05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Við eigum nokkrar brtt. á þskj. 225, ég og hv. 1. þm. G.-K., og ætla ég að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum orðum. En áður en ég kem að brtt., vil ég þakka hæstv. stj. fyrir þá breyttu afstöðu, sem hún hefir tekið, þar sem hún kemur nú fram með þessar brtt. á þskj. 216, sem að forminu til eru bornar fram sem brtt. við frv. um að taka bankann til skiptameðferðar, en að efninu til eru sjálfstæðar till. um það, að halda starfsemi bankans áfram á endurbættum grundvelli.

Það er nú svo, að síðan þetta mál var fyrst til umr. í þinginu um það leyti sem Íslandsbanka var lokað, hefir verið unnið að því að byggja upp nýjan grundvöll bankanum til endurreisnar. Sá undirbúningur hefir sumpart verið með samningaumleitun erlendis við aðalskuldheimtumenn bankans og sumpart innanlands bæði með hlutafjársöfnun og á annan hátt.

Ég skal ekkert um það sakast, þó að fengizt hafi svigrúm til að byggja upp þann grundvöll, sem ekki var fyrir hendi fyrstu dagana eftir lokun bankans. En till. hæstv. fjmrh. koma nú fram í öðru formi en þeir menn hugsuðu sér, sem unnu mest að því að byggja þennan grundvöll, sem ég nefndi. En ég ætla að vona það og treysta því, á meðan ég sé ekkert annað fram komið, að stj. sjái svo um, að þær breyt. á formshliðinni á endurreisn bankans, sem fylgja þessu frv., verði á engan hátt til þess, að neitt missist af því, sem búið var að byggja upp sem grundvöll fyrir endurreisn bankans.

Þá ætla ég aðeins að víkja að brtt. okkar tveggja, sem ég nefndi og standa á þskj. 225 innan um brtt. meiri hl., og er þannig hægt að fylgja röðinni á þskj. við atkvgr.

Fyrsta brtt. okkar er um nafn bankans. Okkur sýnist ekki hentugt, að hann heiti Sjávarútvegsbanki. Til þess liggja tvær ástæður. Fyrst er sú, að þetta nafn er þrengra en sá tilgangur, sem bankanum er markaður eftir till. hæstv. stj. eða fjmrh. í 1. gr., því að samkv. henni er það verkefni bankans sérstaklega að styðja sjávarútveg, iðnað og verzlun landsmanna. Í frv., sem nú liggur fyrir Nd., er stungið upp á nafninu Verzlunar- og útvegsbanki. Það nafn fer nær því að grípa yfir allt verksvið bankans. Hér við bætist svo það, að nafnið Sjávarútvegsbanki er óþægilegt út á við. Útlendingar geta hvorki borið það fram né skrifað það óbreytt. En ef farið verður að þýða það á erlend mál, verður það gert með orði, sem verður jafnvel enn þrengra en hið íslenzka heiti. Við leggjum til í aðaltill., að bankinn verði látinn heita Verzlunar- og útvegsbanki, en til vara Útvegsbanki Íslands, af því það heiti er miklu þægilegra í meðferð út á við og líka til þess, að útlendingar geti talað það og skrifað óbreytt.

Önnur brtt. okkar er við 2. gr. frv. Upphaf þeirrar gr. hljóðar þannig: „Hlutafé félagsins (þ. e. Sjávarútvegsbanka Íslands) skal nema allt að 2½ millj. króna“. Hér viljum við bæta við: „sbr. þó 11. og 12. gr., ef til kemur“, en þar er gert ráð fyrir hlutafé allt að 6¼ millj. króna. Mér finnst ekki allur vafi tekinn af, ef 2. gr. er ekki breytt, því að þá lítur svo út; sem hámarkið sé 2½ millj., en nú getur innstæðufé orðið miklu hærra. Því er nauðsynlegt að vísa. til 11. og 12. gr., en það skal ég játa, að þetta er meira forms- en efnisbreyt.

Þá er 7. brtt. á sama þskj. Hún er við 13. gr. frv. Þessi 13. gr. í frv. hljóðar svo: „Núverandi hlutafé Íslandsbanka skal afskrifað sem tapað og hlutabréf fyrir því felld úr gildi“.

Okkur finnst varhugavert að setja þetta í frv. af ýmsum ástæðum; ekki svo mjög vegna þess, að við álítum, að það sé rangt að hlutafé sé tapað, en við álítum, að ekki hafi farið fram nein sönnunarpróf fyrir því, að það sé tapað, sem telja verður eðlilegt og sjálfsagt, að fari fram, áður en löggjöf um Íslandsbanka ákveður, að hlutabréf séu felld úr gildi. Það er mjög vafasamt, að okkar dómi, hvort ákvörðun eins og þessi án undangengins mats, sem gert er sérstaklega til að meta verð hlutabréfanna, muni geta staðizt fyrir dómstólunum. Það gæti farið svo, að einhver af gömlu hluthöfunum kærði það, að eignarréttur sinn væri brotinn. Þá yrði að sanna það, að þessi hlutabréf væru einskis virði og engin réttindi fylgdu þeim, en ég er í vafa um það, hvernig það færi fyrir dómstólunum. Það væri óþægilegt fyrir nýja bankann, ef það kæmi fyrir, að gamlir hluthafar gætu fengið sér tildæmdan þar atkvæðisrétt, eða rétt til þess, að hlutabréf yrðu verðlögð með mati, sem yrði að fara fram eftir að dómur væri fallinn. Skoðanir lögfræðinga á þessu munu vera skiptar, en ég ætla ekki að dæma um, hvað rétt er þar, en ég álít, að hér eigi að sjálfsögðu að viðhafa þá varúð, að ekki sé teflt á tvær hættur.

En svo er annað atriði, sem ég legg þó meira upp úr. Ég held sem sé, að svona aðferð til að afskrifa þetta hlutafé kunni að vekja umtal um landið, sem getur orðið óþægilegt og jafnvel álitsspillandi. Þetta er óvenjuleg aðferð, að fella slík fjárréttindi úr gildi með lagaákvæði, án þess að hægt sé að vísa til mats lagaákvæðinu til stuðnings. Að vísu álíta þeir menn, sem standa kringum bankann, og þar á meðal ég, að þessi hlutabréf séu lítils eða einskis virði, en enginn okkar getur tekið ábyrgð á því, að hluthafarnir úti í löndum taki þetta mál ekki upp. Þeir geta haft sér til leiðbeiningar, hvað hátt hlutabréf þeirra stóðu á kauphöll áður en bankanum var lokað. Þá kemur það í ljós, að kauphallarverð á þessum hlutabréfum var í Kaupmannahöfn milli 24 og 40 danskar kr. fyrir 100 kr. að nafnverði. Og þá er ég nú hræddur um, að þessir hluthafar eigi bágt með að skilja þá ráðstöfun að nú séu þessar eignir taldar einskis virði, án þess að færðar séu fram þær sannanir, sem venjulega er krafizt í slíkum tilfellum. Sú óánægja getur valdið blaðaskrifum, sem geta orðið leiðinleg fyrir landið og jafnvel álitsspillandi. Þar að auki lít ég svo á, að ef menn eru sannfærðir um, að hlutabréfin séu einskis virði, þurfi enginn að óttast, þó að farið sé hér að samkv. þeim reglum, sem annars eru látnar gilda bæði hér á landi og annarsstaðar, þegar kveða skal á um það, hvers virði einhver eign er, sem ætlazt er til, að menn láti af hendi.

Till. okkar hv. 1. þm. G.-K. eru tvær. Önnur er aðaltill., sem fer fram á, að verð hlutabréfa sé fært niður í sannvirði, að undangengnu mati. Ef komizt verður að þeirri niðurstöðu við matið, að hlutaféð sé tapað, verður sannvirðið vitanlega núll. Varatill. fer fram á, að ríkisstj. taki hlutabréfin eignarnámi, einnig eftir mati. Í báðum þessum till. er ætlazt til, að farið sé við framkvæmd matsins eftir þeim lögum, sem gilda um þetta, nr. 61, 14. nóv. 1917. Ekkert mat, sem farið hefir fram á bankanum, hefir verið gert eftir þeim reglum, sem í þeim lögum eru. Þar er þeim manni heimilað, sem eignarnámið er tekið hjá, að láta einhvern mæta fyrir sig við matið og á kost á að skýra mál sitt skriflega eða munnlega og kynna sér allt, sem fram kemur í málinu, eins og stendur í 3. gr. þessara laga. Ennfremur hefir hann þann rétt samkv. þessum lögum, að ef hann vill ekki una matinu, sem framkvæmt er af tveimur óvilhöllum mönnum, getur hann skotið því til yfirmats. Það er tvennskonar; annaðhvort venjulegt yfirmat, sem er skipað þremur óvilhöllum mönnum, eða sérstakt yfirmat, sem kallað er. Það á eftir lögum að fara fram, þegar um 10 þús. kr. upphæð er að ræða eða þar yfir. Þá menn nefnir landsyfirrétturinn, eða nú hæstiréttur. Það eru þrír menn, einn þeirra er oddamaður. Þessi lög um framkvæmd eignarnámsins eru mjög sæmileg fyrir þjóðfélagið, og ég álít á engan hátt varhugavert að fella þetta hlutafé úr gildi, ef mat, sem fram hefir farið eftir þessum lögum, kemst að þeirri niðurstöðu, að hlutabréfin séu einskis virði. Þá er það tryggt, að gömlu hluthafarnir geta ekki komið af stað neinu umtali um það, sem tekið verður til greina.

Ég skal taka það fram, að það er ekki vegna gömlu hluthafanna, að þessi brtt. er borin fram. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en þeir séu búnir að tapa hlutafénu fyrir fullt og allt og það komi í ljós við matið. En ástæðan er sú, að við viljum komast hjá öllu ámæli um það, að hér hafi verið farið að á annan hátt en þann, sem fyllilega sé samboðinn ríkinu.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um 8. brtt., við 15. gr. frv., sem er þess efnis, að gr. falli burt. Hæstv. fjmrh. gat þess í framsöguræðu sinni, að hann hefði verið í vafa, hvort rétt væri að taka þessa gr. upp. Hún heimilar bankanum greiðslufrest á innlánsfé og öðru innstæðufé, sem inni stóð í bankanum 3. febr. 1930. Ég held, að öllum komi saman um það, að bezt muni vera fyrir framtíð bankans, að hann hafi ekki slík ákvæði í lögum sínum. Það er að vísu líklegt, að krafizt verði mikilla útborgana fyrstu dagana eftir að bankinn tekur til starfa, bæði af þeim eðlilegu ástæðum, að hann hefir svo lengi verið lokaður, og einnig vegna þess, að menn verða fyrst í stað ekki sannfærðir um, að bankinn sé fyllilega tryggður. En álit okkar, sem að þessari brtt. stöndum, er það, að betra sé að taka þessa hrotu þegar í upphafi og vera svo lausir við þetta ákvæði. Til þess að öllu sé óhætt, er nauðsynlegt, að góð samvinna verði á milli þessa banka og seðlabankans. Að vísu má gera ráð fyrir, að bankinn verði svo vel stæður, að hann geti staðizt þessar útborganir þegar í upphafi, en fyrir getur komið, að hann hafi ekki handbæra peninga þá á því augnabliki. Þá þarf seðlabankinn að hlaupa undir bagga og leggja til fé í bili. Þetta kæmi helzt fyrir, ef innstæðufé væri sótt í bankann. En þá mætti fara í Landsbankann, sem ætti að geta hjálpað með bráðabirgðaláni. Annars er rétt, að það verði á ábyrgð hæstv. fjmrh., hvort hann vill hafa þessa gr. í frv., en þó skal ég geta þess, að Privatbankinn, sem hefir verið sanngjarn og velviljaður okkur til handa um aðstoð til endurreisnar bankanum, hefir mælt á móti því, að ákvæði þessarar gr. yrðu tekin upp í stofnlögunum, er bankinn yrði endurreistur.

Þá er 9. brtt. frá okkur við 16. gr. Hún er í tveimur liðum. Sú fyrri fer fram á, að bætt sé aftan við fyrsta málslið 16. gr. Í orðum þeim, sem við viljum bæta þar við, kemur það ótvírætt fram, að forgangshlutafé Íslandsbanka skuli ganga til Sjávarútvegsbankans sem venjulegt hlutafé með fullum hlutafjárréttindum einnig á fyrsta aðalfundi samkv. 6. gr. Það má nú kannske segja, að ekki sé nauðsynlegt að taka þetta fram, ef brtt. meiri hl. við 6. gr. verða samþ. og eins brtt. okkar, að fella niður 2. málsgr. 16. gr. Þó orkar það ekki tvímælis, að þetta forgangshlutafé á að njóta alls réttar þegar á fyrsta aðalfundi. En ef það er svo, að samkv. 2. málsgr. 16. gr. eigi að skerða rétt forgangshlutafjár til arðs Sjávarútvegsbankans, slægi óhug á þá menn innanlands og máske líka utanlands, sem lofað hafa forgangshlutafé. Það verða að vera ákvæði í lögunum, eins og endanlega verður gengið frá þeim, sem taka það skýrt fram, að réttur þessara manna sé á engan hátt skertur. Úti um allt land eru menn, sem þetta skiptir miklu, og ekki hægt að ná til þeirra nema í síma, og væri því erfitt að skýra þetta fyrir þeim. Það er miklu betra, ef hægt er að lesa upp fyrir þeim lagastaf fyrir því, að réttindi þeirra séu ekki skert. Það var aðallega með þetta fyrir augum, að við bárum fram brtt. 9.a. við fyrstu málsgr. 16. gr. En meginatriðið í brtt. okkar er 9. brtt. b., að 2. málsgr. 16. gr. falli niður, en hún segir svo, að réttur til arðs og atkvæðamagns fari eftir því tapi, sem verði á búi Íslandsbanka, og fjmrh. setji um þetta nánari reglur, að fengnum till. fulltrúaráðs Sjávarútvegsbankans.

Það hlutafé, sem hér ræðir um, er forgangshlutafé Íslandsbanka. Felur till. það í sér, að það fái ekki fullan rétt til arðs og atkvæða í hinum nýja banka. Fulltrúaráð Útvegsbankans sýnist því verða að vera skipað áður en ákveðið er, hvort hann taki við búi Íslandsbanka. Þetta á alls ekki heima í tillögunum, eins og hæstv. fjmrh. hefir skýrt þær, og því síður getur það samrýmzt brtt. fjhn., enda er þetta inn komið á síðustu stundu og í losaralegu sambandi við aðaltill. hæstv. fjmrh.

En meginatriðið er það, að verði þetta ákveðið, eru allir, sem lofað hafa forgangshlutafé, leystir frá loforðum sínum, sem þeir hafa gefið á öðrum grundvelli. Þó hafin yrði ný hlutafjársöfnun á þeim grundvelli, að hið nýja hlutafé hefði aðeins takmarkaðan rétt, er ég hræddur um, að hún myndi misheppnast algerlega, og það er fullvíst, að hún yrði málinu til verulegrar tafar. Ég er því hræddur um, að málinu sé þar með siglt í strand, ef 2. mgr. 16. gr. verður ekki numin burt. Vænti ég, að hæstv. stj. geti á það fallizt. Fyrst hún ber fram till. sínar, vil ég mega treysta því, að hún ætli að sigla málinu svo í höfn, að úr endurreisn bankans geti orðið.

Loks vil ég biðja menn að athuga eitt. Hlutafjárskerðing sú, sem hér er farið fram á, snertir jöfnum höndum þær 3 millj. króna, sem ríkissjóður leggur bankanum, það fé, sem safnazt hefir hér innanlands, og það, sem fást kann sem hlutafé frá útlöndum. Því gerir 2. mgr. 16. gr. ekki annað en það að sjá um, að sú 1½ millj. kr., sem lögð er Útvegsbankanum í upphafi, verði rétthærri en annað hlutafé. Tap það, sem kann að verða á búi Íslandsbanka fram yfir hlutafé hans, verður að vinnast upp á starfsemi hins nýja banka á nokkrum árum. Ef 2. mgr. 16. gr. kemst í lög, yrði það þá til þess, að ríkissjóður ætti að fá vexti af 1½ millj. kr., sem hann leggur fram, í fáein ár, þótt engum öðrum væri greiddur arður af því fé, sem þeir leggja til bankans. Þetta er svo lítið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð, að þess vegna má alls ekki sigla í strand þeim undirbúningi, sem endurreisn Íslandsbanka hefir fengið. Ef forgangshlutafé Íslandsbanka verður skert, þá eru þeir, sem lofað hafa að leggja það fram, lausir allra mála, eins og ég hefi þegar bent á. En ég álít, að sá grundvöllur, sem nú hefir fengizt í málinu, sé svo mikils virði, að ríkissjóður megi ekki sleppa honum fyrir vextina af 1½ millj. kr. í örfá ár, einkum þegar þess er gætt, að mjög tvísýnt er, að hægt verði að endurreisa bankann á þeim grundvelli, sem lagður er í 2. málsgr. 16. gr. í brtt. hæstv. fjmrh.