07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ásgeir Ásgeirsson:

Það hafa komið fram nokkur ummæli við þessa umr., sem mér er skylt að svara. — Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að ekki hafi litið út fyrir annað en að Íslandsbanki væri farinn veg allrar veraldar, þegar þetta frv. var afgr. frá þessari deild. Í því sambandi vil ég minna á till., sem hæstv. fjmrh. bar þá fram. Sú till. fól í sér, að frestað skyldi framkvæmd laganna um tiltekinn tíma. Þann frest átti að nota í ákveðnu augnamiði, sem sé til þess að fá nýtt mat á bankanum, semja við erl. lánardrottna og til þess að afla innlends hlutafjár til endurreisnar bankanum. Þegar frestur er gefinn til slíkrar rannsóknar, liggur það í hlutarins eðli, að það á að taka tillit til niðurstöðunnar af rannsókninni og málaleitununum, og það frv., sem nú liggur fyrir deildinni, sýnir, að fullt tillit hefir verið tekið til hennar. Frestinn hafa margir menn notað til hins ýtrasta og unnið öfluglega að viðreist bankans. Stj. hefir látið fara fram mat á bankanum, og útkoman sýnir, að unnt er að „rekonstrúera“ bankann. Bankaráð Íslandsbanka hefir látið fara fram samninga við hina erlendu lánardrottna. Að þeim samningum hefir Jón Þorláksson unnið fyrir hönd bankaráðsins í samráði við Svein Björnsson sendiherra. Þá hefir fjöldi manns unnið að því undanfarnar vikur að safna hlutafé innanlands. Árangurinn af þessu starfi er glæsilegri en nokkur gat gert sér í hugarlund, áður en sá frestur var gefinn, sem till. hæstv. fjmrh. fól í sér. Allt þetta, sem unnið hefir verið að, var óhjákvæmilegt skilyrði fyrir því, að hugsandi væri til að endurreisa bankann.

Þá spurði hv. þm. þess, hvort Íslandsbanki væri það sama og Sjávarútvegsbankinn í niðurlagi 15. gr. Þessi gr. var upphaflega í frv. mínu á þskj. 200. Þar er Landsbankanum og stj. hans heimilað að taka við allri seðlaútgáfunni nú þegar. Um ráðstafanir á gullforða bankans og um endurkaup Landsbankans á viðskiptavíxlum af Íslandsbanka fer þá eftir þeim reglum, sem landsbankalögin setja. Tilgangurinn með þessari till. er sá, að losna við þann tvískinnung, sem verið hefir á seðlaútgáfunni, og gera Landsbankann ótvírætt að einasta seðlabanka landsins. Erlendir sérfræðingar í þessum efnum, sem ég hefi átt tal við í tilefni af gengismálinu, hafa hvað eftir annað talað um nauðsyn þessa og hina auðveldu framkvæmd. Meðal annara vil ég nefna próf. Cassel og Sir Ernest Harvey.

Hv. 2. þm. Reykv. þótti illt, að í mínu frv. er engin kvöð lögð á Landsbankann um það, hvenær inndráttur Íslandsbankaseðlanna skuli fara fram. Er það m. a. vegna þess, að ég er því yfirleitt mótfallinn, að Landsbankanum sé skipað fyrir: Hann á að vera sem sjálfstæðust stofnun, óháð hinu pólitíska valdi, eins og hæstiréttur. Þessu verður ekki algerlega fullnægt, en því óháðari sem hann er skyndibreytingum stjórnmálalífsins, því betur! Þetta er ástæðan fyrir því, að ég hefi viljað láta Landsbankann ráða þessu.

En ef það er rétt, að Landsbankinn óski fremur að fá skipun um þetta frá þinginu en heimild, þá er ég jafnánægður með það, sem stendur í hinu mjög svo endurbætta stjórnarfrv.

Þá sagði hv. 1. þm. Skagf., að hið mikla hlutafé, sem ríkissjóður leggur bankanum til, sé sama og fullkomin ábyrgð á bankanum, eins og frv. Sjálfstæðisflokksins fól í sér. Í því sambandi vil ég minna á það, sem gerðist á lokaða fundinum, sem fyrstur var haldinn í þessu máli. Þar greiddi ég hiklaust og ákveðið atkv. á móti því, að ríkið tæki ótakmarkaða ábyrgð á Íslandsbanka. (JÞ: Það fór engin atkvgr. fram um það). Þær till., sem lágu fyrir frá bankaráðinu, fólu það í sér, að ríkið tæki fullkomna ábyrgð á bankanum. (ÓTh: Þær till. komu aldrei til atkv. — JJós: Þetta var aldrei borið undir atkv.). Nei, að vísu ekki, en þetta var þó í raun og veru það, sem þá var greitt atkv. um. En ef svo er, sem hv. 1. þm. Skagf. segir, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, bindi ríkissjóð svo, að kalla megi fullkomna ábyrgð á bankanum, og þeir hv. innan- og utandeildarþingmenn, sem nú grípa fram i, eru þó fylgjandi — hvernig stendur þá á því, að þessum sömu þingmönnum er svo mikið áhugamál að afsanna, að þeir hafi nokkurntíma áður verið fullkominni ábyrgð fylgjandi? Það er býsna tilgangslítið að ætla annarsvegar að þvo sig hreinan af því að hafa áður verið fylgjandi ótakmarkaðri ábyrgð á bankanum, og hinsvegar að sanna, að þær till., sem allir eru nú sammála um að fylgja, feli í sér samskonar ábyrgð. Það er óþarft að leggja á sig þetta erfiði — ekki sízt þar sem hvorttveggja er rangt! Ríkissjóður leggur fram ákveðna fjárupphæð sem hlutafé. Í 7. grein reglugerðar um Íslandsbanka stendur, að enginn hluthafi sé ábyrgur umfram sitt eigið hlutafé. Sama máli gegnir um það hlutafélag, sem hér er sett á stofn. Ríkið tekur enga ábyrgð á bankanum umfram það hlutafé, sem lagt er fram í byrjun. Ríkið getur því á hvaða tíma sem er gert þær ráðstafanir, sem heppilegastar eru, án nokkurrar ábyrgðar á skuldbindingum bankans gagnvart öðrum. En hverjar þær ákvarðanir verða, sem framtíðin ber í skauti sér, vitum við ekkert um að svo stöddu, og er tilgangslaust að tala um annað en það, sem nú liggur fyrir að taka ákvörðun um. Ríkið er aðeins einn hluthafinn og lýtur þar sömu lögum og aðrir hluthafar. Ábyrgð þess nemur hlutafénu, og engum eyri þar umfram. Þetta er eitt höfuðatriði bankamálsins.

Hv. 1. þm. Skagf. taldi, að það hefði verið betra fyrir ríkissjóð að leggja til þegar í upphafi það fé, sem með þurfti, og taka þá ábyrgð á bankanum í einhverri mynd. En það er áreiðanlegt, að hér á ekki við að segja: Því fyrr, því betra! Því að ef ríkið hefði tekið allt á sig í upphafi, þá hefðu þær samningsumleitanir og hlutafjársöfnun, sem farið hefir fram nú á síðustu vikum, aldrei komið til. Óþarfur dráttur er að vísu skaðlegur, en í landi, sem er óvant svona málum, gengur eðlilega tregar en annarsstaðar að leiða þau til lykta. Þó hefir einmitt sá frestur, sem kvartað er um, orðið til þess, að í staðinn fyrir að bankinn væri tekinn til skiptameðferðar, heldur hann áfram með stórlega auknu hlutafé. Bankinn mun verða tryggari en bankar eru yfirleitt í nágrannalöndum okkar. Hann verður jafnvel sterkari að eigin fé en sænska bankalöggjöfin heimtar, og er þá mikið sagt, því að Svíar eru varfærnir í þessum sökum.

Hv. 2. þm. Reykv. vék nokkuð að afskiptum mínum og annara af þessu máli. Þar gaf hann þær upplýsingar, sem ég hefi ekki heyrt áður, að frv. það, sem ég og tveir aðrir þm. bárum hér fram, hefði verið samið af mér og Jóni Þorlákssyni. Ég hefði ekkert skammazt mín, þó svo hefði verið, en sannleikurinn er sá, að frv. var samið af mér einum, en yfirlitið af prófessor Ólafi Lárussyni. Jón Þorláksson var einn af þeim, sem sá það áður en það var prentað. Jón Þorláksson símaði frv. eftir minni beiðni til sendiherra okkar, Sveins Björnssonar, því að það var áríðandi, að í frv. væri ekkert gagnstætt vilja hinna erlendu lánardrottna, sem þá var verið að semja við um hlutafjárframlög og afborgunarskilmála, því að engir möguleikar voru um endurreist bankans, nema hægt væri að komast að góðum samningum við þá.

Þá lagði hv. 2. þm. Reykv. mikla áherzlu á það, hve allt væri haldlaust í því frv., sem ég bar fram, og yfirleitt á engu að byggja, sem þar stæði. T. d. sagði hann, að a- og b-liðirnir í frv. væru hreint fals. Ég vil benda hv. þm. á það, að hann hefði átt að fylgjast betur með þeim samningaumleitunum, sem gerðar hafa verið, eins og ég og fleiri þm. hafa gert, svo hann hefði a. m. k. losnað við að gera sig beran að því að vita ekki, hvernig þessum málum nú er komið.

Þá skildist mér á hv. þm., að hann legði það mér til ámælis, að ég hefði samneytt bersyndugum manni, þar sem Jón Þorláksson var. Raunar hefði ég fremur viljað starfa með einhverjum flokksbróður mínum; það hefði valdið mér engu minni ánægju en að umgangast Jón Þorláksson. En einhver varð að fara með þetta starf, samninga við erlendu lánardrottnana, og bankaráð Íslandsbanka fól það Jóni Þorlákssyni með vilja stjórnarinnar, og Sveinn Björnsson sendiherra var fenginn til að vinna með honum, og leystu þeir báðir starf sitt prýðilega af hendi. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þess, hvaða möguleikar séu nú fyrir hendi eða muni verða, en aðeins geta þess, að stj. byggir á því í sínu frv., að þeir möguleikar, sem nefndir eru í mínu frv., séu raunverulegir. Að vísu kom yfirlýsing í Morgunblaðinu um afstöðu dönsku stj. Ég skal ekkert um hana segja á þessu stigi; mér er nóg, að það mun koma á daginn, að danska stj. er fáanleg til að gera það, sem henni er ætlað í mínu frv. Ég veit, að Stauning, flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv., gerir sitt bezta í þessu efni, enda fær hann, sem lánardrottinn bankans, þannig bezt málalok. Annað er ekki farið fram á við lánardrottnana en að hver geri það, sem hann telur bezt fyrir sína eigin hagsmuni. Það er það, hvað sé bezt fyrir þá sjálfa, sem Privatbankinn og Hambrosbanki hafa tekið ákvörðun nm. Það hefir að sönnu heyrzt, að einhver afturkippur hafi komið í Hambrosbanka, en ókunnugt vegna hvers. Raunar var hann þó sama hugar og aðrir um nauðsynina á endurreist bankans. En sem betur fer, þarf engum afarkostum að taka af Hambrosbanka. Hann getur verið með eða ekki, eftir því sem honum lízt. Útvegsbankinn verður stofnaður, þó að hann dragi sig til baka. Það er því rangt hjá hv. þm., að allur undirbúningur míns frv. sé haldlaus. Það mun allt standast, sem þar stendur. Hv. þm. veit lítið um þann undirbúning, sem fram hefir farið erlendis. Honum virðist vera það eitt ljóst, að ég sé óhreinn af því að hafa samneytt óhreinum manni, þar sem Jón Þorláksson er, og hann sem jafnaðarmaður geti engin mök átt við mig eða mínar till. vegna þess. Þetta virðist vera það eina, sem hann leggur áherzlu á um hið mesta alvörumál, er fyrir þinginu liggur.

Þá sagði hv. þm., að það væri ósvífni að setja ákvæði um útlendar stofnanir eða ríki í íslenzk lög. Í frv. stj. stendur aðeins það, að ríkissjóður leggi 3 millj. til bankans, ef vissum skilyrðum, sem nefnd eru, verður fullnægt, en um það stendur vitanlega hvergi, að einhverjum útlendingi eða erl. ríki sé skylt að fullnægja þeim. Ég vona því, að þessi „ósvífni“ mín rætist nú samt og að viðkomandi ríki geri það, sem um er að ræða, þó að það hafi ef til vill verið nefnt nokkrum dögum áður en nauðsynlegt var, hvað til stendur að það geri, ef íslenzka stjórnin óskar þess. Þá sagði hv. þm., að ég hefði, eins og íhaldsmenn, verið að reyna að bjarga gömlu hluthöfunum. Hv. þm. og flokksbræður hans láta eins og þeir séu að forða þjóðinni frá allt að 4½ millj. kr. tapi, sem af því gæti leitt, að enn eitt mat fari fram á bankanum vegna gömlu hluthafanna. Mér þótti það réttara að forminu til, að nýtt mat á hlutabréfunum færi fram, en get þó fallizt á það ákvæði stjfrv., að byggt sé á því mati, sem þegar hefir farið fram á bankanum, því um það efast enginn, að hlutabréfin eru einskis virði. Og ef einhver gömlu hluthafanna efast um, að svo sé, sem vart kemur til, þá er opin leið til málshöfðunar. Annars er engin hætta á, að til málshöfðunar komi, því að hlutabréfin eru, eins og ég sagði, einskis virði, og verða því ekki mikil málaferli út af þeim. Þess vegna eiga hv. þm. ekki að láta hátt um, að þeir séu að forða frá milljónatapi, þó þeir séu mótfallnir nýju mati. Enda er það eggjun til rána og gripdeilda, ef nokkuð væri til í fullyrðing þeirra um, að endurmat þýddi milljónir króna í vasa eldri hluthafa.

Loks taldi hv. þm. þann ókost á mínu frv., að engin ábyrgð væri tekin á innstæðufé. En það ánægjulegasta er einmitt það, að ef þessar till. í mínu frv. og stjfrv. ná fram að ganga, þá fær hver sitt, þó um enga ábyrgð á innstæðufé umfram það, sem nemur hluta- og áhættufé, sé að ræða. Bæði ég og aðrir, sem styðja stjfrv., byggjum á því. Innstæðueigendur og erlendir lánardrottnar fá allir sitt. (HV: En ríkissjóður?). Hann fær sitt fé líka. (HV: Hvernig?). Bankinn græðir, og þá fær ríkissjóður vexti af framlögðu hlutafé. Og skuld hans við ríkissjóð verður jafntrygg eins og annað. Ég, verð því að segja, að ef þetta er höfuðgallinn, þá er ekki margt athugavert við frv.

Mótbárur hv. þm. gegn frv. mínu, og þá um leið stjfrv., voru yfirleitt veigalitlar, en aftur á móti eru veigameiri meðmæli með hvorutveggja í nál. hv. þm. Þar skýrir hann frá stefnu Alþýðuflokksins í þessu máli, og þar eru talin ýms höfuðatriði stjfrv. og frv. míns.

Ég sé ekki ástæðu til að koma með mikla útreikninga í sambandi við þetta mál, en læt mér nægja að geta þess, að ríkið tapar mestu, ef bankanum verður lokað. En jafnvel þó það væri rétt, að ríkissjóður tapaði nokkru fé á því, að Útvegsbankinn sé stofnaður, þá er ekki þar með sagt, að ríkið tapi raunverulega á því. Stofnun bankans styður atvinnuvegina. Lánstraustinu er borgið að því leyti sem unnt er. Og afgreiðsla málsins verður þjóðinni til sóma. Ég mun því greiða atkv. með stjfrv., en móti öllum brtt.