12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég flyt hér brtt. á þskj. 497, XXXII., um það að heimila stj. að láta athuga og gera áætlun um endurbyggingu sjóvarnargarðs á Siglufirði og greiða síðan úr ríkissjóði heiming kostnaðar við framkvæmd verksins, gegn jafnmiklu frá Siglufjarðarkaupstað. Það eru nú liðin 8–10 ár síðan gerður var sjóvarnargarður á Siglufirði. Þannig háttar til, að í stórflóðum og miklum sjávargangi gengur sjór yfir Siglufjarðareyri, brýtur hana að norðanverðu, gengur upp í kaupstaðinn, svo að flæðir í kringum hús á eyrinni. Þegar garðurinn var gerður, lagði ríkissjóður fram helming kostnaðar. Eyrin er eign ríkissjóðs, og þess vegna þótti rétt, að hann legði fram helming kostnaðar til móts við íbúana, til þess að vernda eyrina og hús og aðrar eignir, sem á henni standa. Nú er það komið í ljós, að þessi garður nægir ekki til þess að varna því, að sjór gangi yfir eyrina. Nú fyrir skemmstu í vetur urðu mikil spjöll af sjávargangi, ekki einasta hjá íbúum kaupstaðarins, heldur einnig á eignum ríkissjóðs. Hefir nú þegar nokkuð verið athugað, hvað þyrfti að gera til þess að fullkomin vörn sé gegn flóðum, en ekki verið gerð fullnaðaráætlun. Það er því ekki hægt að segja að svo stöddu, hver kostnaðurinn verður. Ég tel sjálfsagt, að aðiljar leggi fram fé til verksins í sömu hlutföllum sem áður. Það getur valdið miklu eignatjóni, ef sjór nær að flæða upp í kaupstaðinn, auk þess sem eyrin er í hættu að eyðast og brotna upp. Vildi ég mega vænta þess, að hv. d. sæi sér fært að veita slíka heimild, en út í þetta verður vitanlega ekki lagt, nema Siglufjarðarkaupstaður leggi fram sinn hluta kostnaðarins. Samskonar till. kom fram í hv. Nd., en féll með tiltölulega litlum atkv. mun, og mun það að miklu leyti hafa stafað af mistökum.

Ég skal ekki tala langt mál um brtt. við þessa umr. Hv. fjvn. flytur fáar, og í raun og veru hefir engin þeirra áhrif á fjárhagslega niðurstöðu fjárl. Ég skil það svo, og er þakklátur fyrir, að hún telji ekki varlegt að bæta nýjum, auknum gjöldum á fjárl. N. hefir forðazt að flytja nýjar útgjaldatill. Af því vil ég ráða, að n. muni standa saman í að sjá fjárl. borgið í svipaðri mynd sem frv. er nú. Af 1. brtt. n. sé ég enn ljósar, að þessi stefna vakir fyrir n.

N. gerir till. um að hækka tekjuliðina um 60 þús. kr., til að jafna þann halla, sem nú er í fjárl. En. n. verður að gæta þess, að tekjurnar aukast ekki um einn eyri, þótt þessi till. verði samþ. Ég hefi samt ekki á móti því, að svo verði gert. En n. verður að hafa hugfast, að til þess að fá sæmilega útkomu á fjárl., eins og ég veit að hún vill fá, verður að lækka útgjöldin.

Ég verð að segja það um brtt. á þskj. 496 og fleirum þskj., að ég undrast þær nokkuð. Hér er sem sagt verið að tína upp flesta þá liði, sem felldir voru við 2. umr. Ég skil ekki, hvernig þeir, sem till. þessar flytja, geta ætlast til þess, að Ed. samþ. nú það, sem hún felldi fyrir fáum dögum. Brtt. þessar eru að vísu flestar smávægilegar, en „safnast þegar saman kemur“, og yrðu allar hækkunartill. á þskj. 496 samþ., nema þær 173 þús., og er þó nokkuð á öðrum þskj. Ef þetta bættist við þann tekjuhalla, sem þegar er orðinn, yrði tekjuhallinn 226 þús. kr., því að frá þessum halla þarf ekki að draga 60 þús. kr. hækkun á verðtolli, af því að sú hækkun hefir engin áhrif á tekjurnar.

Mér finnst því, að þessar till. beri vott um talsverða léttúð og lítinn vilja á því að afgreiða fjárl. í sæmilegu horfi.

Þær brtt., sem mestri hækkun valda, eru frá hv. þm. Ak. og hv. 3. landsk. Ég býst við, að þeim sé ljóst, að þeir séu að afgreiða fjárl. með tekjuhalla, ef þeir ætlast til, að brtt. þeirra verði samþ. Þessar till. eru þannig vaxnar, að þó að þær séu framtíðarmál, þá er engin sérstök ástæða til að flytja þær nú.

Um brtt. hv. þm. Ak. er það að segja, að engar upplýsingar liggja fyrir um þau tvö atriði, sem till. hljóðar um. Hygg ég, að enginn undirbúningur hafi verið gerður um lesstofu í bókasafni skólans, né eldhús fyrir heimavist. Tel ég þetta að vísu framtíðarmál, en ekki tímabært.

Um brtt. hv. 3. landsk. um 75 þús. kr. til taugakerfa fyrir raforku í sveitum, er svipað að segja. Enn sem komið er, er þetta hugsjónamál og lítið annað. Áður en hafizt verður handa í þessu efni, verður að rannsaka þetta mál ítarlega og koma sér niður á ýmislegt, sem að því lýtur, eins og t. d. að hve miklu leyti Alþingi vildi taka þátt í kostnaðinum, hvort rafveitur á hinum ýmsu stöðum yrðu dýrar eða ódýrar, en það er auðvitað mjög misjafnt. Ennfremur verður að gera sér ljóst, hvort íbúar hinna einstöku héraða muni geta risið undir rafveitum. Þar sem sveitirnar geta ekki risið undir kostnaðinum, þýðir ekki að leggja rafveitur. Sú reynsla hefir orðið á í öðrum löndum, þar sem rafveitur hafa verið settar upp fyrirhyggjulítið, að héruðin hafa oftlega örmagnazt undir þeim. En af brtt. hv. 3. landsk. verður ekki séð, hvernig á að verja þessu fé, svo að till. er að nokkru leyti í lausu lofti.

Hv. 3. landsk. sagði, að útgjöldin á þessum fjárl. væru 2 millj. kr. hærri en 1928, og því skipti ekki miklu, þótt 75 þús. kr. bættust við. Hann minntist á, að í þessu frv. væri lagt fram fé til framkvæmda, sem ekki væru síður vafasamar, eins og til útvarps og flugmála. Ég skal ekki deila við hann um þetta. En þingið hefir ályktað, að útvarpsstöð skyldi verða sett hér upp, og eftir að útvarpslögin voru samþ. vildi þingið, að þegar yrði hafizt handa. Að vísu álít ég, að þetta hefði getað beðið. Um það erum við sammála.

Um flugmálin er það að segja, að því má halda fram, að þau hafi ekki fengið nægan undirbúning. En málið hefir fylgi Nd., og er ekkert líklegra en að hún hefði sett fjárveitinguna inn aftur, hefði hún verið felld niður hér í d. En það eru margar framkvæmdir, sem verða að bíða betri tíma, og þá ekki sízt framkvæmdir, sem eru jafn órannsakaðar og óundirbúnar sem rafveiturnar. Ég efast ekki um, að fólkið í sveitunum vilji fá rafveitur, en það þarf að gera því það skiljanlegt, að það megi ekki taka á sig þær byrðar, sem það getur svo ekki risið undir.

Hv. 3. landsk. sagði, að ekki væri nóg að leggja fram fé til rannsókna, heldur þyrfti og að leggja fram fé til framkvæmda. En þá fyrst kemur til framkvæmda, er undirbúningur hefir verið gerður. Hv. þm. sagði ennfremur, að raforkuveitur væru hliðstæðar síma- og vegakerfum. Þó eru rafveiturnar ekki sambærilegar við vegagerðir, því við vegagerðir fara peningarnir ekki út úr landinu. Ég sé, að hv. 3. landsk. grettir sig. (JÞ: Já, ég geri það). Þá má hann það fyrir mér. Það er jafnóhrakið eftir sem áður, að meira fé fer út úr landinu við að byggja raforkuveitur en að byggja vegi.

Ég veit, að mál þetta er vel fallið til að koma sér vel við kjósendur, en ég vil ekki í þessu máli fremur en öðrum vinna það fyrir neina kjósendahylli að hrapa að framkvæmdum, þegar um stórmál er að ræða.

Þá vil ég minnast á aðra brtt. frá hv. 3. landsk., sem að vísu er smávaxin, en getur þó dregið dilk á eftir sér. Verði brtt. þessi, sem að vísu hljóðar aðeins um 400 kr., samþ., má búast við, að á eftir komi heill hópur manna inn í 18. gr. Hingað til hefir verið sneitt hjá því, að símamenn væru teknir inn í 18. gr., og ef byrjað er á slíku, munu margir á eftir koma, sem hafa líka aðstöðu og sá maður, sem hér um ræðir. Verð ég því að 1eggja eindregið á móti till. þessari.

Ég geri ráð fyrir að greiða atkv. á móti flestum brtt. Ég tel það hlutverk mitt, þótt það sé kannske ekki vinsælt hlutverk að hafa gætur á sæmilegri afgreiðslu fjárl.