12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Magnús Jónsson:

Það er í raun og veru nokkuð góð mynd af því, hvernig setið er við stýrið á fjármálaskútunni um þessar mundir, að stj. skuli leggja í einu tvö frv. fyrir þingið, annað um lántöku, 12 millj. króna, og hitt um að gera banka gjaldþrota. Þessi lánsheimild er svo stórkostleg, að ef litið er á landsreikningana frá 1927, sést, að allar skuldir landsins nema þá ekki 12 millj. 1921 var tekið stórt lán hér, og um það hefir verið sagt í gamni, að það hafi verið stærsta lán, sem yfir landið hefir komið. Það er einkennilegt, að ekki skuli hafa verið bent á það fyrr, að um þær mundir, sem lánið var tekið, sat hér við völd stj., sem var að miklu studd af þm. sem nú eru í Framsóknarflokkmun. Það er því rétt fyrir þá hina sömu að tala gætilega um það lán, þó að þeir fylgi nú annari stj. að málum.

Það var almennt álitið þá, að betra lán hefði ekki verið hægt að fá, eins og sakir þá stóðu, enda stóðu að lántökunni menn, sem nutu trausts í báðum flokkum. En nú þegar farið er af stað aftur, þá er einmitt um leið reynt að stofna til fyrsta bankahruns á Íslandi, og það alveg að óþörfu. Því hefir verið haldið fram, og munu allir nema jafnaðarmenn fallast á það, að lokun Íslandsbanka leiði af sér alvarleg lánstraustspjöll fyrir Ísland út á við. En fyrir mörgum er þetta óákveðið hugtak, sem þeir hafa ekki gert sér ljóst hvað þýðir. Menn halda, að það verði erfiðara um lántökur en áður, og það er vitanlega rétt, en mönnum sést venjulega yfir það, að þetta lýsir sér í því, að þau lán, sem fást, verða miklu dýrari en ella. Flest fæst, ef nóg er fyrir það gefið, og svo er og um ríkislán. Nú er það alkunna, að Íslendingar hafa yfirleitt orðið að taka dýrari lán en aðrar þjóðir. Erlend fjármálafyrirtæki þekkja ekki getu okkar, og það er óvissan um efnahag lántakanda, sem veldur háum vöxtum. Það er því augljóst, að vextir hljóta að hækka um leið og lánstraustið spillist. Þetta má vel taka með í reikninginn. Þó að vextirnir verði ekki nema 1–2% hærri en ella, er hér um stórfé að ræða.

Þetta sýnir, ásamt öðru, hvað það þýðir að hafa við stýrið fjármálastjórn, sem ekki er starfi sínu vaxin. Það er komið of fast inn í menn, að stj. þurfi ekki annað að gera en að annast afgreiðslu skjala uppi í stjórnarráði. Meðan ekkert bjátar á, þá eru stjórnarstörfin auðvitað eins og að stýra bát í góðu veðri. En nú hefir sézt, að þótt allt hafi gengið slysalaust til þessa, þá er stj. ekki fær um formennskuna, þegar á reynir.

Hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur hér, en ég verð þó að segja það, að mér þykir einkennilegt, hve fast hann situr við þann keip, að vilja ekki gera ráðstafanir til að meta bankann fyrr en frv. þetta er komið í gegn. Þetta er því einkennilegra, sem hvergi er minnzt á mat í frv. Það hefir verið bent á það, að eftir að skyndimatið fór fram, hefði legið næst, að þeir, sem véfengdu það mat, hefðu þá þegar í stað látið fara fram ítarlegra mat á bankanum. Það er ætlazt til, að n. ljúki störfum sínum á 10 dögum, og það er álíka tími og síðan lokað var. Fullnaðarmati átti því að geta verið lokið nú.

Hæstv. fjmrh. veit auðsjáanlega ekki, hvað gerzt hefir, hvað mun gerast eða á að gera. Hann berst bara með straumnum. Ég veit, hvaða afsökun hann hefir, sem er þó auðvitað engin afsökun. Hún er sú, að honum hefir ekki hugkvæmzt neitt. En eftir að farið hefir verið að knýja á hann nú síðustu dagana, gildir þessi afsökun ekki lengur. Honum hefir verið bent á leiðir, sem enn eru færar, og þær leiðir á hann að fara, ef ekki eru aðrar ástæður á bak við.

Hæstv. fjmrh. sagði, að sig hefði grunað, að fram kæmi till. frá hv. 2. þm. G.-K. og því hefði hann viljað bíða með nefndarskipunina. Eftir þessu ætti hæstv. ráðh. að bíða eftir því, að frv. kæmist í gegnum allar umr. í báðum deildum.

Annars var helzt að heyra á hæstv. fjmrh., að honum þætti einkennilegt, að við skulum ekki fúslega fallast á, að hann skipi þessa n. og að við skulum ekki verða henni samþykkir. En við þykjumst hafa nægar ástæður til að vera á verði í þessu efni.

Í fyrsta lagi er það næstum undantekningarlaus regla, að stj. skipar sína fylgifiska í allar n., og er þá annaðhvort að launa þeim fylgi eða treysta þá í trúnni. Því erum við hræddir um, að þetta gæti komið fyrir í þetta skipti líka.

Í öðru lagi gaf stj. skýlausa yfirlýsingu um það þegar á lokaða fundinum, að hún vildi ekki opna bankann aftur. Till. um það, sem lagði aðferðina á vald stj., var felld. Því hlýtur skipun matsnefndarinnar að verða skrípaleikur einn, ef stj. skipar hana. Mér finnst ástæða til að spyrja stj., hvað hún ætlar að gera, ef matsnefndin kæmist nú að sömu niðurstöðu og þeir, er framkvæmdu skyndimatið. Ætlar hún þá að ganga í berhögg við allar sínar fyrri yfirlýsingar og opna bankann? — eða ættar hún að fara frá? Það er ekki nema um það tvennt að gera, að n. komist að svo hroðalegri niðurstöðu um hag bankans, að samkv. henni eigi að loka honum, eða stj. verður að fara frá völdum. N. á því að ákveða um líf eða dauða þeirrar stj., sem skipar hana. Það mætti vera siðferðissterkari stj. en sú, er nú fer hér með völd, sem ekki veldi n. með hliðsjón af þessu.

Það hefir þegar verið sýnt fram á það, að skipun matsnefndar Landsbankans í tíð íhaldsstj. er með öllu óhliðstæð. Niðurstaðan gat hvorki verið með né móti stj. og auk þess var n. skipuð mönnum úr báðum flokkum.

Hæstv. fjmrh. sýndi, hve vel hann fylgist með þessum málum, er hann sagði, að sig varðaði ekki um það, hvaða samninga væri verið að leita fyrir hönd Íslandsbanka.

Þetta er öðruvísi hjá okkur vitringunum en hjá öðrum stærri þjóðum. Þegar Privatbankinn danski lokaði, þá áleit þjóðbankinn ekki, að sig varðaði ekkert um það, og var þó hér um einkafyrirtæki að ræða, þar sem hvorki var forsætisráðherra í bankaráði né stjórnskipaðir bankastjórar. Samt hljóp þjóðbankinn undir bagga, eins og kunnugt er. Þannig fara síðaðar þjóðir að.

Mér þótti vænt um að heyra það í umr. út af till. hv. 1. þm. Skagf., að hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh. sýnast nú loksins skilja það, að lokun Íslandsbanka muni hafa flókin vandræði í för með sér. Út af till. hv. 1. þm. Skagf. um gjaldfrest sögðu þeir, að með því væri öllum gefið tækifæri til að neita að borga skuldir sínar. Vitanlega er þetta ekki annað en fjarstæða, því að greiðslufrestur leysir engan mann undan því að borga skuldir sínar. Þetta var auðvitað hrakið, en varð þó til þess, að þeir játuðu, að almenn vandræði myndu hljótast af lokuninni, ekki aðeins hjá innstæðueigendum og skuldunautum bankans, heldur og hjá öllum þeim mönnum, er þessir menn eiga skipti við, og svo koll af kolli.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það í dag ófært að láta Landsbankastjórnina skipa matsnefndina, af því að hún bæri ekki ábyrgð nema fyrir bankaráðinu. Hann sagði þetta, meðan hv. flm. brtt. var fjarverandi, svo að ég veit ekki, hvort hann mun svara því. En það er auðvelt að sýna fram á, að bankastj. ber ekki einu sinni ábyrgð gagnvart bankaráðinu í þessu máli, heldur aðeins á ákveðnu sviði. En einmitt þetta, að þeir bera ekki ábyrgð fyrir neinum aðilja, er ástæðan til þess, að gott er að fela þeim það. Sá aðili, sem engum stendur reikningsskap nema samvizku sinni, á að skipa nefndina. Hvers vegna er t. d. hæstarétti oft falið að skipa menn í gerðardóma eða þess háttar störf? Það er af því, að hann þarf ekki að standa reikningsskap fyrir neinum á því, sem hann gerir. Bankastjórar Landsbankans eru nokkurskonar hæstiréttur; þeir bera meiri ábyrgðarþunga en aðrir í bankamálum hér, og þess vegna eru þeir sjálfkjörnir til að skipa þessa matsmenn. —

Honum þótti mjög einkennilegt, að þeir, sem þegar hafa framkvæmt skyndirannsókn á bankanum, ættu að vera n. til aðstoðar. Þetta er hugsað svo, af því að búast má við, að hinir nýju matsmenn verði e. t. v. þeim ósammála að einhverju leyti, og er þá sjálfsagt, að þeir geti varið sína skýrslu, og þar að auki geta þeir létt nýju n. starfið.

Ég ætla þá að snúa mér að hv. þm. Ísaf. Ég vil byrja á því að óska honum til hamingju með að hafa fengið sína góðu rödd aftur eftir kvefið. Það var eins og þegar Þór heimti hamar sinn aftur, og þessi hv. þm. brýndi nú raustina meir en nokkru sinni áður. En sá var galli á gjöf Njarðar, að hann gerði það ekki fyrr en hv. 1. þm. Skagf., sem hann beindi orðum sínum til, var steindauður. Það hefði verið viðkunnanlegra, að hann hefði getað svarað fyrir sig, en hv. þm. hefir ef til vill búizt við, að með þessari dómadags básúnu sinni gæti hann kallað hann upp úr gröfinni.

Eins og hv. 2. þm. G.-K. benti á, var meginatriðið í ræðu hv. þm. Ísaf. þessu máli óviðkomandi. Því að þegar t. d. skal kaupa einhvern hlut eða fyrirtæki, er auðvitað ekkert aðalatriði, hvernig saga þess hefir verið, hvort það hefir einhverntíma verið stærra eða smærra, heldur hvernig það þá kemur fyrir. — Þó virtist mér ýmislegt í ræðu hans talsvert úr lagi fært. Ég skrifaði margt af því niður hjá mér, en hefi ekki fengið tækifæri til þess að rannsaka það nákvæmlega; en samt get ég fullyrt, að staðhæfingar hans eru mjög hæpnar. Hann sagði, að síðan 1921 sýndist bankinn hafa tapað 17 millj. kr., og fékk það út, með því að leggja saman þann ágóða, sem talinn er á bankarekstrinum öll þessi ár, og leggja þar við varasjóð og hlutaféð. Taldi hann þetta mjög einfalt mál; fé þetta hlyti að vera tapað með öllu síðan og hefðu bankastjórarnir komið því í lóg. En þá liggur nærri að spyrja, hvort meira eða minna af þessu fé muni ekki hafa tapazt áður, en þau töp nú fyrst komið fram. (HG: Þá eru reikningarnir rangir). Þeir þurfa ekki að vera rangir, þó að tapið sé ekki þegar. afskrifað. Það er vitanlegt, að á stríðsárunum og fyrstu árunum eftir stríð töpuðu báðir bankarnir stórfé, eins og bankar í nágrannalöndunum. Íslandsbanki var þá miklu stærri, og hans tap því eðlilega meira. Ég ætla ekki að fara að verja þá fjármálastjórn, sem verið hefir á bankanum, heldur aðeins að benda á það, að hér er Íslandsbanki ekkert einsdæmi.

Hv. þm. sagði, að síðan 1921 hefði staðið á eilífum björgunartilraunum. Fyrsta björgunartilraunin hefði verið sú, að bankinn hefði fengið stóran hluta af láni, sem hefði verið svo dýrt, að hann hafi þurft að borga af því hærri vexti en hann gæti fengið hjá viðskiptamönnum sínum. En hvað á hv. þm. við, með því að kalla þetta björgun? Ekki er von, að vel fari, ef þetta er aðalbjörgunin.

En svo er mál með vexti, að þingið 1921 ætlaðist til, að bankanum yrði rétt hjálparhönd með því að kaupa forgangshluti, en framkvæmdin varð sú, að honum var veitt lán í staðinn. Og í þessu liggur ef til vill allt ólán Íslandsbanka fram á þennan dag.

Þetta var nú fyrsta björgunartilraunin, sem hv. þm. sagði, að hefði verið framkvæmd, og sem gerði hann mjög undrandi, að bankinn skyldi ekki komast á réttan kjöl aftur, hvernig sem reynt hefði verið að bjarga honum.

Jafnframt þessu var gerð sú björgunartilraun að skipa Íslandsbanka að draga inn 1 millj. kr. af seðlum sínum á ári. Hv. þm. var steinhissa yfir því, að bankinn skyldi ekki geta blómgast með þessari dæmalausu hjálp.

Hv. þm. sagði, að hið eina rétta hefði verið að loka bankanum 1921. Það er náttúrlega ekki gott að ræða við þennan hv. þm., ef hann heldur því fram, að allir reikningar Íslandsbanka séu falsaðir. En ef farið er eftir reikningum Íslandsbanka, þá kom það fram hér á Alþingi 1923, þegar ein tilraun var gerð til þess að eyðileggja bankann, — því þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti, sem hann er lagður við trogið —, að hann hafði afskrifað síðan 1921 yfir 7 millj. króna. Síðan bera reikningar Íslandsbanka það með sér, að frá 1923 hafi verið afskrifaðar um 2 millj. króna, að því er mér virðist.

Það, sem skeð hefir þá síðan 1921, er, að bankinn hefir þó borgað upp í það tap, sem hann hafði orðið fyrir, um 9 millj. kr. Það var því ekki svo mikil hending, þegar hv. þm. Ísaf. var að leggja saman arðinn á þessum árum, að hann skyldi fá út 9 millj., og sennilega er þetta mjög svipað því, sem ég hefi talið Íslandsbanka hafa borgað í skuldasúpuna. En með því að segja, að Íslandsbanki hefði átt að fara 1921, er þá hv. þm. Ísaf. að segja, að betra hefði verið að taka tapið á Íslandsbanka 9 millj. hærra en nú er.

Hv. þm. segir, að mat, sem fór fram á Íslandsbanka og gekk út á það, að hlutabréfin ættu að standa í 95%, annað mat, sem fór niður í að helmingur hlutafjárins væri tapaður og síðan allt hlutaféð, það ætti að benda í þá átt, að bankinn hefði alltaf verið að tapa síðan. En það er erfitt að meta svo stórt tap, sem Íslandsbanki varð fyrir á ógegndarárunum, og þessar mismunandi matsniðurstöður sýna ekkert annað en það, að þegar frá líður, fæst réttara mat. Það er vafalaust bezt — enda sýnir saga bankans frá 1921 það — að leyfa bankanum að starfa áfram og borga áfallin töp. Það, sem hefði hafzt af því að leggja Íslandsbanka á höggstokkinn 1921, var það, að taka þá á skuldheimtumenn bankans öll þau töp, sem hann nú hefir afborgað, auk þeirra, sem kunna nú að vera eftir.

Nei, það, sem átti að gera 1921, var að framkvæma vilja þingsins og kaupa forgangshluti í bankanum.

Svo er það eitt, sem mér finnst, að þeir menn, sem eru með sífelld ónot og skammir út af því, að bankinn tapi, líti allt of grunnt á. Það er eins og þeir haldi, að peningarnir beinlínis gufi upp og verði að engu; en það er langt frá því. Þær milljónir, sem bankarnir hér hafa tapað, hafa að mestu aðeins skipt um vasa; þær hafa dreifzt út meðal landsmanna. Hvernig stendur t. d. á því, þegar tap verður á fiskkaupum? Það stafar af því, að þeir, sem biðu tjónið, hafa keypt fiskinn of háu verði af þeim, sem öfluðu hans. Það, sem hér hefir gerzt, er því ekkert annað en það, sem hv. jafnaðarmenn eru sífellt að klifa á, að taka eignir af þeim stóru og dreifa þeim út meðal hinna smærri. Ef ég týndi peningum á götunni, og annar finnur þá, hafa þar aðeins orðið eigendaskipti, en ekkert tap fyrir þjóðfélagið. Hitt er annað mál, að slík vistaskipti fjárins eru ekki holl fyrir viðskiptalífið.

Að lokum vil ég segja það, að hv. 2. þm. Reykv. hafði ólíkt heilbrigðari skoðun í þessu máli en samherji hans, hv. þm. Ísaf. Hann lagði grundvöllinn réttan, þótt ekki hefði hann vit eða vilja til þess að draga réttar ályktanir. Hann sagði, að tvær orsakir lægju til þess öngþveitis, sem Íslandsbanki hefði komizt í. Hann hefði misst traust viðskiptamanna sinna og haft óhentugt starfsfé. Þarna greip hann einmitt á kjarna málsins og benti á það, sem á að gera í þessu máli. Það liggur á valdi þings og stj. að endurreisa traust bankans út á við og að fá honum hentugt starfsfé. Einmitt þetta tvennt fólst í frv. Sjálfstæðismanna. Og ég vona, að niðurstaðan af öllum umr. okkar verði sú, að það verði gert.