05.03.1930
Efri deild: 43. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál neitt verulega meir en orðið er. Brtt. okkar við 13. gr. viðvíkjandi gamla hlutafénu er fram borin af okkur hv. 1. þm. G.-K. fyrst og fremst til aðvörunar fyrir stj. Því að það fer eftir því, hvernig menn eru sinnaðir, hvort menn hafa tilhneigingu til að leggja á tæpasta vaðið. Ég vil ekki leggja á tæpasta vaðið, ef ég sé önnur tryggari nægilega nálægt. Og okkur hv. 1. þm. G.-K. finnst stj. mega vara sig á þessu. Því að ef eftirköstin koma þá er það hennar fyrst og fremst að mæta þeim. Hæstv. ráðh. vitnaði til, hvaða mat hafi fram farið. En það hefir ekki farið fram mat á þann hátt, sem alltaf er krafizt. Ég minni á, að útibúin hafa verið metin aðeins af einum matsmanni. Getur verið, að sú rannsókn sé nægileg fyrir stj., en hún er ekki fullgild gagnvart öðrum út á við. Og þeir menn, sem nánastir voru til þess að koma fram sem umboðsmenn hluthafanna, en það voru framkvæmdarstjórar bankans, þeir hafa ekki haft tilefni til að gefa matsmönnunum hér í Reykjavík upplýsingar svo rúmt sem lögin um framkvæmd eignarnáms mæla fyrir. En ég ætla ekki meira um þetta að þrefa, því að við höfum með till. borið fram okkar aðvaranir, og þar af leiðir, að við þvoum hendur okkar af öllum afleiðingum.

Út af því, sem hv. 4. landsk. sagði, finn ég ekki ástæðu til að taka fram annað en að ég hefi alls ekki talað hér sem umboðsmaður þeirra manna, sem loforð hafa gefið um hlutafé innanlands, né þeirra, sem vonast er til, að leggi fram lautafé utanlands. Ég hefi aðeins talað af kunnugleik mínum á þessum atriðum og hefi stuðzt, að því er snertir innlenda hlutafjársöfnun, við ummæli, sem mér hafa verið færð af þeirri n., sem hefir með höndum umboð flestra þeirra manna, sem lofað hafa hlutafé hér á landi. Og ég hefi ekki sagt annað um það efni en það, sem ég hefi rétt til að flytja sem skilaboð frá þeim mönnum.

Mér þótti vænt um þau ummæli hv. frsm. meiri hl., að þótt hann gæti ekki fallizt á brtt. okkar hv. 1. þm. G.-K. 9.a. á þskj. 225 við 16. gr. á þskj. 216, þá væri það ekki af því, að hann væri efni hennar mótfallinn, heldur telji hann þessa brtt. óþarfa, af því að með viðauka þeim við 6. gr., sem meiri hl. n. stendur að, og með burtfellingu 2. málsl. úr 16. gr., sem hv. þm. aftur í staðinn kvaðst mundu styðja, væri það alveg ljóst, að forgangshlutaféð í Íslandsbanka gengi yfir í Sjávarútvegsbankann sem venjulegt hlutafé í þeim banka með fullum hlutafjárréttindum þar. Og hæstv. fjmrh. lét lík orð falla að efni til, og í trausti þess, að hæstv. stj. þó ekki hviki frá þessum skilningi, skal ég eftir samkomulagi við meðflm. minn taka aftur þessa brtt. 9.a., af þeirri ástæðu, að hún er óþörf, þar sem það er viðurkennt af báðum hliðum, að efni hennar er að fullu fram tekið í till. annarsstaðar.