10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hæstv. forsrh. taldi, að það væri rangt farið með í nál. okkar minni hl. n., að Sveinn Björnsson sendiherra hefði hvatt til þess að Íslandsbanki yrði opnaður. Það er að vísu rétt, að sendiherrann hefir ekki með beinum orðum lagt það til. En þeir, sem fylgzt hafa með þessu máli og athuga það, sem liggur í skeyti sendiherrans, dyljast þess ekki, að hann varar við lokun bankans vegna afleiðinganna, og endar með því að segja beinlínis það álit sitt, að ef bankinn verði ekki opnaður, þá hljótist af því stórtjón fyrir lánstraust landsins erlendis. Með hverju öðru getur hann bent á það skýrar, að bankinn skuli opnaður aftur? Skoðun hans á málinu kemur svo greinilega fram í skeytinu, að engin ástæða er til þess fyrir hæstv. forsrh. að telja, að við förum rangt með, þó að við skýrum frá því með beinum orðum, sem sendiherrann segir óbeint.

Að öðru leyti er það um frv. að segja, að ég held, að enginn geti mælt því í gegn, að sameinað Alþingi skuli kjósa skiptanefndina, og ég sé ekki, að hæstv. fjmrh. hafi fært nokkur rök á móti því. Ef skiptanefnd á að taka við bankanum, þá álít ég heppilegast, að þingflokkarnir eigi um það að segja, hvernig n. verður valin. Ég vil vona, ef til þess kemur, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að verða við þeim óskum.

Ég er sammála hv. 1. þm. Skagf. um, að það ætti að skipa matsnefndina strax; ekki af því, að ég álíti, að hún hafi svo mikið verk að vinna, að til þess þurfi langan tíma, heldur af því, að allur dráttur málsins er óheppilegur, og því fyrr, sem það er afgert, því betra. Að öðru leyti vil ég segja það um matsnefndina, að eins og málinu er nú komið og það liggur fyrir, þá ætla menn, að stj. hafi ástæðu til að óska, að matið á bankanum verði eins svart og föng eru á. Það er bezt að segja það hreinskilnislega, að þeirri stj. hlýtur að vera það áhugamál að fá sem svartasta útkomu á bankanum, sem hefir fyrirfram undirbúin slík skiptalög um bankann. Ég vil beina þeirri bendingu til hæstv. stj., að í matsnefndina verði ekki valdir menn, sem komið hafa nærri pólitík, eða sem eru svo svæsnir fylgismenn stj., að þeir láti það ráða gerðum sínum og framkomu við matið. Þetta er aðeins aðvörun. Ég segi þetta ekki af því, að ég ætli stj. að stranda á þessu skeri. Ég væni ekki hæstv. fjmrh. um hlutdrægni að óreyndu og óska, að hann gjaldi varhuga við pólitískum óvinum bankans og skipi þá eina í n., sem njóta almenns trausts fyrir að vera glöggir, reikningsfærir og ráðvandir menn.