04.03.1930
Efri deild: 41. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þetta frv., sem nú er hér til umr., hefir beðið nokkra stund, og hefir það verið með vilja gert, til þess að frestur væri hægt að átta sig á þessu máli. Sérstaklega var það nauðsynlegt, þar sem rannsókn á bankanum var látin fara fram, að beðið væri eftir því, hver niðurstaðan yrði af þeirri rannsókn. En eftir að sú niðurstaða var fengin, var líka nauðsynlegt, að þm. fengju ráðrúm til þess að athuga málið og reyna að finna einhverjar þær leiðir, sem líklegastar væru til samkomulags og mættu jafnframt verða til þess, að sem minnst tjón hlytist af stöðvun Íslandsbanka.

Nú hefi ég leyft mér að bera hér fram nokkrar till. sem tilraun frá minni hendi til að leysa málið. Það hafa í rauninni flestir eða allir verið sammála um, að nauðsyn bæri til að hér væri starfandi banki í landinu við hliðina á Landsbankanum, sem þá einkum og sér í lagi hefði það hlutverk að styðja sjávarútveginn, og jafnframt verzlun og iðnað.

Þegar Íslandsbanki hætti störfum nú fyrir rúmum mánuði síðan, lá sú spurning fyrir, hvort ætti að endurreisa hann í þeirri mynd, sem hann var, eða stofna nýjan sérstakan banka. Þessa spurningu var ekki hægt að leysa í skyndi, sem ekki var von, vegna þess að það bar svo bráðan að, og því ekkert undarlegt, þó að nokkur tími gengi í að athuga það frá ýmsum hliðum og fá á því sem bezta lausn.

Viðvíkjandi þessum till., sem ég flyt hér, hefi ég kosið þá leið, að bera þær ekki fram sem sérstakt frv., heldur sem brtt. við það frv., sem nú er hér á dagskrá. Gerði ég það vegna þess, að ég áleit, að það væri greiðari lausn á málinu, svo framarlega sem menn gætu fallizt á þá stefnu, sem kemur fram í þessum till. í aðalatriðum.

Þessar till. byrja með því að ákveða, að hér sé stofnaður sérstakur banki, sem heiti Sjávarútvegsbanki Íslands, og fyrirkomulag hans sé það, að hann verði hlutafélagsbanki. Í þeim kafla till., sem fjallar um þessa nýju bankastofnun, er nokkru nánara farið inn á starfssvið hans og fyrirkomulag. Það er ákveðið, að ríkissjóður leggi honum til 1½ millj. kr. í starfsfé, og þar að auki sé leitað fyrir um hlutafé til bankans, sem geti numið allt að 1 millj. kr.

Nú getur vel komið til mála, þó að ekki sé það tekið fram í till., að fleiri aðiljar komi þarna til sögunnar, og ég fyrir mitt leyti mun vera fús til að taka til greina till. um það, sem fram kynnu að koma.

Þessum banka er svo ætlað að reka alla venjulega bankastarfsemi, taka við fé með sparisjóðskjörum og á hlaupareikning, kaupa og selja víxla og ávísanir og veita lán gegn ýmsum tryggingum.

Stjórnarfyrirkomulag þessa hlutafélags er þannig, að hluthafar kjósa fulltrúáráð, sem svo aftur ákveður bæði tölu bankastjóra og hverjir þeir skuli vera.

Svo er og ákvæði um það, að þessi nýi banki skuli njóta sömu hlunninda og Landsbankinn.

Að öðru leyti skal ég ekki fara nánar út í þetta, því ég þykist viss um, að hv. dm. hafa kynnt sér till., sem fyrir liggja.

Þá kemur 2. kafli um Fiskiveiðasjóð, þar sem atvmrh. er heimilað að semja við þennan banka um að taka að sér rekstur á Fiskiveiðasjóði, sem væntanlega mundu verða samin lög um hér á þinginu.

Næst kemur þá 3. kafli till., sem snýr aðallega að Íslandsbanka. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi Íslandsbanka til 3 millj. í forgangshlutafé, og að það sé greitt af láni því, sem Íslandsbanki hefir frá ríkissjóði, enska láninu. En til þess að ríkissjóður leggi fram þetta hlutafé, þá þurfa að vera viss skilyrði fyrir hendi, og þau skilyrði eru tekin fram í 12. brtt., og er hún um það, að lagt verði fram a. m. k. 1½ millj. kr. í forgangshlutafé af fjársöfnun, sem hafin hefir verið innanlands. Eins og kunnugt er, hefir af hálfu Íslandsbanka verið hafin fjársöfnun hér í landi, til þess að leggja inn hlutafé í bankann, til að koma honum á stofn aftur.

Ég sé ekki ástæðu til annars en að taka vel á móti því, að sparifjáreigendur vilja leggja fram fé til þess að starfrækja bankann, og með því tryggja sína innieign að einhverju leyti. Og þess vegna er ástæða til þess að taka þetta fé í þjónustu þess, að hægt sé að reka bankastarfsemi á svipuðum grundvelli og hefir verið gert af Íslandsbanka.

Þá er í öðru lagi það skilyrði, að viðunandi samningar fáist við aðalskuldheimtumenn Íslandsbanka um greiðslu á innieign þeirra í bankanum.

Þegar svo þessi skilyrði öll eru fyrir hendi, þá er gert ráð fyrir því í 14. brtt., að Íslandsbanki renni inn í Sjávarútvegsbankann, og að Sjávarútvegsbankinn taki við eignum hans, skuldum og ábyrgðum og komi að því leyti í stað Íslandsbanka.

Þá er 15. brtt., sem heimilar fjmrh. að setja um stund a. m. k. takmörkun á því, að Sjávarútvegsbankinn þurfi að greiða út innstæðufé það, sem er í Íslandsbanka. Ég skal játa, að þessi till. getur orkað tvímælis. Hér verða menn að meta, hvort nauðsyn sé á að fyrirbyggja áhættu eða ekki, og má vel vera, að menn eigi dálítið erfitt með að segja um það fyrir víst hvort nokkur áhætta sé að opna bankann án þess að setja þessar takmarkanir. Ég læt þessa till. koma fram, en vænti þess, að athugað verði undir meðferð málsins, hvort rétt sé að láta hana standa eða ekki.

Þá er 16. brtt. Þar eru nánari fyrirmæli um þetta forgangshlutafé, þegar Íslandsbanki rennur inn í Sjávarútvegsbankann, og jafnframt, hvernig fara skuli sérstaklega um Íslandsbanka þá um leið.

Ef nú þau skilyrði, sem hér er talað um í þessum till., verða ekki fyrir hendi, þá kemur 4. kafli, sem er það frv., sem nú liggur hér fyrir, og sem þá gengur í gildi, og fara þá fram skipti á búi Íslandsbanka.

Nú hefði ég kosið, að ekki þyrftu að verða sérstaklega langar umr. um þetta mál að þessu sinni, af því að ég vil óska eftir því, að sú n., sem hefir haft þetta frv. til meðferðar, vildi taka þessar till. til athugunar. Ég skal taka það fram, að ég er fús til þess að ræða við n. um málið, ef hún óskar þess, og að athuga allar þær brtt., sem kynni að verða stungið upp á viðvíkjandi þessum till. mínum. Vitanlega get ég ekki gengið inn á röskun á þeim í aðalatriðum, en sem sagt er ég fús til samvinnu um að leysa málið, eftir því sem mönnum bezt getur komið saman um.

Ég hefði helzt kosið, að n. gæti nú þegar tekið málið til athugunar, og þó að hún lyki því ekki í kvöld, gæti hún aftur tekið til starfa í fyrramálið, svo að málið gæti komið hér til framhaldsumr. á morgun.

Ég vildi því leggja það til við hæstv. forseta, að þegar menn hafa talað, ef einhver vill tala nú, verði umr. frestað, og till. vísað til fjhn.