03.02.1930
Neðri deild: 13. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Hér eru á dag skrá þessa fundar í kvöld tvö frv. um Íslandsbanka. Hið fyrra hljóðar um, að bankinn skuli deyja, en hitt um að hann skuli lifa. Það frv., sem hv. þm. V.-Húnv. flytur, er um dauða bankans, en hitt, sem ég er meðflm. að, er um líf hans. Þar sem þessi frv. eru svo óskyld að efni, þó að þau séu um sama banka, þá ætla ég að hafa þá aðferð að ræða ekki um þetta frv., en bíða með það þangað til hitt frv. kemur til umr., sem ég er meðflm. að.

Það leiðir af sjálfu sér, að þar sem þetta frv. fer í þveröfuga átt við hitt, þá get ég alls ekki verið því hlynntur, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins. Úr því að hv. flm. óskaði eftir, að þetta frv. gengi til n., þá vil ég leyfa mér að stinga upp á, að það sé kosin sérstök n. í þetta mál. Hv. flm. gerði ráð fyrir, að það færi til fjhn. (HJ: Ég taldi það sennilegt). Þetta er tvímælalaust svo stórt mál, að ég legg mikla áherzlu á, að sérstök n. verði í það skipuð.

Vil ég því beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að þessi till. mín verði borin undir atkv. þdm., og vona ég, að hæstv. fjmrh. sé því ekki mótfallinn. Ég vil leyfa mér að stinga upp á, að í n. séu kosnir 5 menn með hlutfallskosningu. Að öðru leyti mun ég bíða með að ræða málið, þangað til hitt frv. verður tekið fyrir.