14.04.1930
Efri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2389)

238. mál, útvarp

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er ekki margt, sem ég þarf að svara, enda kom það á daginn, eins og ég hafði bent á, að hv. 3. landsk. er ekki alveg óhlutdrægur, þegar hann er að tala á móti einkasölu þeirri, sem frv. þetta ráðgerir. En samanburður hans á gömlu einokuninni og einkasölu ríkisins með vissar vörutegundir, er ekki sambærilegur, enda fjarstæða ein. Hv. þm. kom líka ofurlítið upp um sig, þegar hann sagði, að kaupmenn hefðu ekki verið á móti gömlu einokunarverzluninni. Þeir voru það einmitt ekki, af því að í skjóli hennar græddu þeir drjúgum. En nú hamast kaupmenn móti hverskonar einkasölu sem er, af því að þeir telja hana ganga á móti sínum hagsmunum. Kaupmenn eru alltaf sama sinnis; þeir hugsa aldrei um annað en sinn eiginn hag. Um hagsmuni fjöldans og hvað einstaklingum þjóðarinnar er fyrir beztu, láta þeir sig engu skipta.

Annars ætla ég ekki að fara langt út í þetta að sinni, enda finnst mér óþarft að vera að tefja umr. með því núna, síðustu daga þingsins. Læt ég mér því nægja þetta nú, þó að fremur sé það létt verk að afsanna það, sem hv. 3. landsk. sagði um þessa væntanlegu einkasölu og mig í því sambandi.