12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Ég á 2 brtt. á þskj. 97. Sú fyrri gengur út á það, að sameinað Alþingi kjósi skilanefnd bankans, þegar þar að kemur, og hin síðari, að þeir menn, sem vegna stöðvunar á starfsemi bankans geta ekki staðið í skilum við skuldheimtumenn sína, skuli fá frest á skilum til 1. maí 1930.

Ég gat um báðar þessar brtt. við 2. umr. þessa máls, og skildist þá á hæstv. fjmrh., að hann vildi ekki að fyrra bragði útiloka þær frá deildinni. Ég innti hann þá eftir, hvort það myndi þýða nokkuð að bera þær fram, en hann kvað það ekki útilokað.

Hvað fyrri till. snertir er það að segja, að ég álít það betra, að Alþingi skipi n. heldur en að stj. geri það, því að þá verður hún ekki skipuð of einhliða. Í öðrum löndum er það venja í svipuðum tilfellum að kjósa 1–2 nm. fyrir hönd þeirra manna, sem eiga fé í bankanum.

Ég er samþykkur því, að skiptameðferð bankans sé ekki dregin umfram nauðsyn, en hins sakna ég, innlánsfjáreigendanna vegna, að þeir skuli ekki eiga von á betra en því, sem ætla má, að frá stj. komi, því óneitanlega hefir mér fundizt anda kalt úr þeirri átt til þeirra, er fé eiga inni í Íslandsbanka. Hinsvegar geri ég fastlega ráð fyrir, að ef skilanefnd yrði kosin af sameinuðu Alþingi, þá yrði hún a. m. k. ekki alveg eins einhliða og ekki eins pólitískt einlit og búast má við, ef hæstv. stj. skipar nefndina. Með því yrði og skuldheimtumönnum bankans sennilega gefin dálítil íhlutun um skipti bankans, og gefin nokkur trygging fyrir, að n. yrði dálítið blönduð í pólitísku tilliti. Annars hirði ég ekki um að fara fleirum orðum um þessa till. mína að svo stöddu, en áskil mér rétt til þess síðar, ef andmæli koma fram.

Í frv. stj. er ekkert ákvæði, sem verndar hagsmuni þeirra manna, sem vanskilamenn verða vegna stöðvunar Íslandsbanka. Í frv. er að vísu gert ráð fyrir því, að skilanefnd taki lán til þess að greiða innstæðueigendum, og er það gott, svo langt sem það nær. En það eru fleiri en innstæðueigendur, sem hljóta tjón og vandræði af lokun bankans. T. d. allir þeir, sem samið hafa um lán í bankanum og hafa reitt sig á, að þeir muni fá það útborgað á tilsettum tíma, verða sviptir þeim loforðum, og komast þannig í vandræði með þær ráðstafanir, sem þeir hafa gert í trausti þess, að lánið yrði útborgað eins og um var samið. Það er ómögulegt að reikna út þær víðtæku og alvarlegu afleiðingar, sem slík viðskiptatruflun getur haft. Maður á t. d. að borga ákveðna upphæð á tilteknum degi, t. d. afborgun af láni, sem svo er um samið, að falli í gjalddaga allt, ef vanskil verða á einstökum vaxtagreiðslum. Nú hefir hann fengið loforð um peninga í bankanum og treyst á það. Þegar hinn tilsetti dagur kemur, fær maðurinn ekki lánið og verður vanskilamaður fyrir þá sök. Eignir hans verða nú seldar á nauðungaruppboði, vitanlega langt undir sannvirði, eins og venja er til, og maðurinn er sviptur lífsstarfi sínu og atvinna hans stöðvuð. Nú flyt ég till. þess efnis, að draga dálítið úr þessum vandræðum, með því að ætla þeim mönnum, sem í vandræðum lenda fyrir þessa atburði, nokkurt svigrúm til þess að útvega sér fé til þess að afstýra frekara tjóni. Hvort þessi tímatakmörk, sem ég hefi stungið upp á, eru þau heppilegustu, má um deila, en að minni hyggju eru þau nálægt sanni.

Ég verð að álíta, að það sé siðferðisleg skylda löggjafarvaldsins að hlaupa undir bagga með þeim mönnum, sem fyrir þessa óheppilegu rás viðburðanna verða vanskilamenn um greiðslur. Enda er slíkt algengt erlendis, að skuldunautar fá greiðslufrest, þegar þeir verða ófærir um að standa í skilum af ófyrirsjáanlegum orsökum. Ég veit, að ekki verður afstýrt viðskiptatruflun úr því að þingið hefir snúizt svona óviturlega við þessu máli, en hitt er mín skoðun, að till. mín verði þó til þess að draga verulega úr þeim vandræðum, sem afgreiðsla Íslandsbankamálsins hlýtur að leiða yfir þetta land. Þeir menn, sem hljóta óþægindi af því að fá ekki greiðslur fyrr en till. mín gerir ráð fyrir, það eru þeir menn, sem að öðru jöfnu eru betur stæðir og þurfa síður að inna greiðslur af hendi til annara, og að því leyti standa þeir bezt að vígi að bera óþægindin af lokun bankans og þeim viðskiptaófögnuði, sem slíkt hefir í för með sér.

Till. mín gerir ráð fyrir, að sá, sem heldur því fram, að lokun bankans hafi gert hann ófæran til þess að standa í skilum um stundarsakir, skuli sanna, að svo sé. Það virðist einsætt, að sönnunarskyldan hvíli á honum í því efni. Ég tek þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning, sem ef til vill kynni að koma fram um þetta atriði.