07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Bjarni Ásgeirsson:

Áður en umr. fjara út, vildi ég minnast á eitt atriði, sem hefir verið dregið inn í umr., þó að það sé óviðkomandi kjarna þessa máls. Ég ætla ekki að víkja að frv., sem við 3 framsóknarmenn höfum borið hér fram, því að hv. þm. V.-Ísf. hefir gert það svo vel, að ekki stendur steinn yfir steini af árásum andstæðinga okkar.

Hv. þm. Ísaf. kom fram sem forsvarsmaður nýju hluthafanna í Íslandsbanka. Hann vorkenndi þeim og vildi rétta hlut þeirra. En ég er ekki viss um, að sú umönnun verði vel þegin. Ég býst við, að þeir, sem hafa lofað að leggja fram fé, hafi gert það upp við sig, hverju þeir hættu með því. En allt þetta skraf hv. þm. um ástæður þessara manna hnígur að því að mæla gegn þeirri till., sem hv. 2. þm. Reykv. talaði fyrir, og gerir hlut þeirra enn þyngri en hann er þegar orðinn.

Hv. þm. var að svara hv. þm. V.-Ísf., þegar hann sagði, að hver fengi sitt og að það væri gert á kostnað ríkissjóðs. Ég neita því ekki, að ríkissjóður leggur nokkuð í sölurnar. En ég vil halda því fram, að það, sem ríkissjóður leggur til samkv. frv. okkar, er minna en hann hefði orðið að gera, ef bankinn hefði verið tekinn til skiptameðferðar. Það er mikill munur á því tvennu, að hver fái sitt á kostnað ríkissjóðs, eða að allir tapi miklu, með miklum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Hv. þm. Ísaf. kallaði hv. þm. V.-Ísf. flugumann og sagði, að fyrir afskipti hans væri verið að kasta millj. krónum í sjóinn. „Ómerk eru ómagaorðin“. Ég legg það óhræddur undir dóm þjóðarinnar, hvor hafi orðið til meira gagns í þessu máli, hv. þm. Ísaf. eða hv. þm. V.-Ísf. Ef afskipti hv. þm. V.-Ísf. hafa kostað 1 millj., þá hefðu afskipti hv. þm. Ísaf. kostað 10 millj., ef eftir tillögum hans hefði verið farið.

Ég stóð annars upp aðallega út af því, sem nábúar mínir til beggja handa hafa verið að tala um, nefnilega hvernig fari nú fyrir vesalings Framsóknarflokknum. Ég vil biðja þessa hv. þm. að gera heldur hreint fyrir sínum eigin dyrum. Við munum vissulega aldrei leita til þeirra með okkar innanflokksmál. A. m. k. ætti hv. 2. þm. Reykv. ekki að bæta á sig áhyggjum út af vandamálum Framsóknar. Hann ætti sjálfur að hafa nægar áhyggjur út af ástandinu í sínum eigin flokki, þar sem allt er klofið, langsum og þversum frá vinstri til hægri. Og mér er sagt, að þar sé hv. þm. ekki kallaður „litla íhaldið“ heldur „stóra íhaldið“, og það með réttu.

Þegar Framsókn hirti þennan þm. og samherja hans upp af götu sinni, voru þeir ekki annað en munaðarlausir og umkomulausir pólitískir vergangsmenn. Það var Framsókn, sem setti þá til embætta og valda og virðinga, í þeirri von, að takast mætti að auka manndóm þeirra og glæða ábyrgðartilfinningu þeirra, en ég er hræddur um, að það ætli allt að mislukkast. Og nú þykir mér skörin færast upp í bekkinn, þegar þeir ætla að fara að skipa stj. fyrir um það, hvað hún skuli segja og gera við samflokksmenn sína. Það minnir mig á gamlan málshátt, sem hljóðar svona: „Naar Skarn kommer til Ære, ved det ikke hvordan det skal være“. Ég vona, að hv. þm. meti þetta gullkorn ekki síður; þó að það sé danskt.