27.02.1930
Neðri deild: 38. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 2022 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

45. mál, háskólakennarar

Hannes Jónsson:

Minni hl. hefir ekki skilað neinu áliti í þessu máli. (ÓTh: Er hann þá álitslaus?). Málið virðist hafa eindregið fylgi, og því nær það fram að ganga, hvað sem sagt er eða skrifað. Hinsvegar vil ég benda á það, að mjög óeðlilegt er að fara nú að breyta lögum um laun sumra embættismanna, þar sem komið er að þeim tíma; að endurskoðun launalaganna fari fram. Það skiptir því ekki miklu máli, þótt þetta mál bíði og menn láti sér nægja þær breyt., sem gerðar verða á laununum á sínum tíma. (MG: Hvaða tími er það?). Það er ómögulegt, að hugsa sér annað en að sá tími komi bráðlega. Dýrtíðaruppbótin hefir ekki verið framlengd nema til eins árs og er því varla hægt að bíða lengi með að endurskoða launalögin. Það hafa engar ástæður verið færðar fyrir þessari dulbúnu launahækkun, sem sanni réttmæti hennar. Hv. þdm. er þetta efni svo ljóst, að það þýðir ekki að hafa langar umr. um svo einfalt mál. Hér er heldur ekki um neina stórfellda breyt. eða launahækkun að ræða, sem hafi verulega þýðingu fyrir hlutaðeigandi embættismenn, og slík breyt. yrði ekki til þess að fyrirbyggja nýjar breyt. á þeim, þegar launalögin verða endurskoðuð.

Vegna þessa telur minni hl. ástæðulaust að gera þessa breyt. og leggur því eindregið á móti frv.