12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 99. Till. gengur í þá átt, að endurmatið á bankanum sé framkvæmt af óvilhöllum mönnum, — að valinu sé vikið frá hinum pólitíska aðila til hins ópólitíska, það er að segja frá landsstj. til bankastjórnar Landsbankans. Ég hefi áður bent á, að mjög velti á því, hvaða dóm mat þetta fær, og því er illa til fallið, að fjmrh. tilefni þessa menn, en út í það mun ég ekki fara frekar, heldur vísa algerlega til fyrra máls míns.

Þá hefi ég einnig gert það að till. minni, að þeir tveir menn, sem rannsakað hafa hag bankans, Jakob Möller bankaeftirlitsmaður og Pétur Magnússon lögfræðingur, skuli vera nefndinni til aðstoðar, en hafa þar ekki atkvæðisrétt. Þeir eru þegar búnir að athuga hag bankans, og því álít ég, að þeir geti létt undir með n. og flýtt fyrir matinu. Mér virðist till. þessi svo sanngjörn, að d. geti tekið henni vel, og þá einkum hæstv. fjmrh.