12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1931

Erlingur Friðjónsson:

Líklega má segja, að ég eigi allríflegan skerf af brtt. þeim, sem nú eru bornar fram, en þó finn ég enga sérstaka hvöt hjá mér til að afsaka þetta. Afstaða mín sem fulltrúa þess kjördæmis, sem ég er kosinn fyrir, er nokkuð önnur en ýmissa annara hv. þdm., einkum liðsmanna hæstv. stj., sem hafa aðstöðu til að fá nauðsynlegar fjárveitingar til sinna kjördæma teknar upp í fjárlagafrv., áður en það er lagt fyrir Alþingi. Er það ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að slíkir menn þurfi færri brtt. að bera fram. Einnig er það kunnugt, að mjög ríflegum hluta af tekjum ríkissjóðs er fyrirfram ráðstafað með lögum til ræktunar og nýbygginga í sveit, auk allra fjárveitinganna, sem æ eru í fjárl. til vega, brúa og síma um sveitirnar. Ég er ekki að finna að þessu í sjálfu sér, en vil aðeins minna á, að af þessum ástæðum er það einnig eðlilegt, að kaupstaðarþm., eins og ég, beri fram meira af brtt. en þm. fyrir sveitakjördæmin.

Áður en ég vík að brtt. mínum, vil ég minnast örlítið á ræðu hv. frsm. og þá einkum það, sem hann minntist á hækkun á einum áætlunarlið í tekjubálki frv. Ég greiddi ekki atkv. með þessari brtt. innan fjvn., þar sem mér þótti þegar nógu langt komið í hv. Nd. í hækkuninni á þessum liðum. Ég mun að sönnu ekki hafa greitt atkv. gegn brtt. innan n. og talaði lítið á móti henni. Þó mun ég hafa látið þá skoðun í ljós, að ég teldi þessa ekki þörf, meðfram fyrir þá sök, að nú er komið hingað frv. til l. um einkasölu á tóbaki, sem líklegt er að gangi fram og auki tekjur ríkissjóðs til nokkurra muna. Því finnst mér, að frv. megi ganga aftur til hv. Nd. án breytinga á tekjuhlið þess. Þar mætti síðan breyta tekjuáætluninni, ef svo sýndist, eftir að tóbakseinkasölufrv. hefði verið samþ. Ég vil geta þess arna til þess að hv. dm. viti, að ég vonast, til, að frv. um tóbakseinkasölu nái fram að ganga. Og þó að fjárl. hækki eitthvað í þessari hv. d., mundi sá tekjuauki alltaf koma á móti. Ég hugsa það verði ekki talið neitt óeðlilegt, þótt útgjöld ríkissj. verði hækkuð dálítið í hv. Ed., þar sem 1/3 hluti þingsins hefir sæti. Og að sjálfsögðu hafa þm. þessarar hv. d. gildar ástæður til að koma með sínar óskir um framlög til ýmislegs, alveg eins og þm. í hv. Nd.

Ég ætla þá að víkja að einstökum till., sem ég á, á þskj. 497.

Fyrsta brtt. mín er um það, að Þóru Havsteen á Akureyri sé veittur styrkur til þess að koma upp lækningastofu fyrir gigt- og nuddlækningar. Þessi kona hefir verið utan um tveggja ára skeið og lært þar bæði sjúkraleikfimi, gigt- og nuddlækningar, og annað það, sem lýtur að því að hressa upp á líkamann á svipaðan hátt. Hefir hún meðmæli allra lækna á Akureyri, Steingríms Matthíassonar, Valdemars Steffensen, Bjarna Bjarnasonar og Péturs Jónssonar. Telja þeir allir nauðsynlegt, að slíkri lækningastofu sé komið upp á Akureyri. En til þess vantar hana fé. Það mun vera fordæmi fyrir samskonar fjárveitingu, því að Jón Kristjánsson mun hafa fengið meira að segja árlegan styrk til nuddlækninga; og þó að sá styrkur hafi nú verið tekinn út af fjárl., má samt sem áður veita þessari konu þennan styrk í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki nema hliðstætt við hitt tilfellið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta erindi, en legg það undir dóm hv. d.

Brtt. mín við 13. gr. lýtur eingöngu að því að ráðstafa þeirri hækkun, sem þegar er gerð á þessum lið nú við 2. og 3. umr. í hv. d. Það vill svo einkennilega til, að það fylgir þessum lið í fjárlagafrv. þannig löguð aths., að uppbótinni sé ráðstafað eftir sömu reglu og 1927. En fyrir það ár er engin regla sett um ráðstöfun á þessu fé; það stendur aðeins: til símritara o. fl., 8 þús. kr. Aftur á móti er sagt í fjárl. fyrir 1928: til símritara og fleiri, eftir sömu reglu og 1927. Þessar reglur eru með öðrum orðum alls ekki til í fjárlagafrv., og því flyt ég till. um, að hækkun þessi skiptist milli allra hlutaðeigandi starfsmanna, hvort sem þeir eru skipaðir eða settir. Þar sem þetta fé er veitt í þeim tilgangi, að landssíminn geti haldið góðum starfsmönnum hjá sér, þá taldi ég nauðsynlegt, að hækkuð væru laun þeirra einnig, sem eru að búa sig undir að verða símritarar, en eru ekki enn skipaðir í neina fasta stöðu.

XI. brtt. á þskj. 497 fer fram á, að lagt sé fé til byggingar lesstofu fyrir nemendur Gagnfræðaskólans á Akureyri, og eldhúss fyrir heimavist hans. Þó að þetta skólahús sé nokkuð stórt, þá er það svo fullt, að það vantar tilfinnanlega lesstofu eins og menntaskólinn hér hefir nú nýviðgerða og þykir vera fyrirmynd. Skólameistari gagnfræðaskólans er staddur hér í bænum, og hefir hann skoðað lesstofu menntaskólans og er mjög hrifinn af henni. Þykir honum eðlilegt og sjálfsagt, að gagnfræðaskólinn nyrðra eignist slíka lesstofu. Ennfremur vantar skólann eldhús fyrir heimavistina, og væri mjög heppilegt að byggja þetta tvennt sameiginlega. Skólameistari talaði og um meiri húsaskort, en ég sá ekki fært að fara fram á meiri umbætur nú en þetta.

XXI. brtt. eru tveir persónustyrkir. Fyrri liðurinn fer fram á, að Finni Sigmundssyni verði veittar 2.000 kr. — eða til vara 1.500 kr. —, til þess að semja skrá yfir íslenzkar rímur og kanna sögu þeirra. Maður þessi segist hafa lagt nokkra vinnu í það að kanna sögu rímnakveðskaparins frá upphafi. Þessi list kveðskapar er eins og allir þekkja, ævagömul og algerlega sérstæð með okkur Íslendingum, að því leyti ekki sízt, að hún blómgast mest á þeim tímum, þegar lítið ber á öðrum bókmenntum. Er rímnakveðskapurinn yfirleitt mjög sérkennilegur fyrir okkar þjóð. Til þess að geta unnið að þessari rannsókn í framtíðinni kveðst Finnur þurfa að fá nokkuð ríflegan styrk. Sýnist mér sanngjarnt og eðlilegt, að þingið styrki þennan mann til slíks starfs og hefi því leyft mér að flytja þessa brtt.

2. liður þessarar XXI. till. er um að veita Jóhanni Sveinssyni frá Flögu styrk til þess að semja kennslubók í almennri skólasögu, 2.000 kr. — eða til vara 1.500 kr. Maður þessi hefir fengið styrk hjá þinginu áður, til þess að leita sér menntunar í uppeldismálum utanlands. Það sýnir, að hann hefir notið trausts þingsins þá. Þessi hv. d. samþ. þann styrk; býst ég því við, að hann sé að góðu kunnur, og tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till.

Þá er brtt. XYVII., sem fer fram á, að Unni Benediktsdóttur, sem kallar sig Huldu, verði veittar 1.000 kr. sem skáldalaun. Við höfum nú í fjárl. 2 eða 3 skáldkonur. Man ég nú í svip eftir þeim Ólöfu frá Hlöðum og Kristínu Sigfúsdóttur. Sú síðarnefnda hefir 1.000 kr. í skáldalaun. Jafnvel þó að liggi miklu meira eftir U. B. en Kristínu Sigfúsdóttur, þá fer ég ekki fram á hærri upphæð til hennar. Það munu þegar vera komnar út þrjár ljóðabækur eftir hana og fjórar sögubækur og æfintýri. Og nú er í prentun stórt safn af sögum og æfintýrum eftir hana Unnur Benediktsdóttir hefir því lagt fram ríflegan skerf sem skáldkona, og lítur út fyrir, að hún eigi töluvert mikið að leggja fram enn af skáldverkum, enda er hún ekki meira en miðaldra kona.

Þá á ég aðeins eftir að minnast á síðustu brtt. mína. Ég talaði fyrir henni við aðra umr. þessa máls. Till. fer fram á ábyrgð fyrir 150 þús. kr. láni til Samvinnufélags sjómanna á Akureyri, til kaupa á fiskiskipum. Eins og ég gat um, hefi ég þegar mælt fyrir þessari till., og tel ég ekki þörf að bæta neinu þar við, með því að tími er naumur og margir þurfa að komast að til að mæla fyrir sínum till. Læt ég því lokið mínu máli, en vænti góðra undirtekta hv. þdm. undir brtt. mínar.