12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Baldvinsson:

Ég er ekki viss um, að allar mínar brtt. séu komnar hingað í d. Sumar þeirra eru víst ennþá í prentun. Mun ég því tala fyrir þeim, sem fram eru komnar, og minnast á hinar um leið.

Það er þá fyrst, að ég flyt hér ásamt hv. 2. landsk. till. um að veita Sigurði Skúlasyni 700 kr. til þess að halda áfram rannsóknum í menningarsögu þjóðarinnar. Hann var einn af þeim, sem voru í syrpu þeirri, sem felld var hér um kvöldið að tilhlutun fjvn., án þess að nokkur vissi, hvernig menn myndu snúast gegn hverjum einstökum.

Við hv. 2. landsk. höfum nú tekið þennan mann hér upp, og álítum rétt að veita honum styrk til ritstarfa. Hann hefir líka þau meðmæli frá þeim mönnum, sem hann bezt þekkja, að hann sé líklegur rithöfundur einmitt á því sviði, er hér um ræðir. Hann hefir þegar safnað drögum til þriggja annara rita, sem hann hefir mikinn hug á að ljúka á næsta ári. Styrkur sá, sem þessi maður hefir notið undanfarin ár, virðist því ætla að bera góðan árangur. Annars hefi ég hér ummæli sagnfræðings Páls Eggerts Ólasonar, og held ég, að ég þurfi ekki að koma með meiri meðmæli en vitna til þeirra. Ég ætla, að hann láti ekki meðmæli nema hann geti við þau staðið. Vænti ég þess svo, að hv. d. samþ. þessa till., því hér er ekki um stórt fjárframlag að ræða. (HSteins: Má maður heyra meðmælin?). Já, þau hljóða svo:

„Herra mag. art. Sigurður Skúlason hefir um undanfarin ár lagt mikla stund á menningarsögu Íslendinga á síðari öldum, einkum allt það, er varðar galdra og hjátrú. Hann er hinn mesti iðjumaður og situr öllum stundum í bóka- og handritasöfnum. Er hann efalaust manna bezt að sér í þessu höfuðviðfangsefni sínu. Ætti og þá að vera mikill fengur í ritum frá hendi hans um það efni.

Reykjavík 21. jan. 1930.

Páll Eggert Ólason“.

Ég held því, að hv. þm. Snæf. hafi sannfærst af þessum meðmælum, ef hann hefir verið í vafa áður, og veiti þessari till. fylgi sitt.

Ásamt hv. 1. þm. G.-K. flyt ég XVIII. till. á sama þskj., um styrk til Eggerts Stefánssonar söngvara. Eggert Stefánsson er þegar orðinn þekktur söngvari, bæði hér og annarsstaðar. Ég þykist ekki þurfa að mæla með honum; fólkið hefir sjálft gert það með því að sækja koncerta hans og sýna honum fulla viðurkenning. Og það er svo um Eggert Stefánsson, að þó að hann sé orðinn þekktur maður, hefir hann aldrei fengið styrk frá Alþingi. Hann var verzlunarmaður hér í Reykjavík áður en hann hóf söngnám sitt, og brauzt síðan áfram af eigin rammleik og með stuðningi ættmenna sinna. En hann hefir ekki viljað láta í ljósi óskir um styrk af opinberu fé, fyrr en hann gæti lagt fram sannanir um, að hann væri þess verðugur. Af þessum ástæðum er upphæðin, sem farið er fram á, nokkuð hærri en venja er, enda er sá varnagli sleginn, að upphæðin skuli greidd í eitt skipti fyrir öll. Ég veit, að hv. þm. eru svo staðfastir, að ef slíkt er samþ., mundu þeir ekki líta við því, þó að einhverjum dytti í hug að bera fram samskonar beiðni aftur, enda höfum við fordæmi þess.

Sennilega hefir Eggert Stefánsson gert meira en flestir aðrir listamenn til að kynna Ísland og Íslendinga út á við. Hann hefir haldið koncerta í helztu stórborgum Norðurálfunnar, London, París, Khöfn og víðar, við góða aðsókn og lofsamleg ummæli. Ég veit, að hér í landi kom fram fyrir nokkrum árum hörð gagnrýni á Eggert Stefánsson frá ýmsum listdómendum, en þessa gagnrýni hefir hann gersamlega slegið niður með söng sínum, og það sýnir bezt, hversu góður söngvari hann er. Það er ekki lítið í það varið, ef menn, sem tekið er eftir erlendis, bera það með sér, að þeir eru frá Íslandi. Ég hugsa, að ekki sé tekið eftir okkur annarsstaðar fyrir annað meira en Einar Jónsson myndhöggvara, en lítil þjóð eins og við þurfum ýmislegt að gera til að vekja á okkur athygli og sýna, að hér býr menningarþjóð, en engir skrælingjar. Ég þykist því viss um, að hv. þm. munu veita þennan styrk. Þó að upphæðin sé nokkuð há, 3.000 kr., er hún ekki mikil, ef borið er saman við fjögra og jafnvel sex ára námsstyrki, sem oft eru veittir, þótt ekki séu háar upphæðir í hvert sinn.

Næst kemur XIX. till., um styrk til Árna Kristjánssonar, píanóleikara. Ég flutti þessa till. við síðustu umr. og færði fram ástæður fyrir henni. Árni Kristjánsson er óvenjulegum gáfum gæddur, að dómi allra, sem til þekkja. Ég lagði fram meðmæli við síðustu umr., en hefi enn fengið meðmæli frá Páli Ísólfssyni. Ég held, að það hafi verið fyrir einhvern misskilning, að þessi till. féll við síðustu umr. Ég tel víst, að ef menn hefðu verið búnir að gera sér grein fyrir, hvað um var að ræða, hefðu þeir samþ. hana.

Ég flyt ásamt hv. 2. þm. S.-M. eina till. á þskj. 499, um 1.200 krónur til Benedikts Björnssonar á Húsavík, til ritstarfa. Þetta var samþ. í Nd. Ég skal nú játa, að ég er ekki kunnugur þessum manni, en þeir sem til þekkja, álíta hann mjög efnilegan rithöfund. Hann er Þingeyingur, en eins og menn vita, er næstum því hver Þingeyingur vísindamaður og rithöfundur. Þessi maður er, sem sagt álitinn mjög efnilegur, og ég vil mæla hið bezta með, að honum verði veittur þessi styrkur. Benedikt vísar um upplýsingar til ýmissa merkra manna, svo sem Tryggva Þórhallssonar ráðh., Jónasar Jónssonar ráðh. Guðm. Thoroddsens prófessors, Páls Eggerts Ólasonar prófessors og Benedikts Sveinssonar forseta.

Þá á ég aðeins eina till. eftir, en hún er ekki komin. Ég vona samt, að hæstv. forseti leyfi mér að fara nokkrum orðum um hana nú þegar. Hún er þess efnis, að Snorra Arinbjarnar verði veittur 1.200 króna styrkur. Þessi maður er héðan úr Reykjavík og hefir stundað nám undanfarið í Oslo. Þaðan hefir hann ágætis meðmæli frá kennara sínum, Axel Revold. Þeir, sem vilja kynna sér þetta, geta að sjálfsögðu fengið að sjá fylgiskjölin hjá mér. Ég ætla að vera fáorður um þessa till. Þessi maður hefir ágæt meðmæli og þykir efnilegur. Það er satt, að mikið er veitt af þessum styrkjum, og þó er um meira sótt, svo að það er nokkur vandi fyrir hv. þm. að ákveða, hverja þeir eigi að styrkja og hverja ekki. En það er réttara að veita 1.000 krónum meira í því trausti, að maður gangi ekki fram hjá þeim hæfileikamönnum, sem gætu orðið landi og þjóð til stórsóma. Mörg listamannsefni hafa farið forgörðum, af því að þeim hefir enginn sómi verið sýndur.

Ég ætla að leyfa mér að bera fram fyrirspurn, til hæstv. dómsmrh. Á undanförnum árum, meðan stj. borgaði út styrk til stúdenta, var styrkurinn borgaður með gengismun á danskri og ísl. krónu. En eftir að menntamálaráðið tók við þessu; er mér sagt, að fjárhæðin í íslenzkum krónum hafi ekkert hækkað og enginn gengismunur sé borgaður. Þetta munar stúdenta miklu, og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvernig á þessu standi. Þessi regla hefir hvergi verið tekin upp nema hjá stúdentum. Kóngurinn fær útborgaðan gengismuninn og sömuleiðis sendiherrann. Ég vil mælast til, að hæstv. stj. leiðrétti þetta. Ég held, að stúdentarnir hafi á sínum tíma flotið með kóngi og sendiherra, þegar þeim voru ákveðin laun, en það er mjög óréttmætt að draga nú af fátækum námsmönnum, en láta hitt halda sér.