12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Þorláksson:

Ég vildi fyrst taka undir þau ummæli, sem féllu frá hv. 4. landsk., og láta í ljósi eindregna ósk um það, að þeir stúdentar, sem fá styrk til náms við háskóla erlendis að tilhlutan menntamálaráðsins, geti orðið sömu kjara aðnjótandi og þeir hafa nú eftir fjárlagafrv. stj., þ. e., að þeir fái styrkinn greiddan með þeim gengisviðauka, sem samsvarar gengisfalli íslenzkrar krónu. Það hefir verið svo fram að þessu ári og sýnist hart — þar sem þessi styrkur er ekki meiri en 1.200 kr. — að fara nú að taka af honum 200 kr. vegna verðfalls krónunnar.

Þá á ég brtt. á þskj. 503, sem er borin fram eftir till. vegamálastjóra. Hún er um það, að laun aðstoðarverkfræðings skuli hækka úr 5.600 kr. í 6.780 kr.

Þetta er ekki hækkun nema að nokkru leyti, því upphæðin er lögákveðin, en ekki rétt talin í frv. Laun þessa verkfræðings eiga nú að vera 6.020 kr., svo að mismunurinn verður ekki nema 760 kr.

Þessi till. um launahækkun er hér fram komin vegna þess, að á þessu þingi hefir samskonar launaviðbót verið samþ. fyrir aðstoðarverkfræðing vitamálastjóra. Var sú launahækkun þó 800 kr.

Báðir þessir menn hafa fengið sömu menntun. Þeir eru útskrifaðir frá tekniska skólanum í Þrándheimi. Þessi verkfræðingur hjá vegamálastjóra hefir þó starfað tveimur árum lengur en hinn, og virðist því ekkert réttlæti vera í því að draga launahækkunina af honum, fyrst hinn hefir fengið hana. Sú hækkun var samþ. með miklum meiri hl., og vona ég því, að hv. d. líti nú eins á þetta mál.

Þá ætla ég aðeins með örfáum orðum að svara hæstv. fjmrh. (EÁ), þar sem hann mótmælti brtt. minni á þskj. 497, þótt ég viti, að raunar hafi það ekki mikið að segja gegn því atkvæðamagni þessarar hv. deildar, sem muni standa að baki þeirra orða.

Hæstv. ráðh. andmælti till. um 75 þús. kr. styrk til rafveitu utan kaupstaðanna af tveimur ástæðum, og var önnur þeirra sú, að þessi upphæð gerði tekjuhalla á fjárlagafrv.

Ég var búinn að gera grein fyrir því, að svo smávægilegur tekjuhalli væri aðeins partur úr 1% af öllum útgjöldum eftir frv., og skipti því í raun og veru ekki máli. Þar að auki benti ég á lið, sem mér sýndist ekki eiga að ganga fyrir slíkum fjárframlögum sem þessum, þótt ég hafi ekki komið hér fram með lækkunartill. við hann í samræmi við þessi ummæli mín.

Þá var það önnur ástæðan, að þetta mál væri allt svo ótímabært og fram komið til þess að veiða atkv. einfeldninga í sveitum. Ég fyrir mitt leyti vil vísa þessari skoðun ráðh. frá mér. Síðan ég starfaði í mþn. í vatnamálum árin 1918–1920 hefir mér verið það ljóst, að vatnsaflið verði að nota til almenningsþarfa, og ég er sannfærður um, að það eru í raun og veru ekki meiri erfiðleikar á að framkvæma þetta en ýmis önnur alþjóðarviðfangsefni, sem núverandi kynslóð hefir tekið upp og þótti fjarstæða, þegar byrjað var, en hefir nú sýnt sig að voru viðráðanleg, t. d. vegalagningar og símalagningar.

Hæstv. ráðh. spurði, hvernig ætti að verja þessari fjárveitingu. Því er fljótsvarað. Henni á að verja eftir till. þeirrar nefndar, sem stj. hefir skipað til þess að rannsaka þetta mál. (Rödd: Staðhættir eru misjafnir). Það er rétt, en þessi mismunur hlýtur að skapa eðlilega rás framkvæmda, þannig, að þar verði fyrst ráðizt í framkvæmdir, sem öll skilyrði eru hagkvæm fyrir hendi. Ég skal benda á, að það er þegar lokið rannsókn í einu héraði landsins. Skagafirði, og þar eru menn nú sannfærðir um, að með hæfilegu framlagi ríkissjóðs verða þær framkvæmdir ekki ofviða. Þetta álit þeirra, sem byggist á kostnaðaráætlun þeirri, sem gerð hefir verið, fer í bág við þá skoðun hæstv. fjmrh., að þetta geti hvergi blessazt eða þrifizt hér á landi eins og þjóðarhögum nú er farið.

Ég ætla ekki að banda hér á móti vegalagningum, en það er satt, að mér fannst hæstv. ráðh. ekki sýna nógan þjóðhagslegan skilning, þegar hann bar fram þau andmæli, að til raforkuveitna þyrfti erlent efni, en vegálagning tæki aðeins innlent vinnuafl.

Það er enginn verulegur munur á því fyrir þjóðarhag, hvort vinnukraftur er tekinn til þess að framkvæma vegagerðir, eða sá sami vinnukraftur er látinn stunda útflutningsframleiðslu og efni í rakorkuveitur flutt inn fyrir það fé, sem hin framleidda útflutningsvara gefur í aðra hönd. Ég held, að hæstv. ráðh. sé hér algerlega á villigötum.

Þetta var ekki annað en ég átti von á frá hæstv. ráðh. Hann var á móti þessu máli á síðasta þingi, og bjóst ég ekki við að hann hefði orðið neitt bjartsýnni þótt eitt ár væri liðið. Hitt kom mér óvart, þegar hæstv. ráðh. lagði á móti lítilfjörlegum ellistyrk til sjóndapurs manns, sem var svo lengi starfsmaður hins opinbera, að margir hafa notið styrks í 18. gr. fjárl., sem skemur hafa starfað fyrir hið opinbera.

Ég býst ekki við, að það sé meiningin að halda símamönnum í þeirri sérstöðu innan opinberra starfsmanna, að ekkert sé litið til þeirra í 18. gr. fjárl., þótt starfsmenn úr öllum öðrum greinum hins opinbera eigi þar nokkuð greiðar, aðgang að. Það má líka benda á það, að stétt símamanna er þegar komin inn í 18. gr., því þó að það sé ekki mikið, er það þó að minnsta kosti 1 embættismannsekkja, sem nýtur nú þegar nokkurs framlags þaðan.

Þá lagðist hæstv. dómsmrh. á móti þeirri till. minni að heimila stj. að borga það, sem hvílir á einstökum mönnum vegna byggingarkostnaðar sjúkrahússins á Eyrarbakka, sem nú hefir verið tekið fyrir vinnuhæli. Hæstv. ráðh. sagði söguna aðeins lítið eitt lengri og fyllri en ég hafði gert, en ekkert kom þar nýtt fram nema það, að hann ámælti þessum mönnum fyrir fyrirhyggjuleysi, þar sem þeir hefðu ráðizt í að hafa húsið of stórt.

Ég vil minna á það, sem ég hefi áður borið þeim fram til afsökunar, að þeir fóru hér eftir ráðum tveggja embættismanna ríkisins, sem um þetta mál fjölluðu samkv. embættisskyldu sinni. Stærð hússins var ákveðin eftir till. landlæknis, en hann hefir kannske verið nokkuð bjartsýnn á þeim árum.

Hæstv. ráðh. dró þá ályktun, að þeir hefðu hvorki lagalegan eða siðferðislegan rétt til þess að sleppa undan þessu. Lagalegan rétt hafa þeir vitanlega ekki, en siðferðislegan rétt hafa þeir að því leyti, að þeir eiga ekki að verða fyrir persónulegu tjóni, þótt þeir hafi verið kjörnir í nefnd til þess að framkvæma mál, sem almenningur ræðst í og vill láta framkvæma.