07.03.1930
Neðri deild: 47. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

68. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

Gunnar Sigurðsson:

Það er aðeins örstutt aths. viðvíkjandi ummælum hv. þm. Ísaf. Hann talaði um lækkun vaxta út frá því, sem ég hafði áður sagt, og tók að vonum vel í það. En svo brá hann mér um fullmikið bjartsýni, þar sem ég hafði talið hlutaféð vel tryggt, en hann vildi álíta það illa tryggt. Áður nam hlutafé Íslandsbanka 4 millj. króna, en tap bankans metið 3½ millj. Nú er þessum nýja banka ætlað að hafa 8–9 millj. króna í hlutafé, og má þá einkennilegt vera, ef ekki verður allmikill gróði af slíku fyrirtæki, og ekki sízt, þegar þess er gætt, að Íslandsbanki, sem aldrei hefir verið talinn til öruggra fyrirtækja, græddi þó síðastl. ár um 400 þús. kr. Það mun áreiðanlega sannast, að hlutafé hins nýja banka verður vel tryggt og bankinn gróðavænlegt fyrirtæki.

Læt ég svo útrætt um þetta, og mun ekki taka aftur til máls í þessu máli.