12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég gat ekki verið við umr., svo að ég hefi ekki heyrt, hverju vikið hefir verið að till. minni, nema að litlu leyti. Læt ég mér nægja að drepa á örfá atriði. Fyrst er að minnast spaugsyrða hv. 2. þm. Árn. Hann sagði, að allt frá stofnun bankans og til þessa dags hefði enginn framsóknarmaður fengið að líta þar inn um skráargatið. Þetta ber vott um, að hann hafi ekki sjálfur skyggnzt inn. Annars hefði hann komið auga á einn bankastjórann, Kristján Karlsson, sem talinn er framsóknarmaður. Einhverntíma hefði hann kannske séð hæstv. forsrh. á bankaráðsfundi. Klemens Jónsson mætti líka nefna, Halldór Stefánsson og áður fyrr Magnús Kristjánsson. Nema kannske þeir fari út úr flokknum, þegar þeir fara inn í bankann.

Orð hæstv. fjmrh. gefa mér tilefni til að tala um skeytaskiptin. Hann lætur sem sér komi þau á óvart. Það sætir undrum, hvað hann er minnislaus. Hv. 1. þm. Skagf. gat minnt hann á. Ég var einnig viðstaddur, þegar ráðh. var sagt frá þessu. Og hann segir, að þetta skipti sig engu. Markmið þessara skeytaskipta er að stuðla að því að reisa við bankann, og í öðru lagi að fá umsögn erlendra viðskiptamanna um, hvort þeir vilji eyða nokkrum hluta innieigna sinna bankanum til viðreisnar. Það er ósæmilegt, ef hæstv. fjmrh. lætur sig slíkt engu skipta. Það verður þó að láta stærstu viðskiptamenn hafa umsagnarrétt a. m. k. um það, hvað þeir vilja sjálfir af mörkum leggja til að bjarga sínu eigin fé.

Ég hefi borið fram brtt., sem ég gerði grein fyrir í dag, um það, að bankastjórn Landsbankans skipi matsnefnd til að rannsaka Íslandsbanka og að hinir fyrri matsmenn tveir (Pétur Magnússon og Jakob Möller) skuli aðstoða hana. Mér hefir verið bent á, að það væri undarlegt, að ég, sem í gær hefði skorað á hæstv. fjmrh. að útnefna strax nefndarmenn sjálfur, skyldi nú bera fram till. um, að það vald sé af honum tekið. En mér datt ekki í hug annað en að þær aðvaranir um óhlutdrægt val matsnefndar, sem komu fram í umr., mundu hafa einhver áhrif á ráðh. En það er ekki sjáanlegt. Ég skal þá segja hv. 2. þm. Árn. það, sem hann virðist ekki vita, að stj. muni skipa þá Helga Briem skattstjóra, Stefán Jóhann Stefánsson hrm. og Sveinbjörn Jónsson lögfræðing til að meta bankann. Af þeim get ég talið einn hæfan, en tvo óhæfa. Annar þeirra stendur mjög framarlega í Alþýðuflokknum, og allir vita vilja þess flokks. Svívirðingargreinar Alþýðublaðsins bera bezt vitni um hann. Hinn er of ákveðinn opinber stuðningsmaður stj., sem á líf sitt undir lokun bankans, úr því sem komið er. Að öðru leyti er ég ekkert illt að segja um þessa menn. En það má hvorki velja menn eins og mig né þá. Við erum of riðnir við stjórnmálin.

Ég vil brýna það enn fyrir hæstv. fjmrh., að velja verður menn, sem þekktir eru að því að vera engir öfgamenn. Ég gæti nefnt ýmsa menn úr Framsóknarflokknum, sem væru hæfir, af því að vitað er um þá, að þeir hafa aldrei látið stjórnmálaskoðanir hafa áhrif á tillögur sínar til málsins.