14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

238. mál, útvarp

Jón Þorláksson:

Minni hl. fjhn. hefir ekki skilað áliti í þessu máli af þeirri ástæðu, að málið var ekki afgr. á nefndarfundi, og minni hl. var ókunnugt um, að málið hefði verið tekið upp til afgreiðslu þar til nái meiri hl. var útbýtt í hv. d. Það var að vísu svo, að þetta mál var tekið fyrir á nefndarfundi löglega boðuðum, en það stóð þá svo á, að nm. höfðu ekki kynnt sér málið og þau allmörgu og löngu fylgiskjöl, sem prentuð voru með því og sumpart með nál. í Nd., og þeim fundi lauk þess vegna án þess að ákvörðun væri tekin um málið. Því var beint frestað til þess að nm. fengju tíma til að kynna sér það.

Ég verð að segja, að mér þykir miður viðkunnanlegt, að ekki skyldi vera kallaður saman fundur aftur til þess að ljúka afgreiðslu málsins, en ætla ekki að gera frekar veður út af því, þar sem málið var tekið einu sinni fyrir á lögmætum fundi nefndarinnar.

En um frv. þetta er það að segja, að það er eitt af þeim mörgu frv. um embættafjölgun, sem sérstaklega einkennir feril núv. hæstv. stj. og meiri hl. Það eru ýms ráð notuð til embættafjölgunar, og eitt af þeim, sem tíðkuð hafa verið, er það, að taka einhverja sæmilega samstæða stofnun og kljúfa í tvær, til þess að geta fengið þörf fyrir fleiri forstjóra og fleiri starfsmenn.

Hér er farið fram á að taka útvarpsstöðina, sem verður ein af loftskeytastöðvunum í landinu, undan forstjórn landssímans, sem á að sitja eftir með hinar loftskeytastöðvarnar, þær sem nú eru og verða kunna. Og ég held það hafi ekki verið gengið lengra í því í annað sinn af hálfu stj. og núv. meiri hl., að skipta því, sem saman heyrir, svona beinlínis og eingöngu til þess að geta komið fleira fólki á ríkislaun.

Það er greinilega tekið fram í fylgiskjölum málsins, sérstaklega í ítarlegu áliti frá landssímastjóra, hvað óhjákvæmilegt er, að fullkomin samvinna ríki milli þeirra loftskeytastöðva, sem eru hér á sama stað. Og það er alltaf opin hætta fyrir því, að sú samvinna verði ekki eins nákvæm á öllum sviðum eins og vera þarf, ef þessar stöðvar eru settar sín undir hverja stj. að því er snertir allan „tekniskan“ rekstur.

Ég er þess vegna ekki í neinum vafa um, að þetta er víxlspor, sem verður að leiðrétta aftur, þegar menn eru búnir að átta sig á því, að það er ekki nægileg ástæða til að baka mönnum það óhagræði, sem skortur á samvinnu stöðvanna leiðir af sér, að það þurfi að koma fleiri mönnum á laun. Annars ætla ég ekki lengra út í þetta; ég veit það er þýðingarlaust. Ég veit, að hæstv. stj. hefir heimtað af flokksmönnum sínum, að þeir færi ennþá þessa fórn til viðbótar, til þess að hún geti haldið sínu „parlamentariska“ lífi.

En það hefir líka komið fyrir þessa hæstv. stj., að til þæginda við skipun embætta og sýslana hefir hún líka þurft að sameina stofnanir, og lengst gekk það á síðasta þingi. Þá þótti nú hentugt að brjóta upp á því að sameina póst- og símastjórn. Nú er farið fram á að skilja í sundur starfrækslu loftskeytastöðvanna, sem áður hafa allar heyrt undir símann. Þetta ósamræmi sýnir greinilega, að það liggur hér ekki á bak við nein skipulagsbundin hugsun, heldur eitthvað annað. En ég hefi ekki komið auga á neitt annað en það, sem ég hefi nefnt, að það verða sumpart fleiri stöður handa hæstv. stj. til að ráðstafa, og sumpart er það þægilegra að geta ráðstafað stöðum með því að losa þær, sem fyrir eru, eins og að nokkru leyti er tilgangurinn með frv. um að sameina póst og síma. Ég held það sé ómögulegt að gera neinum manni skiljanlegt, að gild ástæða sé fyrir því að sameina póst og síma eitt árið og slíta sundur símastarfræksluna sjálfa hitt árið. Þetta kemur samt fram, og maður verður að beygja sig fyrir staðreyndum. Í þessu tilfelli þeirri staðreynd, að hæstv. stj. er nú svona gerð, og hún hefir þingmeirihluta til að styðja sig að þessu.

Svo er eitt atriði í frv., að búa til ofurlítið einokunarhreiður, þar sem er verzlunin með loftskeytatækin. Það gæti verið svona til þægilegheita að fá þennan bita fyrir einn eða tvo af flokksmönnum hæstv. stj. undir því yfirskini að forða landsmönnum frá því að vera frjálsir um meðferð sinna eigin litlu peninga, þegar um það er að ræða að kaupa handa sér loftskeytatæki.