12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Skagf. taldi, að ég þyrfti ekki að sjá atkvgr. í deildinni um till. hv. 2. þm. G.-K. og að mér hefði verið unnt að grennslast fyrir um það á klukkutíma, hvernig till. standi. Ég sá nú ekki þessa till. fyrr en í fundarbyrjun og hafði því engan klukkutíma til umráða í þessu efni, enda veit ég ekkert, hvernig till. stendur í deildinni. Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. þykjast sannfærðir um, að til einskis sé að vera að bera till. fram. En hví er þá verið að því? Er það aðeins til að tefja fyrir málinu“

Ég tel það mjög varhugavert að vera að draga Landsbankann inn í þetta mál að óþörfu. Hagsmunir Íslandsbanka og hans geta rekizt á, og það er ekki gott að vita, hve vel það yrði tekið upp af viðskiptamönnum Landsbankans erlendis, ef bankinn fer að blanda sér í málið á þann hátt, sem ekki er heppilegt fyrir viðskiptin hér.

Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. töluðu mikið um það, að mér hefði verið sagt það í gær, að samningaumleitanir stæðu nú yfir milli bankaráðs Íslandsbanka og Sveins Björnssonar sendiherra. Ég skal gjarnan skýra frá því, að þó að ég frétti eitthvað á hlaupum, tek ég ekkert tillit til þess um framgang þessa máls. Bankaráðið hefir ekkert sagt mér. Ég hefi heyrt, að það hafi sent fyrirspurn um það til sendiherrans, hvort rétt væri að leyfa þessu frv. að ganga til 3. umr. Mér fannst þetta hlægilegt. Bankaráð Íslandsbanka er að spyrjast fyrir um það í útlöndum, hvort Alþingi megi láta mál ganga áfram eða ekki. Fyrr má nú rota en dauðrota.

Hv. 1. þm. Skagf. taldi mjög hætt við því, að núverandi stj. yrði hlutdræg í skipun rannsóknarnefndarinnar. Mér dettur ekki í hug að bera fyrirfram af mér eitt eða annað í því efni, en ég vil undirstrika það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að þegar skipuð var n. hér um árið til þess að taka út Landsbankann, skipaði íhaldsstj. þáverandi eintóma íhaldsmenn í hana. (MG: Þetta er ekki rétt). Nöfnin eru til. Ég minnist þess ekki, að það væri neinn sérstakur gauragangur um það fyrirfram, hvernig skipað mundi verða í n. Ég segi ekki með þessu, að n. hafi ekki unnið verk sitt sómasamlega, en hún var pólitísk — pólitískt einlit.