12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Ég get skilið, að hv. 2. þm. G.-K., hans flokksmenn og fyrrv. stjórn úr hans flokki óttist mjög að veita núv. stj. vald til þess að skipa menn í þessa matsnefnd. Hv. íhaldsmenn hljóta að bera kvíðboga fyrir því, þegar þeim verður litið aftur og þeir sjá, hvernig þeir notuðu sér slíka aðstöðu áður, að valdið verði misnotað nú. Hv. þm. óttaðist pólitískt mat á bankanum. Þegar íhaldsstjórnin tilnefndi menn til þess að meta Landsbankann, voru allir nefndarmennirnir úr Íhaldsflokknum. Af þessum 5 mönnum, sem þá voru skipaðir, sat a. m. k. einn á þingi og tveir höfðu þrásinnis verið frambjóðendur íhaldsins. Er því ekki að furða, þó að íhaldsmönnum detti í hug, að óvandur sé eftirleikurinn.

Hv. 2. þm. G.-K. talar digurt að vanda. Læzt hann vita með vissu, hverja menn hæstv. fjmrh. ætlar að skipa til að framkvæma matið, og tók svo til orða, að tveir þeirra væru óhæfir, af því að þeir væru yfirlýstir banamenn bankans. Ég fæ ekki skilið, hvað hann meinar með þessu. Bankastjórarnir, sem stýrt hafa bankanum í þessa ófæru, og flokksbræður hv. þm., sem valdið hafa töpum bankans, eru þeir menn, sem réttu nafni má nefna banamenn bankans. En engir þessara manna get ég hugsað mér að verði settir til að meta bankann. Hv. þm. talar um fjandskap og svívirðingargreinar Alþýðublaðsins. Ég kannast ekki við þær. (ÓTh: Ég hygg ég hafi lesið eina í Alþýðublaðinu í gær, jafnvel áður en hún kom fyrir augu ritstjórans). Vill ekki hv. þm. segja, hvað hann á við, eða þegja ella? Skal ég svo víkja að kjarna þessa máls. Fylgismenn bankans, sem hafa verið harðorðir og margorðir, sumir hverjir óskiljanlega, halda því æ og ávallt fram, að hér sé um það að ræða að bjarga Íslandsbanka. Þetta er rétt, en ekki nýtt. Óslitið síðan 1921 hafa stj. og Alþingi verið að rembast við að bjarga bankanum. Sú björgun hefir tekizt eins og reikningar bankans sýna, eins og yfirlýsingar bankastjórnarinnar herma, eins og viðskipti bankans sýna. Hver einasta björgunartilraun virðist hafa orðið til þess eins að þrýsta bankanum lengra niður. 1921 var Íslandsbanka fyrst bjargað. Þá, meðan hv. 1. þm. Skagf. sat í ráðherrasæti, var tekið mesta ókjaralán, sem landið hefir fengið, gegn okurvöxtum og veðsetning tolltekna landsins. Mestur hluti þess, nærri 300 þús. stpd., var settur í Íslandsbanka, honum til bjargar. Þetta sama ár, 1921, fór fram mat á bankanum, og var þá talið, að bankinn ætti því nær allt hlutaféð, 4½ millj. kr., óeytt, en varasjóðurinn, 4 millj. kr., væri tapaður.

Hver varð árangurinn af þessari björgun, — þessari björgun, sem varð þjóðinni svo dýr? Hann varð sá, að þegar Íslandsbanki næst bað um björgun, árið 1926, og enn fór fram mat á eignum hans, var talið, að aðeins helmingur hlutafjárins væri til; hinn helmingurinn hefði tapazt síðan 1921.

Árangur björgunarinnar 1921 varð því sá, að bankinn tapaði til viðbótar á næstu 5 árum yfir 2 millj. kr., umfram rekstrarhagnaðinn allan.

Árið 1926 var Íslandsbanka aftur bjargað frá stöðvun. Þá fékk ríkisstj. loforð fyrir nærri 10 millj. kr. láni í Ameríku. Af því var þó aðeins tekin 1 millj., og hún fór öll í Íslandsbanka — til þess að bjarga bankanum. Og hv. þm. Dal. hefir ekki talað í þessu máli, svo að hann minntist ekki á, að bankanum hefði verið bjargað með þessari millj.

Enn þurfti að bjarga Íslandsbanka. Árin 1926, 1927 og 1928 var hann leystur undan þeirri skyldu að draga inn eina millj. kr. af seðlum sínum hvert árið. Þetta var sama og að lána bankanum beinlínis 2/3 úr millj. á ári, eða 2 millj. öll þrjú árin.

Þetta var gert til að bjarga bankanum, en dugði þó ekki. Enn þurfti að bjarga Íslandsbanka. Landsbankinn var látinn lána honum millj. á millj. ofan — á nú hjá honum talsvert á 5. millj. — allt til að bjarga bankanum.

Hver hefir nú orðið árangurinn af þessari sífelldu björgunarstarfsemi ríkissjóðs og Landsbankans síðustu 4 árin, 1926–1929?

Enn hefir farið fram mat á bankanum. Nú er talið, að allt hlutaféð sé tapað, og ef til vill meira. Bankinn á ekki eyris virði af eigin fé; hæpið, að hann eigi fyrir skuldum, segir matið.

Björgunarstarfsemin 1926–29 hefir þá, að því er möt á bankanum segja, orðið til þess eins, að Íslandsbanki tapaði öllum síðari helming hlutafjárins, 2¼ millj. kr., umfram rekstrarhagnað þessara ára.

Er nokkurt vit í því að halda slíkri björgunarstarfsemi áfram? Er ekki kominn tími til að hætta?

Hver björgun virðist hafa orðið til þess, að Íslandsbanki týndi nýjum millj. af fé sínu, til viðbótar því, sem áður var tapað. Árið 1921, þegar bankanum var fyrst bjargað, taldist hann eiga nær allt hlutaféð. Björgunin varð til þess,að næstu 5 árin týndi hann 2–2½ millj. kr. Þá og síðar var honum aftur og enn bjargað. Sú björgun varð til þess, að næstu 4 árin týndi hann enn 2¼ millj., og á nú ekkert, eða minna en ekkert, að því er mötin herma og bankastjórn játar.

En mötin hafa verið reikul og óáreiðanleg. Reikningar bankans rangir öll þessi ár.

Árið 1920, árið áður en björgunarstarfsemi ríkissjóðs og Landsbankans hófst, var eigið fé bankans samkv. reikningum hans 8.500.015 kr. og 3 aurar. Þar af var hlutaféð 4½ millj. kr., en í varasjóði 4.000.015 kr. og 3 aurar. Síðan hefir bankinn alltaf verið að græða, eftir því sem reikningar hans herma. Árið 1921 græðir bankinn 2.206.270 kr. og 81 eyri. Samtals hefir hann á þessu tímabili, frá 1920–1928 grætt 9.670.871 kr. og 58 aura, að því er reikningar hans segja.

Þetta eru sömu árin og ríkissjóður og Landsbankinn sífellt eru að bjarga Íslandsbanka. Sum þessi ár greiðir Íslandsbanki hluthöfum sínum arð, bankaráðinu stórfúlgur og bankastjórunum fjöldamörg jarðarverð í ágóðahluta. Greiddur arður til hluthafanna þessi tapsár bankans, meðan sífellt er verið að bjarga honum frá lokun, nemur samkv. reikningum bankans 1.125.000 kr. Þessi arður var að mestu greiddur í dönskum krónum.

Hefir því bankinn greitt í arð þessi ár, meðan hann alltaf hefir verið að sítapa, og ríkissjóður og Landsbankinn alltaf að bjarga honum, um 1.350.000 íslenzkar krónur.

Séu reikningar Íslandsbanka teknir trúanlegir, hefir bankinn haft til að mæta töpunum 1920–29: Hlutaféð 4½ millj., varasjóðinn, 4.000.015 kr. og 3 aura, ágóða áranna 1920–28, að frádregnum þeim arði, sem hluthöfunum hefir verið greiddur, eða 8.320.871 kr. og 58 aura.

Samtals hefir bankinn þannig haft til að mæta töpunum 1920–29 nærri 17 millj. kr., auk rekstrarhagnaðar árið 1929.

Hv. 2. þm. G.-K. var að tala um banamenn Íslandsbanka. Ef rétt er að tala um banamenn Íslandsbanka, þá eru það þeir menn, sem hafa komið þessum 17 millj. kr. í lóg. Því að allt þetta fé — og líklega meira til, — hver einasti eyrir, er tapað. Ætti því bankinn, ef reikningar hans væru réttir, að hafa tapað til uppjafnaðar um 2 millj. kr. á ári öll þessi ár, sem ríkissjóður og Landsbankinn hafa sífellt verið að bjarga honum.

En reikningar Íslandsbanka hafa ekki verið réttir. Hann hefir gefið út ranga reikninga ár eftir ár. Ef menn tryðu reikningunum, hlytu þeir að halda, að bankastjórarnir hefðu verið annaðhvort stórglæpamenn eða bjánar.

Reikningarnir eru falsaðir. Bankinn átti ekki 8½ millj. kr. í árslok 1920. Og hann hefir ekki grætt 9.670.871 kr. og 58 aura síðan. Hitt er rétt, að hann hefir greitt hluthöfum 1.350.000 kr. í arð sömu árin sem hann virðist hafa tapað.

Mikið af töpum bankans var til orðið fyrir lok ársins 1920, þegar hann greiddi 10% og 12% í arð til hluthafa. Ágóðinn, sem talinn er í bankareikningunum, er falsaður, til þess að „punta upp á“ reikningana, til þess að friða erlenda og innlenda lánardrottna, og til þess að ginna fólk til að trúa bankanum fyrir sparifé sínu. Vextir af töpuðum skuldum, sem aldrei fengust, eru taldir sem tekjur bankans. Þannig er ágóðinn búinn til. Og af þessum tilbúna ágóða hefir hluthöfunum verið greiddur arður svo millj. kr. skiptir.

Íslandsbanki var orðinn gjaldþrota, þegar honum var bjargað í fyrsta sinn, árið 1921. Þá hefði átt að gera hann upp. Íslandsbanki hefir verið gjaldþrota alltaf síðan. Hann var gjaldþrota, þegar honum var bjargað 1926, 1927 og 1928. Hann er gjaldþrota enn, að því er jafnvel sjálf bankastjórnin og bankaeftirlitsmaðurinn segja. Allan þennan tíma hefir bankinn verið ómegnugur þess að styrkja atvinnuvegina. Sjálfur hefir hann sífellt verið styrkþegi.

Féð, sem ríkissjóður og Landsbankinn hafa lagt honum, og spariféð, sem almenningur hefir trúað honum fyrir, hefir að miklu leyti runnið út úr landinu, sumpart til þess að greiða hluthöfunum arð, og sumpart til þess að borga skuldir bankans við erlenda lánardrottna, þá, sem ágengastir voru. Íslandsbanki hefir t. d. notað þetta fé til þess að lækka skuld sína við Privatbankann um margar millj.

Aðeins örlítið, ef nokkuð, af þeim 9½–10 millj., sem Landsbankinn og ríkissjóður eiga nú hjá Íslandsbanka, hefir runnið til atvinnufyrirtækjanna í landinu. Það hefir farið mest í lánardrottnana og hluthafana. Bankinn á ekkert til, hefir ekkert lánstraust, getur hvergi af eigin rammleik aflað sér starfsfjár.

Þessi er árangurinn af 9 ára björgunarstarfseminni.

Er ekki kominn tími til þess að snúa sér að því að bjarga atvinnuvegum þjóðarinnar? Er ekki réttara að veita því fé, sem ríkissjóður og Landsbankinn ráða yfir, beint til heilbrigðra atvinnufyrirtækja, og efla og auka með því framleiðslustarfsemina í landinu, heldur en að fleygja því enn í hít Íslandsbanka, bankans, sem stöðugt hefir verið reynt að bjarga síðustu 9 árin — alltaf árangurslaust?

Er ekki komið nóg af þessari björgunarstarfsemi? Er ekki réttast að taka bankann strax til skiptameðferðar, úr því sem komið er? Að fara að draga skiptin til 1. marz er hið mesta glapræði. Því getur enginn neitað, að örðugleikarnir, sem stöðvun Íslandsbanka veldur, eru mjög miklir. Margir eiga fé sitt geymt í bankanum, og þeir, sem við hann hafa skipt, geta ekki leitað til annara um lán, á meðan allt er óvíst um örlög bankans og allar eignir þeirra veðbundnar honum. Því lengur sem málið er dregið á langinn, því meira aukast þessir örðugleikar. Ef skiptin færu strax fram, geta öll heilbrigð fyrirtæki, sem skipt hafa við Íslandsbanka, flutzt yfir í Landsbankann, eða nýjan banka, sem stofnaður yrði á rústum hans samkv. till. okkar Alþýðuflokksþingmanna hér í þessari hv. d. Þetta ástand, að aðaldyr bankans séu lokaðar, en bankinn opinn bakdyramegin, er með öllu óþolandi. „Það, sem þú gerir, það gerðu fljótt“. Það er hið mest glapræði að fresta enn úrlausn þessa máls.