05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Jón Baldvinsson:

Það er ekki vafamál, að bezta lausnin á þessu máli hefði verið sú, að settur hefði verið upp nýr banki svo fljótt sem kostur var á. Átti að fá honum nýtt fjármagn, en hann gat síðan tekið að sér bú Íslandsbanka. Ég geri nú ráð fyrir, að þessi leið megi teljast úr sögunni, eins og málinu horfir nú við, og er því varla um annað að ræða en að fallast á eitthvað svipað till. hæstv. fjmrh. Enda virðist mér það vera næstbezta leiðin, sem til orða hefir komið. Í þessum brtt. er gert ráð fyrir nýrri stofnun, og töpin lenda þó að nokkru leyti á þeim, sem búnir eru að tapa. Samkv. matinu á bankanum er hann búinn að tapa 3½ millj. kr. umfram hlutafé. Væri það auðvitað réttasta leiðin að jafna tapinu á þá af skuldheimtumönnum bankans, sem ekki hafa veð fyrir skuldum sínum eða ekki fullt veð. Nú er það svo, að bæði ríkissjóður og Landsbankinn hafa nokkur veð fyrir sínum skuldum, og hefði hið beina tap hins opinbera því ekki orðið mjög mikið. En þó er mér sagt, að ríkissjóður muni eiga nokkur hundruð þús. kr. ótryggðar í bankanum, og hefði hann að sjálfsögðu orðið að þola afskriftir af því fé, ef bankinn hefði verið gerður upp.

Ég sagði, að réttast hefði verið að fara þessa leið, stofna nýjan banka. En till. hæstv. fjmrh. ganga út á það, að ríkissjóður gangi freku feti framar um að taka ábyrgð á skuldbindingum bankans. Má vitanlega alltaf um það deila, hversu miklu ríkissjóður mundi tapa á því, að bankinn væri „gerður upp“. Má því e. t. v. segja, að það borgi sig fyrir ríkið að leggja fram nokkra upphæð, jafnvel allt að 1½ millj kr., sem alveg mætti teljast töpuð. Getur verið, að þetta sé að sumu leyti betra vegna áframhaldandi starfsemi bankans og vegna hinna erlendu lánardrottna, til þess að gera þá ánægðari. — Fé það, sem ríkissjóður þarf til að greiða þau töp bankans, sem hann tekur á sig, verður vitanlega að taka með sköttum af þjóðinni. Nú er talað um að fá bankanum 3 millj. kr. af „enska láninu“ í forgangshlutafé. Það verður aftur á móti til þess, að ætla verður meira í fjárlögum til vaxtagreiðslu og afborgana. En það hefir óhjákvæmilega í för með sér meiri skatta á almenningi eða minni framkvæmdir í landinu. En eins og ég hefi sagt, er ég þó ekki alveg á móti því, að ríkið leggi eitthvað af þessu fé í hættu, eins og till. hæstv. fjmrh. fer fram á.

Ég verð þó að segja, að þegar kom fram till. um að flytja það tap, sem orðið hefir af Íslandsbanka, ekki eingöngu á ríkissjóðinn, heldur líka á þá nýju stofnun, sem fyrirhuguð er, þá þótti mér of langt gengið. Það á sannarlega ekki að meta hlutaféð eftir því, sem efnahagur bankans er nú, og taka hann inn í nýja útvegsbankann með því verði, sem nýjasta matið sýndi. Það hlýtur að verða þungur baggi fyrir nýja bankann, sem hefir mjög lítið fé til umráða, að taka líka á sig þann gamla syndabagga og leggja hann á kapítalið frá ríkissjóði. Ég veit ekki, hvort til eru aðrar leiðir til að halda sérstöku því tapi, sem orðið hefir á Íslandsbanka, en þær, sem stungið er upp á í till. hæstv. fjmrh., en ég gæti hugsað mér, að finna mætti annað orðalag, sem þætti mýkra. Ég hefi heyrt sagt, að einn af helztu ráðunautum hv. 3. landsk. hafi stungið upp á fyrirkomulagi í þessu efni, sem mætti notast við: ég væri mjög tilleiðanlegur til að ganga inn á slíkar till., sem gengju eitthvað í þá átt, að halda með sérstöku bókhaldi þessu 3½ millj. kr. tapi út af fyrir sig, og láta það hlutafé, sem nú er lagt inn í bankann, mæta því og afskrifa þegar í stað gamla hlutaféð, ef ákvæðum 16. gr. verður breytt.

Hv. 3. landsk. og aðrir nm., að mér sjálfum undanteknum, hafa komið fram með allmargar till. á þskj. 225. Ég flyt þó 8. brtt., við 15. gr. Ég get verið hv. 3. landsk. sammála um, að rétt sé að fella niður úr brtt. hæstv. fjmrh. ákvæðin um, að leggja megi hömlur á sparisjóðsfé, og ég er alveg samþykkur þeim ástæðum, sem hv. þm. færði fyrir þessu. Það er betra að mæta þessu þegar í upphafi en að eiga það alltaf yfir höfði sér. Flestum hinna brtt. er ég ósamþykkur. Hv. 3. landsk. talar hér eins og hann komi fram sem umboðsmaður þeirra manna, sem lofað hafa stuðningi sínum til endurreisnar Íslandsbanka — eins og hv. þm. orðaði það. En þó að hv. þm. segi við þingið, að ef þetta og þetta verði gert, muni hann og hans samherjar ekki standa við sínar skuldbindingar, álít ég ekki, að það hafi nein áhrif á þingið. Hv. 3. landsk. má ekki ætla sér það, að geta verið einskonar yfirráðherra, sem geti skipað þinginu fyrir verkum. Hv. þm. hefir raunar ekki fært neinar sannanir fyrir því, að hve miklu leyti hann geti talað fyrir hönd þeirra manna, sem vilja leggja fram fé til bankans; en allir vita, hvaða ástæður hafa verið notaðar til að safna fé hér innanlands. Það var látið í veðri vaka, að þeir mundu tapa öllu, ef bankinn yrði gerður upp, og því væri sjálfsagt að leggja fram fé til viðreisnar honum. Hafi þær ástæður verið fyrir hendi þá, eru þær það einnig núna. En þeir líta svona á málið: „Á hvern hátt töpum við minnstu? Töpum við meira á að draga okkur í hlé, eða á að láta bankann til skiptameðferðar?“ Og þeir hljóta að tapa meiru, ef bankinn er tekinn til skiptameðferðar. Það er því hagur þessara manna að leggja fram fé, þó að eitthvað verði klipið af því. Mér finnst þingið geta samþ. þau ákvæði í till. hæstv. fjmrh., sem þetta snerta, enda þótt hv. 3. landsk. þykist tala hér af hálfu þeirra, sem hafa lofað að leggja fram fé til endurreisnar bankanum.

Hv. 3. landsk. talaði fyrir brtt. sinni við 13. gr. í brtt. hæstv. fjmrh. Ein af ástæðum hv. þm. var býsna spaugileg, ef litið er á það, hvernig bæði hann og aðrir hafa um þetta talað áður. Hv. þm. er sannfærður um; að Íslandsbanki eigi ekkert til, og allir eru vissir um það, m. a. hefir bankaeftirlitsmaðurinn gert ráð fyrir því í mati sínu, að hlutaféð sé allt tapað. Samt sem áður vill hv. þm. segja, að „hlutaféð eigi að taka eignarnámi“. En það er ekkert til, og þess vegna ekkert hægt að taka. Og það er þó skárri lögfræðingur, sem stendur að baki orðum hæstv. ráðh., en hv. 3. landsk., þó að hann sé líka að fúska í faginu.

Það hafa komið fram brtt., sem eru ekki mikils virði, um nafn á bankanum. Heitin eru orðin allmörg, en mér finnst það heitið, sem er á bankafrv. í Nd., einna hentugast, sem sé að kalla bankann Útvegsbankann. Það er stutt orð, og útlendingar geta vel skrifað það og borið það fram. Annars getum við ekki hagað löggjöf okkar eftir því, hvað útlendingar geta borið fram. Hitt skiptir miklu máli, að heitið á bankanum sé hentugt og tamt landsmönnum. Og þó að bankinn héti t. d. verzlunar- og útvegsbanki, mundi hann í daglegu tali vera kallaður Útvegsbankinn. Ég býst þá við að bera fram skriflega brtt. um þetta við brtt. hæstv. ráðh. á þskj. 216. En verði það ekki, þykir mér skárra heitið, sem hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. G.-H. bera fram í brtt. sinni.

Ég hefi ekki borið fram aðrar brtt: — undirtektirnar í hv. n. örvuðu mig ekki til þess —, en ég verð að segja, að mér fyndist mjög eðlilegt, að Landsbankinn hefði átt hlut að máli um hlutaféð í Útvegsbankanum, eins og var í uppkastinu, sem gekk á milli þm. í gær. Vera má þó, að þetta hafi ekki verið tekið upp, af því að ekki hafi verið búið að tala nógu rækilega við framkvæmdarstj. Landsbankans. Það mætti enn gera það, því að þessu liggur ekki svo afskaplega mikið á. Mér finnst sjálfsagt að tala við Landsbankastj. og vita, hvort hún fengist ekki til að styðja hina nýju bankastofnun á þennan hátt. Ég flyt samt enga brtt., eins og ég sagði áðan, af því ég fékk svo lítinn byr í hv. n.

Ég mun, eins og hv. þm. hefir skilizt, samþ. flestar brtt.. hæstv. ráðh., þó að ég sé ekki fyllilega ánægður með ýmislegt í þeim. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. fylgi því fast fram í aðalatriðunum, einkum brtt. við 16. gr. Mér þótti vænt um að heyra, að hv. frsm. meiri hl. n. ætlar að styðja að till. hæstv. ráðh.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að samkv. brtt. yrði ríkið í meiri hl. sem hluthafi í bankanum. Ég býst við, að það sé rétt, ef brtt. á þskj. 225 verður samþ. En það er líka orðið dýrt að hafa meiri hl. í bankanum, ef ríkið á að taka að sér eins mikið af tapinu og gert er ráð fyrir í till. hæstv. ráðh., af því sem ríkið þarf ekki að leggja fram fé, þar sem það hefir tryggingar fyrir svo miklu af því, sem það á hjá Íslandsbanka.

Ég leyfi mér, eins og ég gat um áðan, að leggja fram skriflega brtt. um heitið á bankanum.