15.02.1930
Efri deild: 26. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jón Þorláksson:

Ég skal ekki misnota þann tíma, sem mér ber til þess að gera stutta aths. (Fjmrh.: Hún má vera löng). — Hv. 4. landsk. ber ennþá á móti því, að Íslandsbanki sé seðlabanki, og máli sínu til sönnunar las hann upp úr 1. gr. laga um seðlaútgáfu Íslandsbanka o. fl. frá 1921; en ef hann hefði lesið þau lög í gegn, þá hefði hann getað gengið úr skugga um, að Íslandsbanki hefir rétt til þess að gefa út seðla til loka leyfistímabilsins 1933. Að undanskilinni þeirri gr., sem hann benti á, er um þetta talað á 6–7 stöðum í nefndum lögum. En af því leiðir, að stj. hefir meðal annars rétt til þess að skipa 2 bankastjóra við Íslandsbanka.

Ég hefi ekki borið fram neina till. um, að ríkið ætti að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, og þess vegna er það rétt, sem hv. 4. landsk. sagði, að það gæti ekki verið meining 3. landsk., að ríkið ætti að taka fulla ábyrgð á Íslandsbanka. Hv. þm. sagði, að allir erlendir bankar, sem hefðu lent í þroti á krepputímunum og verið hjálpað, hefðu að lokum fallið. En í því efni má m. a. minna á, að Privatbankinn, sem er aðalviðskiptabanki Íslandsbanka, var lokaður nokkra daga, en síðan endurreistur, og er ekki annað vitað en að hann hafi starfað með blóma eftir það.

Annars ætlaði ég aðallega að svara hæstv. fjmrh. Hann sagði, að skilanefndin hefði rétt til þess að gefa eftir veð, sem Íslandsbanki hefði í eignum. Þetta kemur mér á óvart, að skilanefndin megi sleppa þeim tryggingum, sem bankinn hefir full umráð á, fyrir útlánum sínum. (JBald: Allir skiptaráðendur hafa rétt til þess). En hitt er annað mál, þó að skilanefndin gefi eftir lögveð, sem á að standa fyrir ófengnum lánum. Annars hygg ég, að það séu ekki svo mikil brögð að þessu, að það þurfi að standa í vegi fyrir lánveitingum frá Landsbankanum.

Það yrði allt of langt mál að rekja sögu Íslandsbanka um seðlaútgáfuna fyrir 1920 o. fl. Ég ætla ekki að gerast fyrirsvarsmaður bankans eða þáv. stj. um það, hvernig hann hafi rækt seðlaútgáfuskyldur sínar. Hæstv. ráðh. sagði, að hin aukna seðlaútgáfa hefði gengið til þess að styðja braskarana í landinu til óheilbrigðra viðskipta. Mér rennur í hug síðasta seðlaútgáfuleyfið, sem fékkst hjá þáv. ráðh. Þannig stóð á því, að hingað kom útl. maður, sem ætlaði að kaupa hross, og vildi fá peninga til þess að borga þau. Stj. Íslandsbanka kom upp í stjórnarráð og spurði, hvað ætti að gera, manninn vantaði íslenzka peninga, og atvmrh. féllst á, að gefnir yrðu út, að mig minnir, um 200 þús. kr. í seðlum, til þess að leggja í þetta „brask“, að kaupa hross til útflutnings fyrir borgun út í hönd.

Ég get látið bíða til 2. umr. að svara ýmsu af því, sem hæstv. ráðh. sagði í síðustu ræðu sinni.

Ég veit ekki um öll skeyti, sem hafa farið á milli bankastj. Íslandsbanka og erlendra manna; en fimmtudaginn 29. jan. síðastl. var ekkert verðfall á hlutabréfum Íslandsbanka á kauphöllinni í Khöfn, og þau stóðu óbreytt til 1. febr. í 31–34%, og verðsveiflurnar voru litlar, ekki meiri en venjulega á sér stað.

Hlutabréfin féllu ekki fyrr en 1. febr.; það er líka vitanlegt, að þannig hafa þau fallið áður og sveiflast upp og niður; en á þessu tímabili féllu þau ekki fyrri en þennan dag, og fóru þá lægst í 24%: en það fall bar vott um, að órói var á ferðinni. Þetta gat bankastj. Íslandsbanka vitanlega ekki séð fyrir, svo að það var ekkert undarlegt, þó að hún svaraði fyrirspurn um bankann 6 dögum áður á þann hátt, sem hún gerði.

Annars er það nú svo, að vegna lánstrausts erlendis í framtíðinni er eingöngu litið á það, hvort nú verður staðið í skilum á erlendum skuldum eða ekki. Það verður ekkert athugað um aðdraganda málsins. Ég hygg, að það verði engri bankastjórn ámælt fyrir það, þó að hún segi, að allt sé með kyrrum kjörum í sínum banka, meðan annað liggur ekki ljóst fyrir. En allt veltur, á því; hvort hægt er að standa í skilum við útlenda lánardrottna:

Það er auðvitað, að þær uppástungur, sem fram hafa komið til endurreisnar bankanum, eru byggðar á því, að bankinn standi sjálfur í skilum við lánardrottna sína erlendis.

Hvort Íslandsbanki hafi stutt lánstraust landsins erlendis, má vitanlega þrátta um, en hinu er ekki hægt að mótmæla, að Íslandsbanki hefir verið verkfæri til þess að útvega atvinnuvegunum 10–11 millj. kr. erlendis, og þessu fé verður að skila þangað aftur. En sá afgangur, sem kann að verða í vanskilum, verður óhjákvæmilega til þess að spilla lánstrausti landsins og áliti út á við.

Að því er snertir þau ummæli, sem ég hafði eftir bankastjórum Landsbankans, þá ætla ég ekki að endurtaka þau, en geri ráð fyrir, að skrifararnir hafi náð þeim réttum, en ef það hefir ekki verið, þá verða þau leiðrétt. Ég notaði ekki það orð, að þeir hefðu talið „sjálfsagt“ að endurreisa Íslandsbanka. Það orð geta bankastjórar Landsbankans vitanlega ekki notað að órannsökuðu máli og meðan ekki er vitað um, á hvaða grundvelli endurskoðunin er gerð. En bankastjórarnir lögðu mikla áherzlu á, að nauðsynlegt væri að endurreisa Íslandsbanka.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. minntist á, þá höfum við Sjálfstæðismenn ekkert á móti því, þó að þetta mál verði aftur tekið á dagskrá á miðvikudag, jafnvel þótt ekki verði komið nál. nema frá meiri hl. n.