12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Guðmundsson:

Það er auðsætt af orðum hæstv. fjmrh., að hann vill ekki skipa n. fyrr en málið er komið úr deildinni. Þá sagðist hann verða tilbúinn. En hann lét þau orð falla, að ekki væri víst, nema ráðin yrðu af sér tekin, áður en málið væri útkljáð hér í deild. En í hinni d. þykist hæstv. ráðh. öruggur um vissan framgang málsins. Í þessari d. gæti hann fengið að vita vilja flokksmanna sinna innan einnar klst. Hæstv. fjmrh. veit, að sumir af samherjum hans hér í deildinni eru honum alls ekki sammála í þessu máli, en þegar málið er úr d., þá er það algerlega á valdi þeirra manna, sem vilja eindregið loka bankanum til fulls. Það veit hæstv. ráðh.

Annars hygg ég, að n. sé þegar skipuð. A. m. k. gengur það staflaust um bæinn, hverjir það starf eigi að taka. (Fjmrh.: Vill hv. þm. ekki hringja upp í stjórnarráð og vita, hvort búið er að skipa?) Ég vildi heldur hringja beint inn í höfuðið á hæstv. fjmrh., því að þar er ákvörðunin, hvort sem skipunarbréfin eru rituð nú þegar eða ekki.

Brtt. mínum var ekki tekið verr en ég bjóst við. Ég sá í hendi mér, að afbrigði gat ég fengið, alveg eins og hæstv. fjmrh. En það var efni tillagnanna, sem ég skaut til hans. Og mér fannst hann fyrst ekki taka því ólíklega. En nú snýst hann alveg á móti og lætur sem hann hafi átt við afbrigði frá þingsköpum.

Annað var það, að hæstv. fjmrh. þóttist ekki vita til neinna samninga milli bankastj. og sendiherra. Þetta þótti mér leiðinlegt að heyra, því að ég heyrði sjálfur í gær, og hæstv. forsrh. getur vitnað hið sama, að hæstv. fjmrh. var sagt frá þessu, og að einn eða tveir menn voru kosnir af hálfu bankaráðsins til að senda símskeyti til sendiherra. Það er hart, að hæstv. fjmrh. skuli vilja neita þessu svo afdráttarlaust sem hann gerði, þegar hann kvaðst ekki taka neitt tillit til þeirra samninga, sem hann þekkti ekki. Það er rétt eins og þeir, sem ákveðnir eru með lokun bankans, þykist eiga hann með húð og hári.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um lagaflækjur mínar, sem hann væri ekki nógu mikill lögfræðingur til að skilja. Ef hann getur ekki skilið, hvað lög eru, og kallar lagaflækjur þegar lög eru skýrð fyrir honum, þá er ekki til neins að ræða málið við hann. Hæstv. fjmrh. sagði í fyrrinótt, að nú mætti fara að gera fjárnám hjá bankanum. Ég sagði honum þá, sem satt er, að fjárnám getur ekki farið fram nema eftir dómi, sátt eða veðbréfi. (Fjmrh.: Getur ekki dómur gengið?). Jú, en hvað þarf langan tíma til þess að fá dóm? Lengri tíma en nú er til 1. marz, svo að enginn gæti áunnið neitt í þessu með málssókn. Þessi fjárnámsótti, sem ekkert er nema hugarburður og lagaleg fjarstaða, sýnist hafa verið svo sterkur hjá hæstv. stjórn, að þetta frv. var meira að segja tilbúið, áður en bankanum var lokað, og bendir slíkt ótvírætt á, í hvaða átt stj. ætlaði sér að fara í þessu máli í byrjun.