12.02.1930
Neðri deild: 22. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (2447)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jóhann Jósefsson:

Hvað sem kann fram að fara um þetta mál, mun aldrei verða hægt fyrir þá, sem standa að niðurrifsverki Íslandsbanka, að bera það fyrir sig, að ekki hafi verið sýnt fram á, hverjar afleiðingar myndu af því verða fyrir landsmenn, a. m. k. í bili, og sennilega um langan aldur.

Ég ætla ekki að tala hér langt mál að nýju. Ég hefi á fyrri stigum þessa máls sagt frá því, sem mér býr í brjósti um afleiðingarnar, og mér virðist sem hver dagur, sem líður, færi hv. þm. og þjóðinni allri heim sanninn um það, að við, sem höfum bent á alvarlegar afleiðingar af hinni snöggu stöðvun bankans, höfum haft rétt að mæla.

Um þær brtt., sem hér liggja fyrir, skal ég ekki fjölyrða. Ég vil aðeins drepa á síðari brtt. á þskj. 97, frá hv. 1. þm. Skagf., sem fer fram á, að skuldunautar Íslandsbanka, sem vegna stöðvunar hans geta ekki staðið í skilum nú sem stendur, hvorki við hið opinbera né einstaka menn, fái lögheimilaðan nokkurn greiðslufrest. Um þessa till. vil ég segja það, að mér finnst hún fyllilega réttmæt, og ég fæ ekki skilið, að hæstv. fjmrh. hafi nægilega íhugað aðstöðu þeirra manna, sem hér er um að ræða, þegar hann hóf andmæli gegn þessari till.

Hvað snertir brtt. á þskj. 99, þá sýnist mér ekki þörf að rökræða frekar réttmæti hennar, þar sem hv. flm. og hv. 1. þm. Reykv. hafa fært svo skýr og góð rök fyrir því, að það er rétt ráðstöfun, að bankastjórar þjóðbankans láti rannsaka hag hins bankans, sem nú hefir ratað í vandræði, miklu réttara en að stj. útnefni menn til þess, undir þeim kringumstæðum, sem nú eru.

En það, sem aðallega olli því, að ég stend upp, er ekki það, að ég vilji fara að endurtaka neitt, sem áður hefir verið sagt, heldur vildi ég koma á framfæri við hv. þd. símskeyti, sem mér hefir borizt í dag frá bæjarstjórn Vestmannaeyja; það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi bæjarstjórnar 10. febr. síðastl. var samþ. með öllum atkv. þessi tillaga: Það er fyrirsjáanlegt að útibú Íslandsbanka hér verður ekki opnað til útlána fyrst um sinn. Leyfir bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupst. sér því hér með að skora á landsstj. og þingið að sjá um:

1) Að ríkisbankinn sendi hingað tafarlaust fé til útlána handa sjávarútveginum og öðrum atvinnufyrirtækjum hér í bænum.

2) Að fé þetta sé svo mikið, að fullkomin vissa sé fyrir því, að nefnd atvinnufyrirtæki þurfi ekki að stöðvast vegna fjárskorts á hinni yfirstandandi vertíð.

Til skýringar viljum við geta þessa: Vertíðin er nú byrjuð, en margir bátar geta ekki komizt út, vegna þess að peninga vantar til greiðslu hinna lögboðnu gjalda fyrir skip og menn. Undantekningalítið geta menn ekki greitt nein verkalaun hér. Þeir fáu, sem peningaráð kynnu að hafa, eiga féð fast í Íslandsbanka-útibúinu hér. Bæjarsjóður kaupstaðarins getur engar greiðslur af hendi leyst, hvorki vinnulaun né annað, vegna þess að engin gjöld er hægt að innheimta. Fleiri verzlanir eru orðnar matvörulitlar. Er fyrirsjáanlegt, að í bænum verður bráðlega matvælaskortur, vegna þess að verzlanir hér geta ekki náð í vörur, sem eru sendar gegnum banka til greiðslu eða greiðslusamþykktar, meðan enginn banki er starfræktur hér.

Þetta ætti að nægja til að sýna landsstjórn og þingi það, að hingað verður að senda fé til útlána tafarlaust“.

Ég vil skýra með nokkrum orðum einstök atriði þessa skeytis, og þá sérstaklega það, sem kann að koma sumum hv. þdm. undarlega fyrir sjónir, að bátar geti ekki komizt út, vegna þess að fé vanti til greiðslu á hinum lögboðnu gjöldum. Því til skýringar skal ég geta þess, að nú í seinni tíð hefir lögreglustjóri kaupstaðarins haft þá föstu reglu og gengið ríkt eftir, að vátryggingargjöld skipshafnarinnar og önnur gjöld séu greidd um leið og lögskráð er. Og þessi staðreynd er nú þess valdandi, að þegar reiðupeninga vantar, getur lögskráning ekki farið fram og bátarnir þess vegna ekki hafið starfsemi sína. En það atriði, að þeir, sem útgerð reka og eru viðskiptamenn Íslandsbanka, hafa ekkert fé annað en það, sem fast er þar inni á reikningi, skýrist á þann veg, að þau rekstrarlán, sem bankinn veitir gegn tryggingu í óveiddum fiski samkv. lagaheimild, taka þeir venjulega ekki strax út, heldur gefa ávísanir á þau jafnóðum og þörf gerist.

Að öðru leyti talar þetta skeyti nógu skýrt til að sýna það, hvernig ástandið er á þessum stað, sem vitaskuld er mestmegnis háður þeirri lánsstofnun, sem hér er um að ræða, og sem er stöðvuð í bili. Þetta kemur mér ekki á óvart. Hv. þm. munu minnast þess, að ég hefi þegar bent á, að þessa örðugleika hlyti að leiða af lokun bankans í Vestmannaeyjum. Ég gat þess strax á lokaða fundinum í sameinuðu þingi, og hæstv. forsrh. tók vel í það að gera ráðstafanir til að engin truflun hlytist af lokun bankans í atvinnurekstri Vestmannaeyinga. Síðan þetta skeyti kom, hefi ég skrifað fjmrh. bréf og einnig átt tal við hann um úrlausn þessa máls. Ég skal geta þess, að hæstv. stj. hefir tekið mjög vinsamlega í að gera einhverjar ráðstafanir, en orðin tóm nægja ekki. Það þarf að gera eitthvað, og það strax. Það er óhætt að segja, að eins og er muni Landsbankinn ekki tíðka það að veita lán gegn veði í tilvonandi afla á sama hátt og Íslandsbanki gerði í Vestmannaeyjum. Þau lán hafa verið mjög tíðkuð, og undanfarin ár — síðan lagaheimild kom til þess — hefir útibúið ekki beðið neitt tjón af því, svo að ég viti til. Útibúið hefir lánað um 1½ millj. árlega án þess að verða fyrir nokkrum verulegum töpum.

Viðvíkjandi aðgerðum hæstv. stj. vil ég leggja áherzlu á, að það er ekki nóg, þó að hún mælist til þess, eða mæli með því við Landsbankann, að hann veiti lán gegn tryggu fasteignaveði, heldur verður hæstv. stj., ef hún vill veita hjálp, sem dugir, að beina aðgerðum sínum strax í þann farveg, að starfsemin verði sem líkust því, sem var, á meðan útibúið lánaði fé til útgerðarinnar.

Það er ekki þörf á að fara fleirum orðum um þetta núna, en ég vildi ekki láta hjá líða að gera hv. d. kunnugt það ástand, sem Vestmannaeyingar eiga við að búa. Vænti ég þess, að þingmeirihlutinn, sem auðvitað hefir öll völdin, muni leggjast á eitt með hæstv. stj. og bregðast fljótt og vel við.