11.02.1930
Neðri deild: 21. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (2429)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Ég vildi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn, ég veit ekki til hverra, hvort það er virkilega svo, að Íslandsbanki haldi áfram starfsemi sinni, þótt hann sé lokaður fordyramegin, hvort hann sé opinn bakdyramegin og að bankastjórarnir taki við innheimtufé, framlengi víxla í 2, 3 eða 6 mánuði fyrir ýmsa viðskiptamenn, og ennfremur sé unnið að margháttaðri bókfærslu. Ég veit ekki, hvert ég á að beina þessari fyrirspurn. Bankaráðið hefir gefizt upp og bankastjórnin hefir gefizt upp, en hver stjórnar þá bankanum? Vona ég, að hæstv. ríkisstjórn treystist að svara þessu. Forsrh. mun enn teljast formaður bankaráðsins. Hann ætti því að geta skýrt frá því, hvort svo er til ætlazt, að þetta millibilsástand, sem öllum er jafnt til bölvunar: bankanum og viðskiptamönnum hans, haldist lengi enn.