12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1931

Hákon Kristófersson:

Ég skal ekki vera langorður.

Ég á eina brtt. á þskj. 269 og ætla að fara um hana nokkrum orðum, þó að það þýði ekki mikið að tala um brtt., þar sem svo fáir eru viðstaddir. Þessi brtt. mín fer fram á læknisvitjunarstyrk til Múlahrepps, 250 kr., og vona ég, að hún verði samþ. þrátt fyrir orð hv. 1. þm. S.-M., því að hún er alveg sjálfsögð. Ég vona fastlega, að hæstv. stj. líti með velvild á þessa till. og telji hana sjálfsagða, sérstaklega með tilliti til þess, að það má telja það forsjárleysi stj. að kenna, að læknislaust er í héraðinu. Því að ég tel læknislaust í héraðinu, þegar héraðsbúar verða að vitja læknis annaðhvort til Reykhóla eða Stykkishólms. Ég get leitt rök að því, að læknisvitjun til Stykkishólms úr þessari sveit getur kostað á þriðja hundrað krónur, og þarf því ekki að lýsa því, hve mikil sanngirni mælir með þessari till. fyrir þetta byggðarlag, sem heyrir undir Flateyjarlæknishérað. Allir sjá, hve miklum erfiðleikum það er bundið að fara svo langa sjóleið eftir lækni — og hversu erfitt hlýtur þá að vera að verða að vitja læknis ennþá lengri og erfiðari leið. Ég vona því, að þeir, sem hafa heyrt, hvernig kringumstæðurnar eru, taki þessari till. vel.

Hv. þm. Borgf. minntist á ferðir Suðurlands til Breiðafjarðar. Þó ég skrifaði undir nál. samgmn. án fyrirvara, er ég samt óánægður með ýmislegt þar, m. a. með sumt viðvíkjandi þessum ferðum. En sem sagt vildi ég ekki skipta mér af þessu, en það get ég viðurkennt, að þetta hefir ef til vill farið framhjá mér. Þetta atriði, sem þm. talaði um, kom aðeins til orðs, en var aldrei slegið föstu í n.

Ég ætla ekki að fara að gera brtt. hv. dm. að umræðuefni. Það er ekki til annars en að lengja tímann og í sjálfu sér árangurslaust. Brtt. eru bæði frá fjvn. og ýmsum hv. þm., og vel má vera, að menn athugi vel bendingu hv. 1. þm. S.-M. Ég skal viðurkenna það, að þeir geta frómt úr flokki talað, sem engra fjárframlaga þurfa að óska; þeir fá þau kannske á annan hátt hjá hæstv. stj., þ. e. án allrar heimildar.

Ég treysti góðgirni hv. þdm. með þessari einu brtt., sem ég á. Ég ætla svo ekki að tefja lengur umr. að þessu sinni.