07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Brtt. hv. 2. þm. Reykv. hníga í þá átt að fella burtu allan 3. kafla þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., 11.–15. gr., sem eru um fjárframlög til Íslandsbanka og ákvæði um það, hvort og með hverjum hætti hann skal renna inn í Útvegsbankann og Útvegsbankinn þá taka við búi hans.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, fæ ég ekki séð, að nokkur grein sé gerð fyrir því, hvernig hæstv. stj. hugsar sér ástandið frá því er þetta frv. verður samþ., ef það verður samþ., og þangað til gengið er úr skugga um, hvort fjárframlög frá ríkissjóði og öðrum eru fyrir hendi. Ég þykist vita, að það muni taka nokkurn tíma. Það þarf að semja við erlenda lánardrottna um hagkvæm lánskjör og greiðslu hlutafjár og áhættufjár og við innlenda menn um hlutabréfakaup fyrir a. m. k. 1½ millj. kr. Mér er reyndar tjáð, að loforð séu þegar fengin fyrir 1700000 –1900000 kr., eða nokkru hærra en lágmarki því, sem ákveðið er í frv. Mest af þessum loforðum er frá mönnum, sem eiga fé inni hjá bankanum, að því er mér er sagt, en þó einnig eitthvað talsvert frá mönnum, sem ekkert eiga þar inni. Að sjálfsögðu verður fyrst og fremst að ganga úr skugga um, hversu margir af þessum mönnum ætla að standa við loforð sín, og hversu margir geta það. Ég hygg það rétt, sem mér hefir verið tjáð, að sumir þeirra, sem fjárframlögum hafa lofað, séu talsvert skuldskeyttir bankanum, svo að þeir jafnvel skuldi meira sumir hverjir en innstæðufé þeirra nemur. Í mörgum tilfellum þarf ekkert að vera við þetta að athuga, ef þeir eru fésterkir, en séu þeir hinsvegar tæpir, er varla ráðlegt fyrir bankann að breyta innstæðu þeirra í hlutafé.

Allt þetta þarf að rannsaka, og að sjálfsögðu tekur það nokkurn tíma, og þá einnig hitt, að semja við erlenda lánardrottna.

En hvernig verður starfsemi Íslandsbanka þennan tíma? Á hann að halda áfram að vera lokaður fordyramegin, en opinn bakdyramegin? Og hverjir stjórna Íslandsbanka á meðan? Er það núv. bankastj., eða verða jafnskjótt og þetta frv. hefir verið samþ. gerðar ráðstafanir til þess, að önnur bankastj. taki við? Í þessum löngu umr. hefir ekki verið drepið einu orði á þetta. En það má ekki minna vera en að upplýsingar komi um það, áður en gengið verður til atkv.

Í fáum orðum tel ég, að það, sem vinnst við samþykkt þessa frv., sé það, að lög eru sett um stofnun sérstakrar lánsstofnunar, Útvegsbankans, sem tekur við viðskiptum Íslandsbanka og fær nokkurt viðbótarfé til umráða. Ég tel það þýðingarmikið spor í rétta átt. Ég lýsti því yfir strax í fyrra, þegar rætt var um Búnaðarbankann, að ég teldi sjálfsagt, úr því að Alþingi hvarf frá því að hafa einn fasteignabanka og stofnaði sérstakan banka fyrir landbúnaðinn, þá yrði það að hlutast til um stofnun banka til þess að fullnægja lánsþörf sjávarútvegsins. Ég tel vel farið, að nú er horfið að því ráði. Því er ég fullkomlega samþykkur 1. og 2. kafla þessa frv. Ennfremur er ég samþykkur 4. kafla frv., úr því sem komið er, því önnur lausn mun ekki vænlegri til að gera upp bú Íslandsbanka. Hinsvegar er ég alveg sammála hv. 2. þm. Reykv. um, að III. kafla frv. sé eðlilegast og réttast að fella niður.

Ég er ekki í mörgum nefndum þessarar hv. deildar, en þó er ég í fjvn. Við erum nú um það bil að afgreiða fjárl. til 2. umr., og ég hygg, að ég mæli það með samþykki meðnm. minna, að okkur veitist fullörðugt að láta tekjur og gjöld standast á. Við höfum allir ríka tilhneigingu til að hækka ýmsa útgjaldaliði allverulega. Miklu meira en till. n. sýna. Verði 3. kafli frv. að lögum, eru ríkissjóði bundnir þeir baggar að leggja til Íslandsbanka 3 millj. kr. umfram það framlag, sem lögboðið er til Útvegsbankans. Þessar 3 millj. á að leggja fram af enska láninu, sem Íslandsbanki skuldar ríkissjóði. Vextir og afborganir af þessum þrem millj. nema réttum 360 þús. kr. á ári næstu ár. Ég tel ekkert vit í því að áætla ríkissjóði tekjur af þessum hlutabréfum fyrst um sinn; meginhluti þessa fjár fer til að mæta áorðnum töpum Íslandsbanka. Þetta þýðir það, að næst þegar fjvn. athugar fjárlagafrv., þarf hún að hækka 7. gr. þess um þessar 360 þús. kr., úr 1.170.000 kr. upp í 1.530.000 kr. Þetta er árleg greiðsla, þangað til þessar 3 millj. eftir skamman eða langan tíma fara aftur að gefa ríkissjóði eitthvað í aðra hönd. Eigi fjárl. ekki að verða afgr. héðan með verulegum tekjuhalla, verður því að sjá fyrir nýjum tekjum handa ríkissjóði. En að auka tekjurnar, þar sem ekki er um aðrar tekjur að ræða en skatta og tolla, getur ekki þýtt annað en að hækka skatta og tolla á landsmönnum.

Eða ef sú leið verður ekki farin, þá verður að draga úr gagnlegum og nauðsynlegum framkvæmdum. Og ég vil spyrja hv. þm., hvaða liði þeir vilja helzt skera niður. Vilja menn lækka jarðræktarstyrkinn, framlög til vega og brúa og síma, eða til skóla eða heilbrigðismála?

Það hefir furðulítið verið um það rætt, hvað það kostar ríkissjóðinn að leggja bankanum þetta fé. Menn tala um gífurlegt tjón, sem þjóðin hljóti að bíða af stöðvun bankans. En þeir hafa alls engar tölur að sýna því til sönnunar, nema hvað gert er ráð fyrir, að ríkissjóður og Landsb. muni tapa allt að 1 millj. króna sem lánardrottnar og við ábyrgð á seðlunum, ef Íslandsbanki er tekinn til skipta. Það er þó eigi nema 1/3 þess fjár, sem frv. ætlast til, að sett sé í bankann. Og um þjóðartjónið er það að segja, að Íslandsbanki hefir nú verið lokaður í meira en 5 vikur á hinn allra óþægilegasta hátt, án þess nokkurt atvinnufyrirtæki hafi stöðvazt eða verulegt tjón af hlotizt.

Hitt sjáum við berlega, að með því að samþ. þetta frv. er ríkissjóði um ófyrirsjáanlegan tíma bundinn 360 þús. króna árlegur baggi á herðar. Ég vildi ekki láta frv. fara svo úr hv. d., að ekki sæist, að þm. gerðu sér þessa hlið málsins nokkurnveginn ljósa.

Ég tel, að frv. sé neyðarúrræði, sem engin þörf sé á að grípa til. Ég er sammála hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Húnv. um það, hver sé hin eðlilega lausn á þessu máli. Hún er sú, að lánardrottnum bankans hefði verið gefinn kostur á að breyta einhverju af innieignum sínum í hlutafé, segjum t. d. 50%, sem þó ekki hefði þurft, en aftur yrðu lagðar þær kvaðir á hina, sem ekki vildu hjálpa bankanum á þennan hátt, að fast yrði sett af innieignum þeirra t. d. 25%, þar til fullnaðaruppgerð bankans hefði verið lokið.

Ég vil benda hv. þm. á það, að með þessu frv. er í raun og veru framið ranglæti einmitt gagnvart þeim mönnum, sem þessir fylgismenn bankans látast bera sérstaklega fyrir brjósti, innstæðueigendum. Hv. þm. Dal. upplýsti við fyrri umr. þessa máls, að innstæðufé næmi kringum 10 millj. kr. Af þessu innstæðufé hafa aðeins eigendur 3–4 millj. — loforðin eru 1.700–1.900 þús. — lofað að kaupa hluti í bankanum. Það er því aðeins 1/3–2/5 hlutar þeirra, sem hætta fé sínu eða helmingi þess til viðreisnar bankanum og taka á sig ábyrgðina. En allir hinir, 3/5–2/3 hlutar, eiga að fá fé sitt að fullu greitt. Það virðist næsta öfugt, að þeir, sem helzt vilja hjálpa, skuli af vildarvinum bankans vera harðast leiknir. Þeir verða að sætta sig við að láta helming innstæðufjár síns í mjög ótrygg hlutabréf, bréf, sem ekki geta talizt vera verð nema 40–50% hins skráða nafnverðs. En hinir, sem ekkert hjálpa, fá allt sitt greitt.

Ég neita því ekki, að fyrir hina smærri innstæðufjáreigendur hefði það, að verða að setja fast 25% af fé sínu, að vísu verið tjón, sem ýmsum hefði komið allilla. En þá hefðu þeir líka losnað við að greiða sinn hluta af 360 þús. kr. árlegri greiðslu, sem ugglaust verður tekin sem tollar til ríkissjóðs. Ég er viss um, að fyrir alla smærri innstæðueigendur hefði það verið stór ávinningur að losna við 360 þús. króna tollabyrði á næstu árum, þótt það hefði kostað þá ¼ innieigna þeirra í Íslandsbanka. Það mun vera auðvelt að sanna með útreikningum, ef til þess kæmi, hversu þung sú tollabyrði yrði almenningi. En hinir, sem eiga tugi þúsunda í bankanum, græða auðvitað á þessu.

Ef þetta frv. verður samþ., tekur ríkissjóður á sig langmestan hlutann af töpum Íslandsbanka, sem fram eru komin. Hann lætur í hlutafé 4½ millj. á móti 2– 2½ millj. kr., sem gert er ráð fyrir, að komi annarsstaðar að. Ríkissjóður tekur þannig á sig fulla 2/3 hluta af töpum bankans. Einhver hv. þdm. sagðist vera glaður yfir þessu frv., því að yrði það samþ., fengi hver sitt. Ríkissjóður fær ekki sitt. Hann bætir tapi á tap ofan. Það er ekki erfitt að láta bankann skila „hverjum sínu“, hverjum hinna sínu, ef ríkissjóður á að bera 2/3 af töpum hans, og 2/5 af innstæðueigendum er látinn taka að sér að greiða 1/3 hluta tapsins. En allir stærstu lánardrottnar bankans græða á þessu. En ríkissjóður tapar og smærri innstæðufjáreigendur tapa, jafnvel þótt þeir fái innieign sína. Þeir verða svo harðlega fyrir tollum og sköttum, að hún verður öll af þeim tekin, og meira til, en svo er um alla alþýðumenn.

Ég hefi nú greint ástæður til þess, að ég mun greiða brtt. hv. 2. þm. Reykv. atkv.

Hv. þm. Dal. flutti hér alllanga tölu, mest um sjálfan sig. Það var í sjálfu sér ekki margt í henni, sem þarf að svara, en þó ætla ég að fara stuttlega út í nokkur atriði hennar.

Það verður ekki hjá því komizt að minna þennan hv. þm. á ýmislegt í sambandi við það, sem hann var að tala um litla umhyggju okkar jafnaðarmanna fyrir sparifjáreigendum í bankanum.

Bankastjórum Íslandsbanka hefði verið nær að muna eftir umhyggjunni fyrir smælingjunum, þegar þeir með loforðum um hærri vexti en annarsstaðar voru fáanlegir, og með því á eftir að gefa út ranga og falsaða reikninga, voru að ginna fólk til þess að leggja sparifé sitt inn í bankann. Hv. þm. er einn þessara bankastjóra. Hún kemur nokkuð seint, umhyggja hans fyrir fátæklingunum, þegar bankinn er búinn að týna fénu, sem þeir voru gabbaðir til að trúa honum fyrir.

Ég get verið fáorður um það, sem þessi sami hv. þm. sagði um þáltill. okkar Alþýðuflokksmanna um rannsókn á stj. og rekstri bankans á undanförnum árum. En það verð ég að segja, að ef nokkrir menn á þessu landi ættu að óska þess af alhug, að rannsókn fari fram. á stj. bankans á undanförnum árum, þá eru það einmitt bankastjórar Íslandsbanka. Þeim ætti að vera það áhugamál, að hið sanna komi í ljós. Þeir hljóta að fá, verðskuldað eða óverðskuldað, ámæli margra manna. Þeim ætti því að vera það kappsmál, að óhlutdræg rannsókn færi fram, ef þeir tryðu því, að hún sýndi, að þeir væru alsaklausir af því ámæli, sem þeir hafa orðið fyrir. Hafi þeir ekkert saknæmt aðhafzt, þá kemur það í ljós, og þeir eiga heimtingu á, að það komi í ljós. Hafi þeir eitthvað af sér gert, á þjóðin heimtingu á, að það verði gert öllum kunnugt.

Persónulega álít ég, að þessi hv. þm. hafi ekki vitandi vits gert neitt það, sem hann áleit bankanum til óhags, og persónulega er ég fullviss um, að þessi hv. þm. hafi engan eyri dregið sér af fé bankans, og engan ábata af honum haft fjárhagslega, nema þau laun, sem hann tók sem bankastjóri. Þar með er þó ekki sagt, að hann eigi ekki sinn þátt í því, hvernig komið er fyrir bankanum, og honum og þjóðinni ætti að vera það áhugamál að vita, hvernig á því standi, að svo er komið, og hvort hægt sé að ámæla honum nokkuð fyrir það. Það er ennfremur vitanlegt, að mörg af þeim töpum, sem bankinn hefir orðið fyrir, voru til orðin áður en þessi hv. þm. varð bankastjóri, og aðrir, en ekki hann, eiga sök á þeim.

Það mátti draga það af orðum hv. þm., að ég hefði viljað fá hann settan í tukthúsið. Þetta er heilaspuni hv. þm. Mér félli það mjög illa, ef slíkt kæmi fyrir hann, margra hluta vegna. Ég álít hann ráðvandan mann, sem ekkert hafi gert viljandi bankanum til óhags. Hinsvegar get ég ekki neitað því, að ýms ummæli hv. þm., sem fallið hafa hér í þessari hv. d., sýna, að hann hefir ekki fylgzt svo vel með hag bankans sem mætti vænta af manni í hans stöðu. Hv. þm. sagði t. d. við fyrri umr. þessa máls, að bankastj. hefði átt miklu hægra og hagur bankans verið betri nú upp á síðkastið en áður, því áður hefði hún oft ekki vitað það að morgni, hvort hægt yrði að halda bankanum opnum þann daginn. Og í þeirri góðu trú, að allt væri að lagast og hagur bankans að batna virðist þessi bankastjóri hafa staðið þangað til allt í einu, að bankastj. tók eftir því, að farið var að minnka í kassanum. (SE: Þessu mun verða svarað rækilega). Þessu þarf ekki að svara. Þetta eru ummæli, sem fallið hafa af vörum hv. þm. sjálfs. Mig undrar mest, að bankastj. skyldi ekki taka eftir þessu tómahljóði í kassanum fyrr en svo skömmu áður en bankanum var lokað, sem raun varð á.

Hv. 2. þm. G.-K. las hér upp skeyti, sem einn bankastjóri Íslandsbanka sendi Hambrosbanka viku áður en bankanum var lokað. Ég hefi reyndar heyrt í hv. Ed., að það hafi verið einum tveim dögum áður en bankinn lokaði. Annars skiptir þetta ekki miklu máli. Ég geri ráð fyrir, að bankastj. hafi átt að geta séð viku fram í tímann og séð þá, hvort farið var að minnka svo í kassanum, að loka yrði bankanum.

Ég sagði áðan, að reikningar bankans hefðu í mörg undanfarin ár verið rangir. Ég mun víkja að því síðar. En áður en ég kem að því, verð ég að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Dal. og því, sem hann tók úr skýrslu matsnefndar til þess að afsanna, að reikningarnir væru falsaðir.

Hv. þm. las þau ummæli upp úr skýrslu bankamatsnefndarinnar, að bókfærslan í bankanum hefði verið í góðu lagi. Það er alveg rétt, en það segir ekkert um það, hvort reikningar bankans eru réttir eða rangir. Það segir það eitt, að starfsmenn bankans hafi fært bækurnar skýrt og greinilega og þeim borið samin innbyrðis. Ekkert meira. Þó vil ég benda á nokkra galla, ekki á bókfærslunni sjálfri, heldur því, hvernig lagt var fyrir starfsmenn bankans að haga henni. Það er t. d. upplýst eftir þessari sömu skýrslu, að ógreiddir vextir af ýmsum víxlum voru ekki færðir á venjulega viðskiptakontó þeirra manna, sem höfðu samþykkt víxlana, heldur á „ýmsa skuldunauta“. Einn stór skuldunautur bankans skuldar þar t. d. 40–50 þús. kr., sem eru ógreiddir vextir af víxlum. Með þessu er beinlínis reynt að fela skuld þessa mjög vafasama skuldunauts. Gengismunur er enginn reiknaður af póstsjóðsláninu danska, en hann mun nema um 820 þús. kr. Fleira mætti til tína, en þetta nægir til þess að sýna, að reikningarnir eru rangir, þótt bækur séu greinilega færðar. Og þó er hitt stórkostlegasta fölsunin, að milljónir tapaðra skulda skuli ár eftir ár taldar til eigna bankans.

Í Lögbirtingablaðinu 16. jan. síðastl. er yfirlit yfir hag bankans í árslok 1929. Þar stendur, að bankinn eigi hvorki meira né minna en 5 millj. og 700 þús. kr. eigið fé. Þar af er 4½ millj. kr. hlutafé, en 1.200 þús. kr. til að mæta töpum.

Þessi yfirlýsing bankastjóra Íslandsbanka var prentuð 16. jan., eða réttum hálfum mánuði áður en bankinn lokaði og Pétur Magnússon bankastjóri og Jakob Möller bankaeftirlitsmaður mátu, að bankinn ætti engan eyri til. Og bankastj., sem gaf þessa yfirlýsingu 16. jan., hefir játað, að það sé rétt, að bankinn eigi engan eyri, ekkert hlutafé og engan varasjóð þann 1. febr., hálfum mánuði eftir að þeir sögðu bankann eiga nærri 6 millj. kr.

Og svo læzt hv. þm. Dal. fyllast vandlætingu yfir því, að ég skuli segja, að reikningar bankans og yfirlýsingar hafi verið rangar.

Mér er þetta alveg óskiljanlegt. Hvernig er hægt að sanna mitt mál betur en með yfirlýsingu bankastjóranna 16. jan., að bankinn eigi 5,7 millj. kr., en hálfum mán. síðar er þetta allt tapað. Eða á ég að trúa því, að þeir hafi tapað 5,7 millj. kr. þennan stutta tíma? Nei, yfirlýsing bankastjóranna um hag bankans 31. des. var vitanlega röng, eintómt fals.

Hv. þm. Dal. afsakaði sig með því, að það væru fleiri en bankastjórar Íslandsbanka, sem gerðu þetta. Bankastjórar Landsbankans og Privatbankans o. fl. hefðu líka gert þetta. Mér er ekki um þetta kunnugt, en þótt það væri rétt, er það engin afsökun fyrir Íslandsbankastjórana. Og það er frámunalega fávíslegt af honum að vera að ámæla okkur jafnaðarmönnum fyrir að halda því fram, að reikningarnir hafi verið rangir, þar sem það er viðurkennt beinlínis af honum sjálfum, að svo sé.

Skýrsla nefndarinnar sýnir ennfremur, að í janúarmánuði var greitt út úr bankanum yfir 1 millj. kr. meira en greitt var inn í hann. Þá á að hafa farið að minnka í kassanum, eins og hv. þm. orðaði það. En hvaðan fékk þá bankinn þessa einu millj., sem hann greiddi út fram yfir það, sem greitt var inn? Það er atriði, sem vert er að athuga.

Þessu er líka svarað í skýrslunni. — 28. des. síðastl. er lagt þar inn vegna bæjarsjóðs Reykjavíkur 750 þús. kr. og um svipað leyti 565 þús. kr. vegna ríkisbankans þýzka. Er það fé til tryggingar útvarpsstöðvarinnar. Þessir tveir aðiljar, bæjarsjóður Reykjavíkur og ríkisbankinn þýzki, hafa því lagt bankanum til þessa einu millj. 315 þús. kr., og þetta fé hefir fleytt Íslandsbanka frá því um áramót og þangað til hann lokaði. Mig undrar það, ef bankastjórar Íslandsbanka hafa tekið við þessari einu millj. og 315 þús. í fullkomlega góðri trú á það, að þeir gætu skilað því aftur hvenær sem þess væri krafizt, nema þeir hafi séð skemur fram í tímann en gera verður ráð fyrir um menn í slíkri stöðu, sem þeir eru, og vitað minna um hag bankans en þeim var skylt.

Hv. 2. þm. G.-K. stóð hér upp og vitnaði. Kvaðst hann fyrir sitt leyti vera þess fullviss, að ríkissjóður tapaði engu af þessum 3 millj., sem hann á að leggja fram til Íslandsbanka, áður Útvegsbankinn tekur við búi hans. Þetta er fullyrðing, sem ekki er hægt að setja annað á móti en aðra fullyrðingu. Ég er þess fullviss, að fyrst a. m. k. kostar þetta ríkissjóð 360 þús. kr. árlega greiðslu til vaxta og afborgana. Fyrsta árið a. m. k. fær ríkissjóður engan eyri upp í þetta. Ég skal ekkert um það segja, hversu langt eða skammt verður þangað til ríkissjóður fær eitthvað upp í þessar 3 millj. En ef miðað er við afkomu bankanna hingað til, er full ástæða til að ætla, að þess verði æðilangt að bíða. Græðist bankanum fé, veitir áreiðanlega ekki af að leggja það í varasjóð hans fyrst um sinn og til aukningar starfsfé hans. Slíkt ber að meta meir en að greiða arð af hlutabréfunum.

Þá brá hv. 2. þm. G.-K. sér í biðilsbuxurnar og talaði utan að því, hvort við jafnaðarmenn vildum ekki vera svo elskulegir við Íhaldsflokkinn að flytja vantraust á núv. stj. Ef hv. þm. langar til að vita þetta, getur hans flokkur flutt vantraust á hæstv. stj. og skal ég þá svara þessari málaleitun hans á viðeigandi hátt, þ. e. með atkv. mínu um vantrauststill. (ÓTh: Er hann að tala við mig?). Það er misskilingur hjá hv. þm., að það séum við jafnaðarmenn, sem höldum lífinu í hæstv. stj. Við erum algerlega hlutlausir, eins og við höfum margsinnis lýst yfir. (ÓTh: Heyr á endemi!). Hjálparhellur núv. hæstv. stj. eru þeir þm. Íhaldsflokksins, sem um eitt skeið fóru með völdin í þessu, landi. Það eru verknaðarsyndir þeirra og vanrækslusyndir, sem valda því, að Framsókn fer nú með völdin. Það er minningin um afglöp og ósvinnu Íhaldsins. sem heldur lífinu í núv. stj.