12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Sigurður Eggerz:

Það var í rauninni ekki hugsun mín að tala við þessa umr., ekki af því, að ég teldi það eftir mér, en mér hefir fundizt vera svo mikið skilningsleysi og kuldi gagnvart þessu máli, að ekki þýddi að hafa langar umr. En ástæðan til þess, að ég stend upp, er eitt atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. vék að, að sú starfsemi, sem rekin er í Íslandsbanka, sé ekki heimil. En um það vil ég segja það, að eftir víxillögunum er bankinn skyldur til að taka við greiðslum. Hitt atriðið er það, að það hafa verið framlengdir víxlar, þegar tryggingar standa að öllu leyti óbreyttar. Ég hygg, að þeir örðugleikar, sem viðskiptamenn Íslandsbanka hafa átt við að stríða vegna þessarar stöðvunar, séu nægilega miklir, þótt ekki sé verið að bæta við þá. Auk þess vildi ég taka það fram, að bankinn er ekki gjaldþrota ennþá. Annars er það auðvitað, að bankastjórn Íslandsbanka vill haga starfsemi sinni þannig, að það sé sem haganlegast frá sjónarmiði viðskiptamanna sinna, til þess að auka ekki erfiðleika þeirra meira en nauðsynlegt er. En það, að ekki er neinn órói ennþá um þetta mál, stafar mikið af því, að ennþá er það trú manna, að verið sé að endurreisa bankann.

Ég ætla að draga upp litla mynd af þeim örðugleikum, sem lokun Íslandsbanka hefir í för með sér. Eitt stórt útgerðarfélag hefir haft viðskipti við bankann, félag, sem ber 1/40 hluta af framleiðslu landsins. Nú fór það í Landsbankann og leitaði fjár til að geta rekið starfsemi sína áfram, en fékk þau svör, að fyrst yrði það að semja við Íslandsbanka um sína aðstöðu. Á þessu má sjá, hvernig fyrirkomulagið verður, ef Íslandsbanka verður lokað. Landsbankinn mundi heimta af félögum, sem leituðu fjár hjá honum, að fyrst yrðu þau að komast á öruggan grundvöll. Nú má auðvitað segja sem svo, að þetta sé ekki óeðlilegt, að Landsbankinn vilji ekki lána fé nema til tryggrar starfsemi. En með þessu móti gæti farið svo, að annaðhvort verði félögunum gefið óþarflega mikið eftir, eða starfsemi þeirra stöðvuð. Við bankann skipta ýms félög, sem njóta sérstaks trausts bankastj. og annara, svo að talið hefir verið sjálfsagt að láta þau starfa, og jafnsjálfsagt, að ef þau gætu haldið áfram að starfa, mundu þau vinna sig upp og geta goldið hverjum sitt. Ef slíkt félag þarf að bíða eftir starfsfé, getur svo farið, að við það séu starfsmöguleikar þess ónýttir; og hver verður afleiðingin? Bankinn bíður tap, sem hann þurfti ekki að bíða, og framleiðsla þjóðarinnar bíður hnekki, sem ekki heldur hefði þurft að verða. Mér finnst því, að öllum hljóti að vera það ljóst, hver vandræði hljóta að verða af stöðvun bankans. Mér er með öllu óskiljanlegt, hvað liggur á að samþykkja gjaldþrotafrv. Íslandsbanka, svo framarlega sem mönnum er alvara að vilja gera tilraun til að reisa bankann við. Þessi smuga, sem í frv. er, nefnilega fresturinn til 1. marz, er að skapa vonir fyrir ýmsa menn, og í trausti þeirra hafa nýir kraftar verið settir í gang til að vinna að viðreisn þessa máls. En þeir, sem horfa dýpst, hafa séð, að svo fremi þessi gjaldþrotalög verði samþ. hljóti þau að verða til þess að draga úr árangri þeirra, sem vilja vinna að viðreisn bankans. Ég gæti hugsað mér, að fram kæmi sú mótbára, að verið væri að gera ráðstafanir til að vernda bankann. En það má gera í einum hvelli með sérstöku frv. með afbrigðum í báðum deildum.

Sannleikurinn er sá, að það hefir verið bent á ýmsar leiðir til hjálpar bankanum, af bankaráði og bankastjórn. Frv. kom fram, sem féll í hv. d. En það er hægt að benda á ótal aðrar leiðir. Það er t. d. enginn vafi á því, að líf bankans er tryggt, ef ríkissjóður leggur fram 3 millj. í hlutafé og tekur ábyrgð á einni millj. og samningar fást við Hambro-bankann og Privatbankann. Skuldin við Dani er til 18 ára. Ef danski skuldunauturinn sér, að búið er að endurreisa bankann, mundi hann róast. En hvernig fer þá með sparisjóðsfé? — munu menn spyrja. Verður það ekki tekið út? Jú, víst gæti það komið fyrir, en nota mætti einn möguleika. Að vísu er það hart aðgöngu — sem sé að stjórnin fái heimild til að stöðva sparisjóðsúttekt. Ef þetta fé fengist, sem ég nefndi, mundi það blása nýjum lífsanda í bankann og gera hann sterkari en hann hefir áður verið. Og hér er þó ekki að ræða um nema 3 millj. í hlutafé og einnar millj. ábyrgð. Mér finnst svo augljóst öllum landslýð, sem í alvöru vill hugsa um þetta mál, hversu miklu ákjósanlegri sú leið er en að loka bankanum og kalla yfir okkur öll þá miklu örðugleika, sem af lokuninni hljóta að stafa. Ég veit líka, að það fé, sem Landsbankinn ræður yfir — ef Íslandsbanka verður lokað — getur ekki á nokkurn hátt dugað til þess að firra okkur þeim örðugleikum, sem stafa af endanlegri lokun bankans. Það hafa komið upplýsingar um 8 millj., sem Landsbankinn átti um áramót í útlöndum. Þessi upphæð er minni nú, af eðlilegum ástæðum, því að eftir áramót fer að reyna á féð í útlöndum. Féð fyrir fiskinn er komið, síðan kemur kyrrlátt tímabil, og þá verður að draga á innieignirnar erlendis. Það má benda á, að í hinu mikla góðæri 1925, þegar krónan hækkaði mest vegna þess að Landsbankinn treysti sér ekki til annars en lækka verðið á pundunum af hræðslu við að tapa á þeim, voru innieignir miklu meiri en nú, en þegar kom fram í marz-apríl, var mikið af því fé farið. Sást á því, að þetta var óþarfa hræðsla hjá Landsbankanum. Það er óhætt að segja, að Landsbankinn hefir minna fé til umráða nú en í fyrra, enda er fé Landsbankans ekki meira en það, sem hann verður að hafa á venjulegum tímum, ef hann fær engin áföll. Ríkissjóður hefir að vísu tekið 5 millj. kr. lán í banka í Englandi, en það mun varla reynast nóg, enda mun mikið af því ætlað til þess að koma landbúnaðarbankanum á stað. Þeir, sem komast í sterkasta eldinn, ef Íslandsbanka verður lokað, eru stj. og þjóðbankinn. Þessu má ekki loka augunum fyrir. Vér verðum að gera einhverjar ráðstafanir til að afstýra því, að sú óhamingja, sem þegar hefir leitt af lokun bankans, grípi ennþá dýpra inn í líf þjóðarinnar. En hvernig á að útvega fé, þegar stöðvunin er búin að skapa vantraust á landi og þjóð? Er það hægt, nema með einhverjum ókjörum?

Ég bið hv. þm. að gera sér ljóst, að ég er ekki að tala til þess að kveikja neina elda í þessu máli, eða vekja „agitation“. Ég tala í þessu máli af því, að yfir því hvílir svo mikil alvara, að það er skylda okkar þingmanna að reyna að finna einhvern grundvöll til að endurreisa bankann. Það eru ýms verzlunarhús hér, sem hafa notið trausts erlendis og unnið áratug eftir áratug í skjóli þess trausts. Hvað verður um þetta traust? Vér verðum að athuga, hversu margar millj. eru í voða, ef vér ekki vogum því litla, sem um er að ræða, til að bjarga lífi bankans.

Ég vil þess vegna — en vera má, að það hafi enga þýðingu — í djúpri alvöru beina þeirri málaleitan til hæstv. stj., hvort hún sjái sér ekki fært að láta frv. bíða enn nokkurn tíma, og ef nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til að vernda bankann í bili, þá séu þær gerðar í flýti með afbrigðum. Og ég bið hæstv. stj. að taka enn til nýrrar athugunar, hvort hún vilji ekki sjálf reyna að taka endurreisn bankans í sínar hendur.

Þetta mál er í eðli sínu svo mikilvægt, að það á ekki að vera mál nokkurs flokks. Það er alveg ómögulegt fyrir samvizkusaman mann að láta flokksástæður ráða niðurlögum þessa máls. Menn verða að spyrja sína eigin samvizku. Ég endurtek það, að sú ótrúlega ró, sem um þetta mál hefir verið ennþá, stafar ekki af því, að því sé tekið með glöðu geði, heldur af hinu, að menn eiga enn þá trú, að á Alþingi Íslendinga séu enn þeir menn, sem ekki láti flokksástæður hamla þeim frá að gera það, sem rétt er.