10.02.1930
Neðri deild: 20. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Um það, hvort þetta mál hafi verið tafið að óþörfu, skal ég geta þess, að við umr. um Íslandsbankamálið færði ég glögg rök fyrir því, að eftir að samningatilraunum Sveins Björnssonar sendiherra var lokið, samkv. síðasta skeyti frá honum, þá hafi stj. dregið málið óhæfilega. Annars hefir okkur í minni hl. verið haldið utan við að fá upplýsingar í þessu máli, svo sem unnt hefir verið. Og það er nokkuð önnur meðferð á því eða kjöttollsmálinu, þegar símskeytin voru samin hér í þinginu og þingmenn komu sér saman um orðalag þeirra.

Ég stend vitanlega illa að vígi nú að tala um símskeyti, sem eiga að vera launungarmál og ég hefi gengið inn á að skýra ekki frá. En það, sem nú er opinbert, er þetta: að Sveinn Björnsson sendiherra hefir, þar um spurður, sagt sem rökstutt álit sitt, að ef bankinn yrði ekki endurreistur, þá mundi af því hljótast stórtjón. Ef þetta eru ekki meðmæli með því, að bankinn verði opnaður aftur, þá veit ég ekki, hvernig hægt er að orða það sterkara, óbeint. Það er ekki rétt af hæstv. forsrh. að hallmæla okkur minni hl. h. fyrir að við höfum gengið of langt í nál. okkar, því að það höfum við ekki gert.

Hv. 2. þm. Reykv. var eitthvað að skopast að því, að ég teldi nú óhæfu að pólitíkst litaðir menn yrðu skipaðir í matsnefndina, þó að ég hefði ekkert fundið athugavert við það áður, að Pétur Magnússon og Jakob Möller voru látnir meta bankann. En þar er því til að svara, að Jakob Möller gegnir slíku starfi sem embættisskyldu, og þá er ekki rétt að gera honum þær hvatir, að hann rjúfi sinn embættiseið og skyldu um að starfa eftir beztu vitund. Um Pétur Magnússon er það að segja, að hann hefir haft lítil opinber afskipti af stjórnmálum, og alls engin síðastl. 2 ár.

Annars var ég aðeins að vara hæstv. stj. við því, að skipa í n. menn, sem að flestra dómi væru öfgamenn, en ekki hinu, að hún mætti ekki nefna til þess einhverja af sínum flokksmönnum.

Annars hefi ég lagt áherzlu á, að mat framkvæmt af óvilhöllum mönnum hlýtur að vera traustara en mat gert af n., sem skipuð væri pólitískum öfgamönnum eða flokksmönnum þeirrar stj., sem borið hefði fram frv. um að taka bankann tafarlaust til skiptameðferðar. Ef hæstv. stj. hefði ekki borið fram þetta frv., þá væri ekki eins mikil ástæða til að ætla, að matsnefndin verði skipuð pólitískum öfgamönnum.

Ég vona því, að hv. frsm. meiri hl. skilji, að ástæða er til að ætla, að hæstv. stj. muni ekki æskja þess, að Íslandsbanki verði opnaður aftur, úr því að hún hefir borið fram frv. til skiptameðferðar á honum og rekur hart eftir, að frv. þetta verði að lögum eftir fáa daga.