07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Ólafur Thors:

Það er búið að ræða þetta mál svo mikið, bæði nú og áður, að ekki er ástæða til að fara um það mörgum orðum. Ég tel þó rétt, að málið fari ekki svo út úr deildinni að þessu sinni, að ég segi ekki nokkur orð.

Vil ég þá fyrst drepa á brtt. hv. þm. V.-Húnv., sem hnígur að því, að sá arður, sem kynni að verða af hinu nýja hlutafé, skuli ganga til þess að borga þau töp, sem talið verði, að orðið hafi á Íslandsbanka sérstaklega.

Út af þessu vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm. V.-Húnv., hvað hann álíti þau töp mikil, og á hvern hátt hann hugsi sér að slá því föstu, hve miklu þau nemi.

Samkvæmt síðasta mati er tap bankans 3½ millj. Nú nemur hið nýja hlutafé ca. 6 millj kr., og ef því er ætlað að bera hallann, sem orðið hefir á Íslandsbanka, er þar með lögð óeðlilega há kvöð á þá menn, sem sýnt hafa viðleitni í þá átt að reisa bankann við, með ríkissjóð sem aðilja að nokkru leyti. Ég er ekki viss um, að hv. þm. V.-Húnv. hafi gert sér ljóst, hver hin reikningslega niðurstaða af þessu verður, og skal því gera nokkra grein fyrir því.

Ef þeir, sem standa að endurreisn bankans með ríkissjóði, hefðu ekki lagt fram fé í því skyni af innstæðum sínum, hefðu þeir komið fram sem kröfuhafar í væntanlegu búi bankans, en vegna þess að þeir sýndu viðleitni í þá átt að reisa bankann við, mundu kröfur þeirra, ef till. hv. þm. V.-Húnv. næði fram að ganga, samkv. síðasta mati afskrifast með 3½ millj. niður í 2½ millj., eða sem svarar 581/3 %, en það mundi jafngilda því, að allir skuldheimtumenn bankans hefðu tapað 18.666.000 kr. af kröfum sínum, ef bú bankans hefði verið tekið til skiptameðferðar, og vænti ég þess, að hv. þm. sé mér sammála um, að litlar líkur séu til, að svo hefði orðið. Till. hv. þm. V.-Húnv. miðar því að því að gera hlut þessara manna enn þyngri en hann hefði orðið, ef þeir hefðu brugðizt illa við um að endurreisa bankann. Það er engin sanngirni í því, að sá, sem á 10.000 kr. sem innstæðu í bankanum og er reiðubúinn til þess að leggja það fram sem hlutafé, skuli fá innstæðu sína niðurfærða í 4.100 kr., en að annar maður, sem einnig á 10.000 kr. inni í bankanum, en ekki vill hætta þeim sem hlutafé, skuli geta tekið allt sitt út affallalaust. En þessi er afleiðingin af því, ef till. hv. þm. V.-Húnv. verður samþ. Má vera, að hv. þm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, og að hann mundi ekki hafa komið fram með till., ef hann hefði athugað þetta.

Vilji hv. þm. V.-Húnv. aftur á móti slá því föstu með mér, að tap Íslandsbanka sé ekki 3½ millj., eins og matsnefndin gerir ráð fyrir, heldur minna, breytir það vitanlega þessari afstöðu, þannig að halli hlutaðeigandi fjáreigenda samkv. till. hans verður hlutfallslega minni, en þá verður áhætta ríkissjóðs það vitanlega líka.

Ef ætla mætti, að 1.791.000 kr. af tapi bankans mundi vinnast upp, ef hann héldi áfram, og þeim mönnum og fyrirtækjum, sem þetta skulda, gæfist þannig kostur að halda áfram atvinnurekstri sínum — en fyrir þessu hefir matsnefndin gert ráð í skýrslu sinni —, lækkar sú upphæð, sem bankinn er talinn skulda umfram eignir, um helming. Ef þess er ennfremur gætt, að bankinn græðir 430 þús. kr. á týndum seðlum, að 135 þús. kr. skekkja varð við matið á útibúi bankans í Vestmannaeyjum, að hús bankans hér í Reykjavík er vanmetið um eitthvað 150 þús. kr., og að bankanum er að óþörfu, hvað efnishliðina snertir, reiknað sem tap 850 þús. kr. vegna gengishækkunar, — ef tillit er tekið til þessa alls, verður tap bankans ekki metið meira en 1 millj. kr. í mesta lagi. En ef tapið er fært svo niður, eins og ég hefi sýnt fram á, að rétt sé að gera, munar það 100 þús. kr. fyrir ríkissjóð, hvor leiðin verður farin, leið hv. þm. V.-Húnv. eða leið hæstv. stj.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að skýra þetta nánar, en skal hinsvegar gera það, ef véfengt verður. Vænti ég þess, að hvorki hv. þm. V.-Húnv. né aðrir hv. þm. vilji stefna þessu máli í vaða, með því að halda þessari brtt. til streitu, þar sem þetta munar ríkissjóðinn. ekki meiru en ég hefi sýnt fram á. Sjálfur mun ég, m. a. af þeim ástæðum, greiða atkv. gegn till., og vænti ég þess fastlega, að svo geri fleiri. Það er nú svo, að þetta bankamál hefir hvílt eins og mara á flestum þm., síðan það kom á döfina, og geri ég ráð fyrir, að fleirum en mér hafi létt í skapi við það, að nú er loksins svo komið, að telja má víst, að sú lausn fáist á þessu mikilvæga máli, er eftir atvikum verður að teljast ágæt. Hitt er annað mál, hvort allir flokkar þingsins hafa jafnan sóma af framkomu sinni í þessu máli, og víst er um það, að ræða hv. 2. þm. Reykv. varð ekki skilin nema sem tilraun frá hans hálfu til þess að þvo skjöld sinn og flokksbræðra sinna. Ræða þessa þm. bar það greinilega með sér, að honum var ljóst, að stj. hefir snúizt í þessu máli, þar sem hann var að reyna til að breiða yfir snúning stj., svo að honum mætti verða nokkur afsökun fyrir að styðja hana áfram í stóli. En hv. 2. þm. Reykv. finnur það vel, að hann og flokksbræður hans eru tjóðraðir af fyrri orðum sínum í þessu máli, og er því ekki nema eðlilegt, að hann reyni að rykkja í tjóðurbandið.

Áður en ég vík að efnishliðinni í ræðu hv. 2. þm. Reykv., vil ég leyfa mér að mótmæla þeirri staðhæfingu hans, að bankastj. Íslandsbanka hefði gert sitt til að spilla áliti og trausti landsins út á við, með því að gefa í símskeytum rétt á undan lokun bankans rangar upplýsingar til útlanda um hag hans. Ég greip fram í fyrir hv. 2. þm. Reykv., er hann staðhæfði þetta, og spurði, hvað hann hefði fyrir sér í þessu, og svaraði hann mér því, að hann ætti við skeyti, sem farið hefði milli Sir Charles Hambro og hr. Eggerts Claessens. Ég hefi nú leitað fyrir mér um það, hvað hæft er í þessum áburði, og fór sem mig grunaði, að hann var með öllu rangur. Vil ég í þessu sambandi geta þess, að hæstv. fjmrh. lét svipuð orð falla í hv. Ed. við 2. umr. málsins þar, og er fyrir þá sök því meiri ástæða til þess að Þingtíðindin beri það með sér, að hér er hallað réttu máli.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að bankastjórnin sem slík hefir ekkert símað til útlanda um hag bankans vikuna áður en honum var lokað. Hinsvegar fóru símskeyti á milli Sir Charles Hambro og Eggerts Claessens, sem þá var sjúkur heima hjá sér, mánudaginn 27. jan., eða viku áður en bankinn lokaði, en í þessu skeyti frá Claessen eru engar rangar upplýsingar um hag bankans. Vil ég leyfa mér að lesa þessi skeyti hér upp til sönnunar máli mínu. Skeytið, sem Sir Charles Hambro sendi til Eggerts Claessens, er á þessa leið:

„Vísa til símskeytis yðar 26. þ. m. Þykir leitt að verða að láta yður vita, að hér er óhagstæður arðrómur á sveimi um ástand banka yðar, og er honum fremur trúað vegna þess, að hlutabréfin hafa ennþá fallið. Getið þér símað oss opinbera neitun“.

Þessu skeyti svaraði Eggert Claessen svo samdægurs :

„Þakka fyrir vingjarnlegt skeyti yðar. Við vitum ekki um orsakir fyrir óhagstæðum orðrómi um bankann. Á kauphöllinni í Kaupmannah. fellur verð hlutabréfa vorra oft og stígur án nokkurra annara orsaka en spákaupa einstakra manna, og framboð á einungis fáum þúsundum getur orsakað töluverðar sveiflur. Annars eru hlutabréfin nú hækkandi og hafa stigið úr 24 upp í 30. Ekki hefir orðið vart við neinn óróa um bankann hér“.

Þessi skeyti eru send viku áður en bankinn lokaði, eins og ég tók fram, og eru algert einkamál þessara tveggja manna, sem að þeim standa. Hygg ég, að hvorki hv. 2. þm. Reykv. né flokksbræður muni vilja neita því, þó að þeim að öðru leyti verði ekki bylt við að ganga á snið við sannleikann, að enginn óhagstæður orðrómur hafi þá verið á sveimi um bankann.

Ég hefi hér fyrir mér skýrslur, sem sýna það, að verðlagsskrár hlutabréfanna hafa verið mjög óstöðugar á kauphöllinni alla tíð, og staðfestir það það, sem Eggert Claessen segir, að útboð nokkurra þúsunda hefir oft valdið verðhruni á hlutabréfunum. Ég leyfi mér því að vísa áðurnefndum aðdróttunum hv. 2. þm. Reykv. heim til föðurhúsanna, jafnframt því sem ég vænti þess, að hv. þm. endurtaki ekki þessar aðdróttanir; þegar svo skýr og ótvíræð rök hafa verið færð fyrir því, að hv. þm. hefir misboðið sannleikanum í þessu efni.

Ég get ekki neitað því, að mér þykja tilraunir jafnaðarmanna til þess að friðþægja samvizku sinni skemmtilegar. Hv. 2. þm. Reykv. skýrði frá því, að hann skildi vel aðstöðu stj., og vildi reyna að afsaka hana á einn og annan hátt. Sagði hann, að það frv., sem hér liggur nú fyrir, væri sambræðsla úr þrem frv., skiptafrv., frv. frá hv. þm. V.-Ísf. og frv. jafnaðarmanna. Þetta er ekki nema að hálfu leyti rétt. Í raun og veru er það frv. hv. þm. V.-Ísf. og frv. Sjálfstæðismanna, sem hér liggur fyrir. Skiptafrv. er eins og hali, til þess að verja stj. gegn mývarginum, sósíalistunum, svo að ég noti hina ágætu samlíkingu hæstv. fjmrh. Efast ég ekki um, að stj. sé þörf á þessum hala, til þess að inna þetta af hendi, á sinn hátt eins og skepnunum er þörf á sínum hala til þess að verjast ágangi mývargsins. Hitt, að hér er skellt framan við frv. jafnaðarmanna um hinn lítilmótlega Útvegsbanka, er algert aukaatriði. Hið eina, sem barizt hefir verið um í þessu máli, er það, hvort standa ætti við skuldbindingar Íslandsbanka eða ekki. Strax á lokaða fundinum báru Sjálfstæðismenn fram till., sem heimilaði stj. að gera þetta á hvern þann hátt, sem henni sýndist réttastur. Þessari till. var ekki sinnt, til mikils óhagræðis fyrir alla aðilja. En nú er þó svo komið, að eftir atvikum er viðunandi lausn fengin á þessu mikla vandamáli. Stofnun Útvegsbankans er gleðiefni fyrir alla þá, sem vildu, að Íslandsbanki yrði endurreistur sem öflugastur.

Mér skildist hv. 2. þm. Reykv. leggja höfuðáherzluna á að sýna fram á mismuninn á frv. stj. og frv. Sjálfstæðismanna. Skildist mér, að þessi munur ætti að liggja í því, að eftir frv. Sjálfstæðismanna væri ætlazt til þess, að Íslandsbanki starfaði áfram með sínu gamla hlutafé og með sömu bankastjórum. Þetta stendur nú að vísu ekki í frv. Frv. gerir ráð fyrir, að stj. ráði bankastjórana í samráði við þá aðilja, sem leggja fram fé sitt til þess að endurreisa bankann. En ég verð að segja það, að ég sé enga ástæðu til þess að skipta um bankastjóra, þó að bankinn sé endurreistur, þar sem engar sannanir liggja fyrir um það, og engar líkur eru fyrir því heldur, að bankastjórarnir hafi unnið til sektar vegna stjórnar sinnar á bankanum. Töp Íslandsbanka eru sambærileg við það, sem upplýst var um töp Landsbankans hér um árið. Datt þá engum í hug að kenna bankastjórum Landsbankans um þau töp. Þessi töp voru eðlileg afleiðing þess ölduróts, sem þá gekk yfir okkar þjóð sem aðrar þjóðir. Lögmál þessa fyrirbrigðis var þá ekki kunnugt og því ekki hægt að varast það, og hlutu því afleiðingar þess að skella á okkur sem öðrum. Fyrir þær sakir er engin ástæða til þess að vera að áfellast bankastjóra okkar, fyrr en sönnur hafa verið á það færðar, að þeir eigi hér til sakar að svara. Það er eftirtektarvert, að þessi töp beggja bankanna virðast vera staðbundin. Þannig er tap á útibúunum á Ísafirði og Austurlandi, en hinsvegar á hvorugu útibúanna á Akureyri. Virðist því svo, sem eðlilegt orsakasamband sé á milli tapanna og þess atvinnurekstrar, sem stundaður hefir verið á hverjum þessara staða, en alls ekki vera því að kenna, að bankastjórarnir hafi ekki gætt skyldu sinnar um að gera það, sem aðrir fjármálamenn hefðu gert í þeirra sporum. (GunnS: Þetta er vafasamt). Það liggur ekkert fyrir, sem bendi í aðra átt. Dettur mér þó auðvitað ekki í hug að synja fyrir það, að bankastjórarnir hafi gert afglöp. Það liggur í hlutarins eðli, að allir bankastjórar gera meiri og minni afglöp. Þeir eru ekki alvitrir, fremur en aðrir dauðlegir menn.

Hv. 2. þm. Reykv. hélt því fram, að við Sjálfstæðismenn vildum láta meta hlutabréf Íslandsbanka með hagsmuni hinna gömlu hluthafa fyrir augum. Ég verð nú að segja það, að ég sé enga ástæðu til þess að ganga á rétt þessara hluthafa, hvort sem þeir eru danskir eða íslenzkir. Þetta fé leitaði til Íslands, meðan ekki var völ á öðru, og hefir orðið hér að undirstöðu stórfelldara atvinnulífs en áður þekktist hér á landi. Ef það hefði ekki borizt hingað, má telja víst, að við værum ekki þar á vegi staddir um þróun atvinnulífsins og við nú erum. Og þótt eiginhagsmunir hafi staðið á bak við, að þetta fé barst hingað, hefir koma þess hingað orðið okkur Íslendingum til mikillar blessunar, og ég verð að segja það, að ég er ekki þannig skapi farinn, að ég vilji, ef hjá því verður komizt, leiða tap yfir þá menn, sem hafa gert mér mikinn greiða, jafnvel þó að þeir hafi gert það í eiginhagsmunaskyni. Hitt er annað mál, að það er óhjákvæmileg staðreynd, að þessir peningar eru tapaðir, en það er síður en svo, að það sé neitt gleðiefni.

Út af fullyrðingum hv. 2. þm. Reykv. viðvíkjandi aðstöðu okkar Sjálfstæðismanna til mats hlutabréfanna vil ég leyfa mér að lesa hér upp það, sem um þetta segir í frv. okkar. Þar stendur svo:

„Verð hinna eldri hlutabréfa skal ákveðið með mati og nafnverð þeirra fært niður í samræmi við það á næsta aðalfundi bankans. Matið skal framkvæmt af bankaeftirlitsmanni og fjórum mönnum öðrum, sem kosnir séu hlutfallskosningu í sameinuðu þingi“.

Tvo af þessum fjórum mönnum, sem samkv. till. okkar sjálfstæðismanna eiga að meta hlutabréfin ásamt bankaeftirlitsmanninum, hafa framsóknarmenn og sósíalistar á sínu valdi að skipa. Nú hefir bankaeftirlitsmaðurinn lýst yfir því, að hann telji hlutabréfin einskis virði, og er sósíalistum og framsóknarmönnum þannig gefið að mynda meiri hl. í matsnefndinni með honum. Það er því ekkert annað en rugl hjá hv. 2. þm. Reykv., að við sjálfstæðismenn viljum láta framkvæma þetta mat með hagsmuni hluthafanna fyrir augum — lítilmótleg tilraun til þess að afsaka snúning sinn og hringlandahátt í þessu máli. Satt að segja finnst mér það hálfundarlegt, að hv. 2. þm. Reykv. skuli ekki takast að finna betri brýr milli sín og stj. en svo, að hver maður getur rifið niður.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þeirri fullyrðingu hv. þm., að þær fréttir, sem borizt hafa af störfum þeirrar n., sem starfað hefir að samningum við erlenda skuldheimtumenn með aðstoð sendiherra Íslands, séu rangar. Hv. þm. V.-Ísf. hefir hrakið þau ummæli, en ég vil aðeins bæta því við, að í 3. kafla þessa frv. er það lagt til, að bankinn sé því aðeins tekinn til gjaldþrotaskipta, að aðgengilegir samningar náist ekki við skuldheimtum. bankans, svo sem umgetnar fregnir herma, að útlit sé til. Og ef hv. þm. trúir því ekki, að samningar muni takast, hvers vegna kemur hann þá með brtt. um að fella þetta ákvæði niður? Vitanlega gerir hann það af því, að hann veit, að fregnirnar eru sannar.

Hv. þm. (HV) staðhæfði, að ef Íslandsbanki væri tekinn til skiptameðferðar, þá myndi tap ríkissjóðs aðeins verða ein millj., og fullyrti um leið, að afföllin hefðu orðið 25%, en hinsvegar sagði hv. þm., að ef ríkið legði fram 4 millj. til endurreisnar bankanum, þá myndi tapið nema 2.115.000 kr., og með þessu væri verið að gera leik að því að kasta einni millj. í sjóinn, eins og hann orðaði það. Ég hygg nú, að þótt Íslandsbanki hefði verið tekinn til skiptameðferðar, þá hefði ekki þótt fært annað en að þjóðbankinn og ríkissjóður hefðu orðið að gefa eftir sinn forgangsrétt til þess að hægt hefði verið að standa í skilum við erlenda skuldheimtumenn í sama hlutfalli og þessa aðila. Það hefði þótt ósæmandi og óverjandi, ef ríkið eitt hefði tryggt sinn rétt, en látið alla aðra skuldheimtumenn um tapið. Hinsvegar er ég sannfærður um það, að eftir því sem málið liggur fyrir, þá mun ríkið engu tapa, ef bankinn verður endurreistur á skynsamlegum grundvelli, því að það mun vinnast upp, sem þegar hefir tapazt.

Hv. þm. spurði, hvað stj. ætlaði nú að gera við sexmenningana, hv. þm. V.-Ísf. og félagsbræður hans, og taldi hann það vist, að hún myndi fyrirgefa þeim. Tók hann orð Árna bókavarðar Pálssonar sér í munn og sagði, að það væri „mannlegt, en ekki stórmannlegt“.

Nú skulum við athuga, hvað Alþýðublaðið segir um frv., sem sjálfstæðismenn báru fram. Það komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„En þetta er aðalatriðið, að koma ábyrgðinni af bankanum á ríkissjóðinn. Það er þetta, sem Íhaldið hefir barizt fyrir“.

Þetta frv. var alveg eins að efni til og frv. það, sem hér er til umr. — Svo heldur blaðið áfram:

„Þess vegna þarf ekki að efa, að íhaldsmenn taka þessu frv. Ásgeirs, Bjarna og Lárusar fegins hendi.

Hvað gerir Framsókn? Klofnar hún í þessu máli? — Málinu, sem ráðherrarnir kalla stærsta mál þingsins? Eða lætur meiri hl. flokksins undan minni hlutanum?“

Nú vil ég spyrja, hvað ætla sósíalistarnir að gera? Ætla þeir að bætast í varalið Íhaldsins, eins og blaðið kallar sexmenningana? Ætla þeir að fyrirgefa stj.? Ætla þeir að hverfa frá jötunni og segja af sér þeim bitlingum, sem þeir hafa haft?

Ónei. Jafnaðarmennirnir verða áreiðanlega spakir við jötuna. Þeir bogna, eins og stj. hefir þegar gert. Það er „mannlegt, þó það sé ekki stórmannlegt“.