07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Ég get tekið undir orð hæstv. fjmrh. um, að umr. mættu fara að styttast, og skal því verða stuttorður. En ég verð þó að leiðrétta það, sem hann sagði viðvíkjandi mínum orðum í kvöld. Hann kvað mig hafa látið í ljós, að ríkið yrði undir öllum kringumstæðum að bera ábyrgð á bönkum, vegna þess að þeir væru svo fléttaðir inn í viðskiptalífið í landinu. Hann gleymdi mjög mikilsverðum þætti úr því, sem ég tók fram, og það er, hvernig stj. bankans er fyrir komið. Mér dettur ekki í hug að halda slíku fram, þegar stjórn bankans er þannig, að hluthafar, eða einhverjir aðrir en hin opinberu stjórnarvöld, hafa með stj. bankans að gera. En um þann banka, sem hér á að stofna, er það þannig, að stj. á að ráða öllum bankastjórunum og stj. á að ráða meiri hl. bankaráðs. Undir þeim kringumstæðum getur ríkið ekki komizt hjá að svara til skuldbindinga bankans. Þetta er mín fasta skoðun. Við vitum það allir, að þrátt fyrir það, þótt ríkið ætti ekkert framlag í Íslandsbanka, þá er litið á hann sem opinbera stofnun, a. m. k. í útlöndum. Það er af því, að stj. skipar meiri hl. bankastjóranna, þingið velur 3 menn í bankaráð og forsrh. landsins er formaður bankaráðsins.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, hver hefði verið okkar till. fyrst. Rétt er það, að till. var um það, að fela stj. að ráða fram úr málinu þannig, að bankinn stöðvaðist ekki. Hann má ekki blanda þessu saman við till. bankaráðs um það að taka ótakmarkaða ábyrgð á bankanum. Það komu fram aðrar till. frá bankastjórunum um það, að leggja fram 1½ millj. handa bankanum og taka ábyrgð á innstæðufénu. Þessa leið gat hæstv. stjórn líka farið. Við settum henni ekki fyrir, hvaða leið hún færi. Það voru margar aðrar leiðir en að taka ábyrgð á bankanum að öllu leyti, — ótal leiðir.

Hann sagði sem satt er, að væntanlegir hluthafar bankans taka á sig áhættu í þessu sambandi, sem ekki var gert ráð fyrir í byrjun, en ég vil benda á það, að þó að ríkið hefði veitt hjálp til þess að halda bankanum opnum, þá var ekkert því til fyrirstöðu, að lánardrottnar bankans og innstæðueigendur veittu honum sinn stuðning með hlutafjárframlögum. Og stj. gat sagt við þá: Ríkið leggur ekki meira fé til bankans, nema þið hlaupið undir baggann líka, annars verður bankanum lokað. — Það var nægileg hvöt fyrir hlutaðeigendur.

Mig undraði mjög að heyra hæstv., fjmrh. halda því fram, að brtt. hv. þm. V.-Húnv. væri til bóta. Mér er óskiljanlegt, hvernig á því stendur, að hæstv. stj. skuli ekki vilja fá þessa umbót á sínu eigin frv. og mæla á móti brtt., ef hún lítur svona á hana. Hún lifir þó, eins og kunnugt er, öflugan meiri hl. í Ed. Og hver trúir því, að hún geti ekki komið frv. í gegnum þingið með þessari breyt., ef hún vill? Ég trúi því ekki. En hvað á maður að halda, þegar stj. leggur áherzlu á, að frv. verði samþ. óbreytt, þó að fyrir liggi brtt., sem hún álítur vera til bóta? Hæstv. fjmrh. þarf að vera skorinorðari en hann er, til þess að gera ljósa þessa afstöðu sína; en það skortir hann venjulega. Ég er viss um, að hann trúir því ekki, að brtt. sé til bóta, og óskar ekki eftir því í hjarta sínu, að hún verði samþ. Hann hlýtur að sjá, að ef brtt. verður samþ., þá getur hún orðið til þess að kippa fótunum undan frv. og framkvæmd þessa máls yfirleitt. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. leysi úr þessu máli af einlægni og alvöru, en ég á erfitt með að halda í þá von, er ég heyri hann haga þannig orðum sínum og verð þess var, að hann þorir ekki að mæla á móti stuðningsmönnum, jafnvel er þeir flytja brtt., sem miða að því að eyðileggja frv., sem hann telur sitt.