er stj. alveg sjálfráð. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh., hvað hann ætli fyrir sér um verðlag á tækjum.