07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2006 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki tefja umr. mikið; þær eru orðnar ærið langdregnar nú þegar. Hv. 2. þm. Rang. hefir að ég ætla í ræðu sinni flutt gott sýnishorn af rökvísi og gaumgæfni ýmsra hv. þm. og skilningi þeirra á bankamálum. Hann byrjaði ræðu sína á því, að mælast til þess, ef hinn fyrirhugaði útvegsbanki yrði stofnaður, að þá yrðu útlánsvextir bankanna tafarlaust lækkaðir. Þetta var vel mælt. Og ég vil taka undir þetta með honum; álít mál til komið, að vextirnir verði lækkaðir svo mikið sem unnt er. Þetta var nú fyrsti kaflinn í ræðu hv. þm. Hann var góður. En í öðrum kafla ræðunnar skýtur nokkuð skökku við. Þar talaði hv. þm. um þá miklu gróðamöguleika, sem ríkið hefði í sambandi við rekstur bankans, og arðinn, sem ríkissjóður myndi fá af því fé, sem lagt væri til Íslandsbanka. Hv. þm. fullyrti, að töp Íslandsbanka mundu bætast að fullu á stuttum tíma; en það mega teljast undarlega góðar vonir. Ég verð að segja það, að þessi bjartsýni virðist ekki á miklum rökum byggð. Það er öllum ljóst, að Íslandsbanki hefir alltaf verið að tapa undanfarin ár, þrátt fyrir góðæri til lands og sjávar, og Landsbankinn hefir að miklu leyti sömu sögu að segja, eða svo fullyrða a. m. k. formælendur Íslandsbanka. Hv. 2. þm. Rang. vill á sama tíma lækka útlánsvexti bankans og vinna upp töp Íslandsbanka, 3½ millj. kr., með vaxtatekjum hans. Þetta er óskiljanleg bjartsýni. A. m. k. þarf þá að stjórna Útvegsbankanum betur en Íslandsbanka hefir verið stjórnað, ef hann á að geta stórgrætt samtímis því, sem hann lækkar útlánsvexti.

Hv. þm. gerði lítið úr hinum fjárhagslegu örðugleikum og útgjöldum ríkissjóðs vegna fjárframlaga til bankans. Það getur ekki kallazt bjartsýni, en mun af flestum verða talið vísvitandi gyllingar. — Að ætla hinum nýja banka í fyrsta lagi að vinna upp á fáum árum 3½ millj. kr. tap, í öðru lagi að greiða hluthöfum arð eða vexti af hlutafé sínu, og í þriðja lagi að lækka útlánsvexti sína, — það er alveg frámunaleg fjarstæða.

Ýmsir hv. þm. hafa drepið á það, sem ég sagði um reikningsfærsluna í Íslandsbanka, þar á meðal hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. G.-K. Hv. þm. Dal. þótti ég vera ómjúkur í orðum, þar sem ég sagði, að reikningarnir hefðu verið falsaðir. En hann ætti þá fremur að snúa sér að hv. 2. þm. G.-K. og vita hann fyrir ummæli hans um reikningsfærslu bankans. Því að hv. 2. þm. G.-K. tók svo til orða í síðustu ræðu sinni, að síðastl. 10 ár hefði hagur Íslandsb. aldrei verið betri heldur en síðustu vikuna áður en hann lokaði. Ég veit ekki, hvernig hægt er að fordæma reikningsfærslu bankans meira en gert er með þessum orðum hv. þm. — Þegar bankanum er lokað, á hann engan sjóð og engar eignir, en skortir 3½ millj. kr. til þess að eiga fyrir skuldum þótt allt hlutaféð sé strikað út. Þetta segir hv. 2. þm. G.-K., að hagur bankans hafi verið beztur á síðastl. 10 árum. Sé þetta rétt hjá hv. 2. þm. G.-K., hefir reikningafölsun Íslandsbanka verið ennþá stórkostlegri en ég hefi gert ráð fyrir. Árið 1920 var eigið fé bankans í reikningum hans talið 8½ millj. króna, eða hagur hans sem svarar 12 millj. kr. betri en nú er. En hv. þm. segir nú, að hagur bankans hafi í raun og veru verið verri þá en nú. Hafa því reikningarnir logið til þá um ca. 12 millj. króna, að því er þessi hv. þm. segir, og um hátt upp í það sömu upphæð ár hvert æ síðan.

Mér finnst, að hv. þm. Dal. ætti sérstaklega að tala við þennan hv. þm. um reikninga Íslandsbanka. — Þegar hv. 2. þm. G.-K. var rétt búinn að gefa þessa yfirlýsingu, að hagur bankans hefði alltaf verið verri undanfarin 10 ár heldur en dagana áður en honum var lokað, þá fór hann að tala um, að eitt blað hér í bænum hefði gert mikið til þess að skapa óróa um bankann fyrir 10 árum síðan, og að það hafi leitt til þess, að innstæður voru fluttar úr bankanum. Ég veit ekki með vissu, við hvað hv. þm. á; en ég minnist þess, að einn maður, Ólafur Friðriksson, var eitt sinn dæmdur til þess að greiða 20 þús. kr. fyrir það að segja sannleikann um Íslandsbanka. Og þjóðin stendur vissulega í þakklætisskuld við þá menn, sem hafa sagt satt um hag bankans, en hinum, sem í því efni hafa farið með fals og blekkingar, hlýtur hún að gjalda margfalda óþökk. Hafi Ólafur Friðriksson fengið réttlátan dóm fyrir sína umsögn um hag Íslandsbanka, sem ég vitanlega neita, enda þótt hann hafi aldrei talið bankann ljúga til um 12 millj. um efnahag sinn, þá ætti hv. 2. þm. G.-K. að fá tvöfalda sekt við hann fyrir gífuryrði sín um hag og reikningsfærslu Íslandsbanka síðustu 10 árin. — Ég veit ekki, hvers vegna forsvarsmenn bankans hafa verið að bera á móti því, að reikningar bankans hafi verið rangir, þegar þeir í öðru orðinu viðurkenna, að hagur bankans hafi jafnan verið allur annar og verri en reikningarnir hafa sagt. Slíkt er reikningafals. Ekkert annað.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að það væri „rugl“ hjá mér, að útgjöld ríkissjóðs mundu fyrst um sinn árlega aukast um ca. 360 þús. kr. vegna vaxta og afborgana af hlutafjárframlagi til Íslandsbanka af enska láninu. Hann má kalla það hvað sem hann vill; en það sér hver heilvita maður, að þegar Útvegsbankinn verður að taka á sig strax í byrjun 2/3 af hallanum á búi Íslandsbanka, þá verður ekki hægt að greiða arð af hlutafénu meðan verið er að vinna upp þessi töp, 3½ millj. króna, og þann tíma verður ríkissjóður að greiða vexti og afborganir af enska láninu, sem, eins og áður er sagt, nemur 360 þús. kr. árlega. Ef bankinn ætti að greiða þetta, þá yrði hann að greiða 12% í arð af hlutafénu. — Vilji hæstv. forseti leyfa, að um það sé haft viðeigandi orð, þá verður beinlínis að telja það vitleysu, að hugsa sér slíkt. Það dettur engum óvitlausum manni í hug, að bankinn geti greitt 12% í arð af hlutafénu fyrst um sinn, þó að Íslandsbanki leyfði sér að gera það 1918. Til þess það væri hægt, yrði að íþyngja landsmönnum stórkostlega með okurvöxtum. Hv. 2. þm. G.-K. sagði enn, að sér væri það mjög kærkomið, ef stj. yrði að víkja frá völdum, svo að aðrir gætu komizt að jötunni, og beindi hann því sérstaklega til okkar jafnaðarmanna, að hjálpa nú til að steypa stj. Ég svara þeim tilmælum hans á sama hátt og áður. Hv. þm. getur reynt að bera fram í þessari hv. þd. vantraustsyfirlýsingu á stj., og þá skal ekki standa á svörum frá mér og mínum flokksbræðrum við þeirri tillögu.

Hv. 2. þm. G.-K. er sí og æ með harmagrát út af því, hvað jafnaðarmenn fái mikið úr jötunni hjá ríkisstj. Ég sé nú ekki mikla ástæðu til þess fyrir hann að vera með slíka kveinstafi, þar sem hann hefir sjálfur lýst því yfir, að hann hefði eitt bein, sem gæfi honum 400 kr. á hverri klst., sem hann væri við störf. Hygg ég, að hann skari fram úr flestum hér og hafi sett met í beinaáti, þ. e. að taka laun fyrir ekkert. Sjálfur hefi ég ekkert bein frá stj. Ég hefi að vísu setið í milliþinganefnd í skattamálum með hv. 1. þm. Skagf. og hv. 1. þm. N.-M. En það er þessi hv. deild, en ekki stj., sem hefir veitt okkur það bein, sem vitanlega er ekki rétt að kalla því nafni, þar sem aðeins er um að ræða viss daglaun fyrir ákveðin störf. — Þessi beina- og harmagrátur hv. þm. er fremur broslegur, en hann virðist ekki koma bankamálinu neitt við. Nema svo beri að skilja þetta, ef ný stj., íhaldsstj., settist að völdum, þá myndi hún velja sér það hlutverk að ívilna gjaldþrota skuldunautum Íslandsbanka svo með beinum úr ríkissjóði, að þeir gætu staðið í skilum við bankann og greitt honum skuldir sínar.

Sessunautur minn, hv. þm. Mýr., mælti nokkur hlýleg orð í garð okkar jafnaðarmanna, sem mér er skylt að þakka fyrir, enda þótt flokksbróðir minn, hv. 2. þm. Reykv., hafi þegar þakkað honum fyrir sig. En af því hann er ekki viðstaddur, get ég beðið með það og snúið mér að hv. þm. Dal. (PO: Það verður að sækja hann).

Hv. þm. Dal. hélt eina af sínum alkunnu, háfleygu, loftkenndu ræðum og varpaði fram þeirri spurningu, hversu mikið það myndi draga úr framleiðslunni, ef Íslandsbanki hætti störfum. Þessu hefir þegar verið svarað að nokkru. Íslandsbanki hefir nú þegar verið lokaður í 5 vikur á versta tíma og á þann óþægilegasta hátt, sem hægt er að hugsa sér, þar sem óvíst er og almenningi hulið, hvað gert hefir verið í bankanum á þessu tímabili, og viðskiptamenn hans hafa ekkert vitað, hvort bankinn myndi lifa eða deyja, og því ekki getað snúið sér til annara lánsstofnana, enda átt fé sitt fast í Íslandsbanka eða eignir sínar veðbundnar honum. Þrátt fyrir þetta er mér ekki kunnugt um, að nokkurt atvinnufyrirtæki hafi stöðvast ennþá vegna lokunar Íslandsbanka, eða hið minnsta dregið úr framleiðslunni. Aldrei hefir meiri fiskur komið á land en það, sem af er þessu ári, á jafnskömmum tíma. Ég er þess fullviss, að ef þegar í upphafi hefði verið horfið að því ráði að stofna Útvegsbankann og honum lagt til starfsfé eftir till. okkar jafnaðarmanna, þá hefði engin minnsta hindrun átt sér stað í framleiðslustarfseminni í landinu, enda þótt Íslandsbanka hefði verið lokað til fulls. Hitt, að af lokun bankans hefði stafað eitthvert ógurlegt tjón, er ekkert annað en grýla hjá hv. þm. Dal. og öðrum íhaldsmönnum, tilbúin í þeim tilgangi að hrella einstaka þm. í þessari hv. þd. og reyna að hræða almenning.

Um þel mitt og hv. þm. Dal. til fátæklinganna skal ég fátt eitt segja. Fátæklingarnir hafa, sem aðrir viðskiptamenn Íslandsbanka, verið lokkaðir með fölskum reikningum bankans til þess að trúa honum fyrir fé sínu til geymslu, þó að bankann hafi síðasti. 10 ár alltaf vantað meira en 3½ millj. kr. til þess að eiga fyrir skuldum, samkv. því, sem hv. 2. þm. G.-K. fórust orð um hag bankans í síðustu ræðu sinni. (ÓTh: Þetta hefi ég aldrei sagt). Jú, hv. þm. sagði, að bankinn hefði aldrei verið eins vel staddur fjárhagslega síðastl. 10 ár eins og síðustu dagana áður en honum var lokað. Og af því leiðir vitanlega, að bankann hafi öll þessi ár vantað meira en 3½ millj. kr. til þess að eiga fyrir skuldum. (ÓTh: Ég hefi aldrei viðurkennt, að tap bankans umfram eignir sé 3½ millj. kr.). Jú, hv. þm. hafði þessi ákveðnu orð um hag Íslandsbanka. En það er svo sem ekki ný bóla,. þó hann éti ofan í sig í öðru orðinu það, sem hann hefir sagt í hinu. Annars lýsir það sæmilega hugarfari hv. þm. Dal. og flokksbræðra hans til fátæklinganna, að vilja nú auka við skattabyrði þeirra 360 þús. kr. á ári, til þess að bæta fyrir afglöp Íslandsbankastjóranna.

Fullyrðingar hv. sama þm. um, að Íslandsbanki hefði getað haldið áfram að starfa, ef hann hefði fengið þær 650 þús. kr., sem meðhaldsmenn bankans eru alltaf að stagast á, þarf ég ekki að svara. Það er búið að margsanna, að sú upphæð hefði ekki komið að neinu gagni og bankinn verið jafnmáttlaus eftir sem áður.

Það er margt fleira í ræðu hv. þm. Dal., sem ég hirði ekki um að svara, eins og t. d. um bankareikningana og þá aðferð, sem bankastjórar hafa haft um að færa ógreidda víxlavexti á aðra kontó en þá venjulegu og telja danskar krónur sem íslenzkar, til þess að reikningarnir líti betur út.

Ég hirði heldur ekki um að svara þeirri fullyrðingu hans, að síðara matið hafi staðfest skyndimatið svonefnda. Ég hefi heyrt marga aðra fullyrða þetta sama, en þó hefir verið margsinnis sýnt fram á, að munurinn er 3½ millj. kr. Og þó að bankastjóri skrifi einhverjar aths. um mat n. og vilji gera minna úr tapinu, þá sé ég ekki ástæðu til að leggja mikið upp úr því. Yfirlýsingar bankastjóranna um hag bankans hafa til þessa reynzt fals eitt og markleysa.

Að lokum vildi ég segja það við hv. þm. Dal., ef ég má taka upp orð annars manns, sem fallið hafa hér í hv. d., að ég get vottað honum samúð mína sem manni í þessum raunum hans; en sem bankastjóra get ég ekki sagt neitt um hann, sem honum getur orðið til huggunar. Nema ef vera skyldi: Fyrirgef honum, hann viss eigi, hvað hann gerði.

Þá er sessunautur minn, hv. þm. Mýr., kominn í leitirnar, en við hann þurfti ég að segja fáein orð. Það er nú venjulega svo með þessa „penu“ menn og dagfarsprúðu, að þegar þeir reiðast, þá hættir þeim við að taka í munn sinn heimskulegustu stóryrðin, sem þeir hafa heyrt orðhákana nota.

Hv. þm. Mýr. hafði skamma stund talað, þegar fór að slá svo út í fyrir honum, að hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Hann sagði þó eitt af viti: að ómerk væru ómagaorð. Það staðfesti hann sjálfur átakanlega og sannaði með orðaskvaldri sínu. Þessu hv. þm. hlýtur og að vita það, að ýmsir hv. flokksbræður hans hér á Alþingi hafa þau orð um hann, að ráðandi menn Framsóknar hafi tekið hann upp af götu sinni og hlaðið svo undir hann, að hann sé nú orðinn einn af þyngstu ómögum flokksins, efnalega og andlega.

Samt leyfði þessi hv. þm. sér að segja, að þm. Alþýðuflokksins hefðu verið pólitískir vergangsmenn, þegar Framsókn tók þá upp á arma sína. (ÓTh: Kámugir vergangsmenn!). Já, ég kem að því síðar. Hann sagði, að þessir vergangsmenn hefðu orðið að koma til Framsóknar til þess að fá hjálp hennar til að koma fram þeim fáu umbótamálum, sem þeir hefðu komið fram. Þetta fannst honum einskonar ölmusa, sem Framsókn hefði veitt jafnaðarmönnum af eintómri náð og miskunnsemi. En ég hygg, að hv. þm. Mýr. hafi rekið sig á það, að Framsókn hefir ekki síður þurft að halda á styrk og aðstoð okkar jafnaðarmanna til þess að koma fram sínum fáu umbótamálum, svo að þar mun vera kaups kaups. Þessi hv. þm. lætur svo sem hann hafi orðið kámugur af samvinnunni við jafnaðarmenn, þ. e. af því að hjálpa þeim til að koma fram því, sem hann sjálfur viðurkennir, að hafi verið og séu sannnefnd „umbótamál“. — Hver eru þessi mál, sem hv. þm. hefir orðið kámugur af? Það eru t. d. togaravökulögin um 8 stunda hvíld á sólarhring, lækkun aldurstakmarks til kosningarréttar í sveitar- og bæjarstjórnarmálum, lögin um verkamannabústaði, slysatryggingar, greiðslu verkkaups og ábyrgðin fyrir Samvinnufélag Ísfirðinga fyrir láni til bátakaupa.

Hafi hv. þm. orðið kámugur af því að hjálpa okkur til að koma þessum umbótamálum fram, hefir hann verið skrítilega þveginn áður. Nema hann eigi við það, að hann hafi áður verið kolsvartur af íhaldsskít og við þetta hafi sézt í hvíta bletti á honum, bletti, sem hann nú vill aftur gera kolsvarta með því að nudda sér sem fastast aftan undir hv. 2. þm. G.K. og aðra íhaldsmenn. — Hann um það.

Annars veit ég ekki betur en að einmitt þau málin, sem Framsókn hefir mest hælt sér af og helzt hafa bætt fyrir henni meðal kjósenda, séu einmitt þau mál, sem við jafnaðarmenn höfum knúð hana til að hjálpa okkur að koma fram. Einmitt málin, sem ég áðan nefndi og þessi hv. þm. nú er að reyna að „þvo“ sig af.