07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Hannes Jónsson:

Ég ætla aðeins að taka það fram, að hv. frsm. bankanefndarinnar talaði ekki fyrir mína hönd, og hefi ég því óbundnar hendur um afgreiðslu þessa máls. Ég flyt brtt. við frv., en mun greiða því atkv., þó að hún nái ekki fram að ganga. Annars komu fram ýmsar fullyrðingar hjá hv. frsm., sem ég var ekki sammála, en þar sem hæstv. fjmrh. hefir minnzt á þær, þarf ég ekki að tala um þær nú. Ég ætla samt að minnast á eitt, sem honum varð tíðrætt um, en það var það, að Íslandsbanki héldi áfram að lifa.

Ég skal ekki deila um það við hann, en ég vil benda honum á 13., 14. og 15. gr. frv. Ef bankinn lifir áfram þrátt fyrir það, að þær gangi í gildi, þá held ég, að hann sé ódauðlegur. — 13. gr. tekur fram, að hlutafé skuli strikað út. Hann gæti nú lifað fyrir því. En 14. gr. tekur fram, að Útvegsbanki Íslands skuli taka við öllum eignum, skuldum og ábyrgðum Íslandsbanka og að Íslandsbanki sé þá ekki lengur til sem sjálfstæð stofnun. Þetta virðist mér taka af öll tvímæli.

Ég býst við, að hv. þm. þættist ekki vera lengur 1. þm. Skagf., ef annar maður kæmist þar að. Hann mundi alls ekki telja sig þm. nema hann gæti setzt í eitthvert annað þingsæti. (MG: Ég gæti t. d. orðið þm. Vestur-Húnavatnssýslu). Já, það er hugsanlegt, en ef það mistækist líka, þá myndi hann hverfa af sviði stjórnmálanna. Hann væri pólitíkt dauður. — Ákvæði 15. gr. frv. eru einnig nokkuð skýr í þessu efni, þótt hv. þm. V.-Ísf. vildi snúa þeim nokkuð á annan veg. Þar er það tekið fram í 2. mgr. að seðla Íslandsbanka, þá sem í umferð eru, skuli draga inn og ónýta, ef bankinn kemur til með að renna inn í Útvegsbankann. Ef Íslandsbanki á að halda áfram, þá sýnist það heldur undarlega til fundið, að leyfa seðlum hans ekki að vera í umferð áfram. — Annars er þetta út af fyrir sig ekkert höfuðatriði, en þó hefir mér þótt rétt að geta þess, svo að það sæist, að hv. frsm. meiri hl. fór um þessi atriði ekki alveg rétt með skoðanir alls meiri hl. (MG: Ég sagði þetta fyrir sjálfan mig, en ekki í nafni n.).

Hv. frsm. minntist á það, sem rétt er, að með þessu frv. tekur ríkið á sig allmiklar fjárhagsskuldbindingar, þar sem það tekur í raun réttri ábyrgð á skuldum bankans. A. m. k. vextirnir um langan tíma og e. t. v. eitthvað af höfuðstól þeim, sem fram verður lagður, má teljast glatað. Ég vil nú gera tilraun til að draga nokkuð úr þessu tapi fyrir ríkissjóð á fullkomlega sanngjarnan hátt. Vil ég því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við 15. gr. frv., svo hljóðandi, ef hæstv. forseti vili leyfa mér að lesa hana upp: „Við 15. gr.:

Á eftir 1. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi:

„Arður af þessu hlutafé skal ganga til afskrifta á töpum á búi Íslandsbanka, þar til þau eru að fullu upp unnin“.

Til þess að greiða fyrir umr. um þetta atriði, skal ég þegar taka til meðferðar það, sem ég held að verði helztu mótbárurnar gegn brtt. minni, þ. e., að hún ætti að geta hindrað, að lagt yrði fram það hlutafé, sem lofað hefir verið gegn því, að ríkið leggi fram 3 millj. En það er alveg misskilningur, að till. gangi í nokkru gegn rétti þeirra manna, sem lofað hafa að leggja fram hlutafé, því að í 14. gr. stendur eftir sem áður, að ríkissjóður leggi Íslandsbanka 3 millj. króna sem forgangshlutafé, og í 2. gr. stendur, að ríkissjóður eigi að leggja Útvegsbankanum 1½ millj. króna sem hlutafé. Það hefir aldrei verið skilyrði frá hluthafanna hálfu, að þessi 1½ millj. kr. yrði fram lögð frá ríkinu. Hluti ríkisins af Íslandsbankahlutafénu kemur, þrátt fyrir brtt. mína, til að hafa fulla áhættu í bankanum. Þeir, sem lofuðu hlutafénu, hafa aðeins sett það skilyrði, að ríkissjóður legði fram 3 millj. króna, og því skilyrði fullnægir brtt. mín. Þrátt fyrir samþykkt hennar mun því ekkert verða, er hlutafjárlofendur geta hengt hatt sinn á, ef þeir vilja ekki standa við loforð sín. Öllum skilyrðum, sem þeir hafa sett, hefir verið fullnægt.

Ég hygg, að flestum hv. þdm. muni kunn ákvæði þessarar brtt. minnar, nú þegar fyrir fundinn. Ég ræddi um þessa tili. í n. og hefi síðan í gærkvöldi fært hana í tal við ýmsa hv. þdm., þótt hún hafi eigi legið fyrir skýrt orðuð fyrr en nú. Það, að ég kom ekki opinberlega fram með hana áður, svo að hún gæti orðið prentuð og útbýtt á fundinum, stafar af því, að ég vildi fyrst ganga alveg úr skugga um það, að brtt. gæti ekki arðið til þess að draga úr því, að aðrir hluthafar legðu fram sitt hlutafé. Og eftir að hafa athugað málið svo vel, sem ég átti nokkurn kost á, hefi ég ekki getað séð neina ástæðu til ótta í þessu efni.

Ég hefði haft tilhneigingu til að koma með fleiri brtt., t. d. um að bæta aftur inn í frv. einu atriði, sem niður var fellt í hv. Ed. Á ég þar við heimildina til að veita bankanum „moratorium“ á einhverju eða öllu innstæðufé sparifjáreigenda um takmarkaðan tíma. Ég er hræddur um, að það geti orðið erfitt hinum nýja banka að greiða allt það innstæðufé, sem heimtað verður út í byrjun. En þar sem atkvgr. í hv. Ed. sýndi skýrt og greinilega afstöðu þeirrar deildar til þessa atriðis, vil ég ekki tefja málið með því að bera fram brtt. í þessa átt.

Um gang málsins hér á Alþingi álít ég þýðingarlaust að ræða. Nú hefir dregið saman með mönnum, og er það aldrei nema gott. Þeir, sem áður vildu láta ríkið taka alhliða ábyrgð á bankanum, eða sama sem, hafa nú fallið frá þeirri kröfu. Bankinn hefir nú fengið loforð fyrir svo miklum styrk úr öðrum áttum, að það verður að teljast gerlegt að samþykkja þetta frv. Vænti ég, að hv. þm. leggi nú meira upp úr því að fá góða úrlausn málsins heldur en að nota það sem pólitískt bitbein eða árásarefni. Ef mér sýndist svo, ætti ég sjálfsagt hægt með að beina ýmsum árásum til andstæðinga minna, vegna afskipta þeirra af málinu, en ég kýs heldur að láta það vera.