10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. G.-K. viðurkenndi það nú í ræðu sinni, að minni hl. hefði ekki farið rétt með skeyti Sveins Björnssonar, enda lægi það ekki fyrir opinberlega. Og þess vegna getur hvorugur okkar birt það, til þess að úr verði skorið, hvor hafi réttara fyrir sér. En ég held því hiklaust fram, að minni hl. n. hafi ofmælt. Og ég skal benda hv. þm. á annað, til þess að sýna, á hvað veikum grundvelli hann stendur í þessu máli, þar sem hann segir, að sendiherrann hafi símað ótilkvaddur og hvað eftir annað. En hv. þm. veit ekkert um, hvað fram hefir farið um þetta mál, hvað áður hafi verið símað og hvaða skeyti hafa farið héðan til sendiherra Sv. B. (ÓTh: Ekkert annað en það, sem getið er um). Hv. þm. veit ekkert, hvaða skeyti ég hefi sent um þetta mál.

Annars vil ég segja það út af því, sem hv. þm. Vestm. var að beina ásökunum til stj. fyrir drátt á málinu, að hv. þm. er kunnugt, hvernig þetta mál bar að, og að með það hefir verið farið samkv. eðlilegri rás viðburðanna. Ef hv. minni hl. meinar nokkuð með þessum ásökunum um drátt á málinu og álítur, að hann sé til ills, þá vil ég beina því til þessara hv. þm., að þeir verði þess ekki valdandi, að dráttur verði á afgreiðslu málsins, úr því sem nú er komið.

Hv. 1. þm. Skagf. óskar að fá tækifæri til þess að bera fram brtt. við frv., en ég vil nú beina til hans þeirri spurningu, hvort hann geti ekki verið því samþykkur og stutt að því í sínum flokki, að 3. umr. fari fram um þetta mál fyrir hádegi á morgun, svo að hv. Ed. geti strax eftir þann fund fengið frv. til afgreiðslu. Ég veit, að hv. þm. þarf ekki meiri tíma til þess að ganga frá sinni brtt. en svo, að hún geti legið fyrir til umr. kl. 10 í fyrramálið. (MG: Ég vil nú helzt fá að sofa í nótt). Þeir hv. þm., sem áður hafa talað um, að togarakarlarnir þyrftu ekki 8 stunda svefn í sólarhring, og voru á móti vökulögunum, þeir ættu að geta lagt á sig eina vökunótt. (ÓTh: Við erum ekki hættir). En svo að við sleppum nú öllu spaugi, þá vona ég, að ekki þurfi að vera meiri dráttur á málinu en svo, að við getum afgr. frv. frá Nd. fyrir hádegi á morgun.