14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

238. mál, útvarp

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Hv. 3. landsk. þm. kallar eftir loforði af mér um að segja frá gangi málsins í fjhn. En loforð það verður skilorðsbundið, því að ef ástæða er til fyrir mig að svara, þá hefi ég í rauninni ekki ástæðu til að svara honum svo sem neinu.

Hv. 3. landsk. kvaðst ekki hafa skilað áliti um málið af því að hann hefði ekki vitað um afgreiðslu þess hjá meiri hl. En þegar málinu var frestað og auðsætt, að n. var klofin, var ákveðið af meiri hl. að taka endanlega ákvörðun um málið, eins og frá er skýrt á þskj. 504. Og það gerði meiri hl. vegna þess, að svo var áliðið þings, en hinsvegar búið að leggja mikla vinnu í undirbúning málsins, enda taldi ég ekki vitalaust af meiri hl. að láta hv. minni hl. tefja málið á þann hátt að skila ekki nál. Þegar meiri hl. var það kunnugt, þá sá hann enga ástæðu til að tefja málið fyrir þær sakir og stefna því í tvísýnu.

Að öðru leyti þarf ég eiginlega engu að svara hv. 3. landsk. Það hefir hæstv. forsrh. gert vel og vandlega.

Þó vildi ég geta þess, að þar sem hv. 3. landsk. minnist aðeins á eitt ítarlegt skjal, sem prentað væri með frv., sem sé bréf og umsögn landssímastjórans, að þá hefði hann getað alveg með eins miklum rökum nefnt bréf símaverkfræðingsins. Að vísu er álit landssímastjórans lengra, sem kemur af því, að þar er jafnframt um heilt frv. að ræða, en það er á engan hátt ítarlegra eða ábyggilegra en álit verkfræðingsins. Annars sé ég ekki ástæðu til að svara hv. 3. landsk. frekar, nema þá til þess að tefja tímann. Þó að hann vilji láta landsmenn sjálfráða um sín litlu auraráð, þá er þó löggjöfinni oft ætlað að setja höft þar á. En ég skil það ofurvel, þó að þetta snerti hann persónulega illa, því að hann er sjálfur verzlunarmaður og kaupmaður. Það er því dálítið spursmál, hvort hann eða aðrir kaupmenn geta skoðazt óhlutdrægir í þessu máli. Þess vegna held ég, að mótspyrna hv. 3. landsk. gegn frv. sé ekki sprottin að umhyggju hans fyrir smáaurum fátæklinganna, heldur sé það hagur verzlunarstéttarinnar, sem hann ber fyrir brjósti.